Breiðholt Got Talent í ellefta sinn

– og söngkeppni Breiðholts sama daginn

Sigurvegararnir í söngkeppni Breiðholts komu úr félagsmiðstöðinni Bakkanum með frumsamda lagið „Ég er skinka“ en í því atriði voru Nikki, Tristan, Emilía, Alexandra og Era.

Breiðholt Got Talent – Hæfileikakeppni félagsmiðstöðvanna í Breiðholti var haldin í 12. skipti í Breiðholtsskóla þann 25. febrúar síðastliðinn, samhliða henni var líka söngkeppni Breiðholts en sérstök dómnefnd sá um að velja besta söngatriðið. Það var vægast sagt stórkostleg mæting á viðburðinn en tæplega 200 unglingar mættu á keppnina. Ellefu glæsileg atriði tóku þátt í ár en dómarar völdu efstu þrjú atriðin sem áhorfendur í sal fengu síðan að kjósa um.

Sigurvegararnir komu úr félagsmiðstöðinni Bakkanum með frumsamda lagið „Ég er skinka“ en í því atriði voru Nikki, Tristan, Emilía, Alexandra og Era.

Í öðru sæti var hún Kimberly úr félagsmiðstöðinni 111 með glæsilegt söngatriði og því þriðja var hún Ásdís úr félagsmiðstöðinni Hólmaseli. Efstu 2 sætin úr söngkeppni Breiðholts munu síðan taka þátt í söngkeppni Samfés fyrir hönd félagsmiðstöðvanna í Breiðholti í lok apríl en það voru þær Kimberley úr 111 og Ásdís úr Hólmaseli. Framtíðin er sannarlega björt í Breiðholti.

Öll börnin voru að stíga stór skref

Sama dag fór líka fram Breiðholt Got Talent – Frístund en það er hæfileikakeppni frístundaheimilanna í Breiðholti. Mikil og sterk hefð er fyrir þessari keppni og er þessi árlegi viðburður mjög vinsæll. Þrátt fyrir að um keppni sé að ræða er mikilvægt að hafa það í huga að öll börnin voru að stíga stór skref með því að fara upp á svið og sýna atriðin sín fyrir framan fullan sal af áhorfendum. Kynnir keppninnar var eins og undanfarin ár Sigyn Blöndal sem stýrði þessu með glæsibrag.

Siguratriði frá Bakkaseli

Hvert frístundaheimili var með sína eigin undankeppni þar sem tvö atriði komust áfram í lokakeppnina. Það voru því 14 stórkostleg atriði sem stigu á svið í hátíðarsal Breiðholtsskóla. Keppnin var gríðarlega hörð og spennandi og það var ótrúlega gaman að sjá hvað börnin í hverfinu okkar eru hæfileikarík. Sumir sungu, aðrir spiluðu á hljóðfæri og enn aðrir dönsuðu. Keppnin var virkilega skemmtileg og hvert hæfileikaríka barnið tók við af öðru. Öll atriðin voru alveg frábær og það var úr vöndu að ráða fyrir dómnefndina en hana skipuðu: Hlynur Einarsson, Stefanía Lilja Arnardóttir og Svava Gunnarsdóttir en þau eru öll starfsmenn félagsmiðstöðva í Breiðholti.

Siguratriðið í ár kom frá frístundaheimilinu Bakkaseli og var það hún Sóldís Lilja, nemandi í 4. bekk við Breiðholtsskóla sem stóð uppi sem sigurvegari, en hún söng lagið Ég sé þig. Við óskum henni að sjálfsögðu til hamingju með sigurinn. Við vonum að börnin haldi áfram að rækta sína hæfileika því þeir eru svo sannarlega til staðar í hverfinu okkar.

Framtíðin er sannarlega björt í Breiðholtinu með öllum þessum hæfileikaríku börnum og unglingum.

Lilja, nemandi í 4. bekk við Breiðholtsskóla stóð uppi sem sigurvegari í Got talent, en hún söng lagið Ég sé þig. 

You may also like...