Við þurfum að blanda leiðum
Halldór Halldórsson borgarfulltrúi og oddviti sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn spjallar við Breiðholtsblaðið að þessu sinni. Halldór hefur setið í borgarstjórn Reykjavíkurborgar frá síðustu borgarstjórarkosningum. Hann hefur mikla reynsu af sveitarstjórnarmálum. Var bæjarstjóri á Ísafirði um árabil og hefur einnig sinnt formennsku í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga frá árinu 2006 eða í rúman áratug. Halldór var inntur eftir sinni sýn á málefni Reykjavíkurborgar.
Á nýafstöðnu Reykjavíkurþingi Sjálfstæðisflokksins var sérstaklega tekið fram að útsvar skuli lækkað úr lögbundnum hámarki sem er 14,52% í lögbundið lágmark sem er 12,44%. Er hugsanlegt að ná þessu með breyttum áherslum í rekstri án þess að draga úr þeirri þjónustu sem borgin veitir íbúunum.
“Já það er hægt að ná þessu í áföngum og með bættum rekstri og gæta þess að grunnþjónustan sé góð og betri en hún er í dag. En til þess þarf breytt hugarfar. Ekki hugarfar vinstri flokkanna sem telja að innheimta verði helst hverja krónu sem skattfé.”
Blanda leiðum þéttingu byggðar og byggingu nýrra hverfa
Sjálfstæðisflokkurinn vill endurskoðun á núgildandi aðalskipulagi Reykjavíkur því nauðsynlegt sé að ná betra jafnvægi í þéttingu byggðar og nýrra byggingarsvæða. Hvort á að leggja meiri áherslu á áframhaldandi þéttingu byggðar eða leita að svæðum fyrir ný úthverfi og þá hvar. Er Geldinganesið enn kostur í byggingamálum og einnig spurning um nýtingu á Kjalarnesi sem nú er hluti af Reykjavíkurborg.
“Þéttingarstefnan gengur út í öfgar hjá meirihlutanum með þeim afleiðingum að fólk fær ekki þak yfir höfuðið á sér. Það vantar fimm þúsund íbúðir í dag og mun vanta 1.400 á ári til ársins 2030 hið minnsta miðað við spár. Það á að blanda þessum leiðum saman. Þétta byggð og byggja í Úlfarsárdal og í framtíðinni í Geldinganesi um leið og Sundabrautin verður lögð.”
Mætti nýta Mjóddina betur en í samráði við íbúa
Samkvæmt núgildandi skipulagi mun mega fjölga íbúum í Breiðholtinu um allt að 500. Er æskilegt að halda sig við þessar hugmyndir eða draga úr vægi þeirra – til dæmis er varðar Garðheimareitinn.
“Það er hægt að nýta Mjóddina betur, það er ekki nokkur vafi en það þarf að gera í samráði við íbúana. Þarna er mikilvægt þjónustusvæði sem hægt er að efla enn frekar og þarna getur verið blönduð byggð með flottum íbúðum. Staðsetningin er frekar miðsvæðis þegar horft er til höfuðborgarsvæðisins í heild. Það er hins vegar ekki skynsamleg nýting á Suður Mjódd að troða niður bílaumboði þar rétt ofan í æfinga- og keppnissvæði ÍR í óþökk við íbúana.”
Strætó og sjálfkeyrandi bílar í framtíðinni
Samgöngumálin eru sígilt umræðuefni borgarbúa. Borgarlínan er kostnaðarsöm framkvæmd. Er hún nauðsynleg í þeirri útfærslu sem hún er hugsuð. Getur komið til greina að grafa fjölfarnar umferðaræðar í jörð – æðar á borð við neðri hluta Miklubrautar, samgönguæð til austurs meðfram gömlu höfninni og hugsanlega hluta Hringbrautar. Er möguleiki til þess að einkabíllinn geti þjónað eins stórum hluta/hlutfalli af samgöngum í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu framvegis sem fyrr og þá kemur spurning um hvort og hvernig rafbílavæðingin komi til með að geta mætt auknum umferðarþunga.
“Almenningssamgöngur er hægt að efla í Reykjavík með því að fjölga ferðum strætó – auka tíðnina. Það á að vera val fólks hvort það vill nota strætó, ganga, hjóla eða nota einkabílinn. Það er ljóst að flestir velja einkabílinn og þannig verður það áfram. Við þurfum að gera hverfin sjálfbærari. Stuðla að því að fleiri geti sótt vinnu innan síns hverfis sem og alla helstu þjónustu. Við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfum lagt til að Miklubraut verði lögð í stokk sem og Geirsgatan þar sem allt er uppgrafið núna. Meirihlutinn felldi ekki tillöguna um Miklubraut en felldu umsvifalaust tillöguna um Geirsgötu. Hvers vegna skil ég reyndar ekki.” Halldór segir svo margt framundan í samgöngumálum sem tæknin sé að fara að breyta. “Þess vegna er borgarlína sem lestarfyrirbæri mjög líklega úrelt áður en hún væri tekin í notkun. Sjálfkeyrandi bílar taka við einhverju af almenningssamgöngum. Við vitum ekki hversu miklu. Þá er spurningin hvernig almenningssamgöngur verða að öðru leyti. Líklega strætó á ákveðnum línum eins og í dag og svo sjálfkeyrandi bílar sem veita betri þjónustu. Ná í fólk heim til sín. Pössum okkur á því að innleiða ekki lausnir sem verða úreltar daginn sem þær eru teknar í notkun.”
Reykjavíkurflugvöllur út skipulagstímabilið
Eitt af umdeildum samgöngumálum í Reykjavík er framtíð flugvallarins í Vatnsmýrinni. Nú er ljóst að hann mun ekki geta þjónað millilandaflugi nema að mjög litlu leyti. Er möguleiki til þess að ef farið yrði að hugmyndum Rögnunefndarinnar og ráðist í byggingu alþjóðaflugvallar í Hvassahrauni að sú flugstarfsemi sem nú er í Vatnsmýrinni myndi flytjast þangað.
“Hugsanlegur flugvöllur í Hvassahrauni er hugmynd sem þarf að skoða. Það er margt sem getur komið í veg fyrir það. T.d. flugskilyrði, nálægð við Keflavíkurflugvöll, umhverfismat, vatnsmál Suðurnesjamanna o.fl. Og þetta er töluvert inni í framtíðinni ef af yrði. Þess vegna er flugvöllurinn í Vatnsmýri ekki að fara neitt. Með Sjálfstæðisflokkinn í meirihluta myndum við endurskoða aðalskipulag Reykjavíkurborgar af mörgum ástæðum. Ein þeirra væri sú að við myndum tryggja flugvöllinn í Vatnsmýri út skipulagstímabilið.”
Aðgerðir vegna kennara og fyrirsjánlegs kennaraskorts
Skólamálin eru stór þáttur í rekstri Reykjavíkurborgar eins og allra sveitarfélaga. Hver eru næstu stóru verkefni á sviði skólamála. Hvort liggja þau fremur á uppbyggingu aðstöðu t.d. skólahúsnæðis og umgjörð frístundaheimila eða liggur fremur á að leggja áherslu á fræðslustarfið sjálft og námsárangurinn.
“Fræðslustarfið sjálft og árangur er það sem er mikilvægast. Stefna okkar í skólamálum byggir á því að allir nemendur hafi aðgang að námi sem hentar hverjum og einum. Hagsmunir nemenda séu ávallt miðpunktur stefnumörkunar og framkvæmda. Við viljum færa áherslu frá miðstýringu í átt að auknu sjálfstæði og sveigjanleika í skólastarfi og að fé fylgi barni í námi.” Halldór segir að um leið og þetta er sagt sé ljóst að það þurfi að sinna betur viðhaldi skólahúsnæðis og bæta aðstöðu kennara og nemenda í mörgum skólum þar sem þetta hefur verið vanrækt. “Við þurfum líka að fara í aðgerðir vegna kennaranna sjálfra og fyrirsjáanlegs kennaraskorts því það er enginn skóli án kennara frekar en nemenda. Álag á kennara hefur aukist skv. könnunum og viðtölum við kennara. Við þessu þarf að bregðast í samstarfi við kennarana sjálfa. Stefnumótun er góð og gild en það eru aðgerðir sem skipta mestu máli. Í þær viljum við fara.”
Íþróttafélögin geta náð hagstæðari samningum
Íþróttaaðstaða er stöðugt til umfjöllunar og ekki hefur hafst undan að fylgja eftir þeirri þörf sem hefur skapast eins og sjá má af málefnum ÍR fram til þessa. Er það leið að íþróttafélögin efni sjálf til framkvæmda í skjóli borgarinnar.
“Það getur oft verið fær leið að semja við íþróttafélögin sjálf. Þau geta náð hagstæðari samningum og þau geta líka rekið íþróttamannvirkin með hagkvæmum hætti.”
Félagslegu húsnæðismálin í kreppu
Velferðarmálin eru oft hlutfallslega þyngri í höfuðborgum en öðrum sveitarfélögum því þangað sækir jafnan fólk sem þarfnast félagslegrar aðstoðar. Hvar kreppir skóinn helst að í Reykjavík. Í húsnæðismálum, í heilbrigðismálum eða í afkomuöryggi. Hvað getur Reykjavíkurborg gert til þess að lyfta undir með fólki að þessu leyti.
“Við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfum talað fyrir því að fjárfesta í velferðartækni til að hægt sé að veita fleirum betri þjónustu, ekki síst eldri borgurum sem vilja gjarnan vera lengur heima hjá sér. Það gerist lítið í þeim málum af hálfu meirihlutans, reyndar ekkert. Og það vantar fleiri hjúkrunarrými í borginni. Ég hef lagt fram fyrirspurnir um hvað borgin sé að gera í þeim málum í samstarfi við ríkið en það er fátt um svör fyrir utan það sem er framundan á Sléttuveginum. En þörfin er meiri en svo. Húsnæðismálin eru í mikilli kreppu. Þegar kosið var til borgarstjórnar árið 2014 voru um 400 manns á biðlista eftir félagslegu húsnæði en nú nálgast það að var 1.000 manns. Meirihlutinn er með allt niður um sig í þessum málum,” segir Halldór Halldórsson.