Sumarframkvæmdirnar komnar á fulla ferð

Framkvæmdirnar á Melabrautinni eru á fullu.

Nú eru sumarframkvæmdirnar á Seltjarnarnesi komnar í fullan gang. Unnið er að endurbyggingu Melabrautar. Verið er að innrétta húsnæði fyrir dægradvöl barna við Mýrarhúsaskóla og leggja gervigras á svæðið á milli Mánabrekku og Sólbrekku svo nokkuð sé nefnt.

Að undanförnu hefur verið að unnið endurnýjun Melabrautar. Undirstaða þess er að breyta henni úr svonefndri vistgötu í íbúðagötu. Lagðar verða gangstéttir beggja vegna götunnar og stöðu ljósastaura breytt og settar sparneytnar perur í ljósastæðin. Gatan er of þröng til þess að hægt sé að nýta hana fyrir tvístefnu götu en bílastæð verða framvegis beggja vegna hennar.

Nú er verið að innrétta byggingu við Mýrarhúsaskóla og ætlunin er að taka hana í notkun fyrir dægradvöl fyrir yngri skólabörn eftir að venjulegum skólatíma lýkur. Þá dvelja börnin þar við heimanám og leiki þar til þau eru sótt sem er um fjögur leytið á daginn. Þá er verið að vinna að hönnun viðbyggingar við Íþróttahúsið á Seltjarnarnesi. Í sundlauginni er unnið að ýmsum lagfæringum. Skipta á um inntök á lokum og einnig er ætlunin að koma nýrri rennibraut fyrir. Eins og jafnan á þessum tíma er unnið að ýmsum lagfæringum við að fegra og bæta bæjarumhverfið. Gervigras verður sett á svæðið á milli leikskólanna Mánabrekku og Sólbrekku og einnig hefur tveimur hvítmáluðum stofum verið komið á lóð þeirra til þess að bæta úr húsnæðisþörf. Ný sláttuvél hefur verið tekin í notkun – öflugri en hin eldri auk þess sem hún safnar grasinu saman. Það sparar rakstur og ekki þörf á vegna þess að mannekla er farin að gera vart við sig í sumarstörfum sem öðrum.

You may also like...