Ákveðið að fresta sameiningu Suðurborgar og Hólaborgar
Ákveðið hefur verið að fresta sameiningu yfirstjórnar leikskólanna Suðurborgar og Hólaborgar í Suðurhólum í Breiðholti. Í tillögu skóla- og frístundaráðs borgarinnar var gert ráð fyrir að með sameiningu yrði til nýr 10 deilda leikskóli með um 160 börn og með sérhæfðri ungbarnadeild. Lóðir skólanna liggja saman og eru þær aðskildar með girðingu en aðeins 43 metrar eru á milli Suðurborgar og Hólaborgar.
Talsverð andstaða hefur verið við sameiningu leikskólanna bæði innan skólanna sjálfra og einnig á meðal foreldra barna sem þar dvelja. Þegar hefur um tugur starfsmanna skólanna sagt upp störfum eða íhuga að gera það verði af áformum um sameiningu þeirra. Margir foreldrar hafa undirritað bréf um að þeir séu andvígir sameiningaráformum borgarinnar. Innan skólanna munu vaxandi áhyggjur vera af því að fagfólk hverfi úr störfum sem erfitt geti orðið að manna að nýju og foreldrar hafa einnig áhyggjur af því raski sem þau telja að sameining geti haft.