Gestum fjölgar ár frá ári

Tónlistaratriði fóru m.a. fram í hljóðveri í Vogaseli.

Lista­hátíðin Breiðholts Festi­val var hald­in í þriðja sinn í Seljahverfinu og nágrenni í júní. Hátíðin var vel sótt og góð stemn­ing á hátíðasvæðinu úti og inni. Hátíðin var fyrst hald­in sum­arið 2015 en á bak við hana eru aðstand­end­ur hljóðvers­ins Gróður­húsið í Voga­seli sem í ár á 20 ára af­mæli. Tilurð hátíðarinnar er að vekja at­hygli á þeirri list sem á sér stað í Breiðholt­inu og kynna það fyr­ir íbú­um hverf­is­ins.

Hátíðin hefur til þessa að miklu leyti byggst á tónlist og myndlist auk fleiri atburða en að þessu sinni fékk leiklistin sinn hluta. Leiksýningin “Hún pabbi” sem sýnd var í Borg­ar­leik­hús­inu á liðnum vet­ri var sýnd á hátíðinni. Hún fjallar um sam­band Hann­es­ar Óla Ágústs­son­ar leik­ara við föður sinn sem er transkona. Tanja Leví, fata­hönnuður og Loji Hösk­ulds­son, mynd- og tón­list­armaður voru með inn­setn­ingu á verk­inu “Upp með sokk­ana” í Öldu­sels­laug ásamt því að ýms­ir þekkt­ir tón­list­ar­menn tróðu upp. Þar á meðal voru þær Sól­ey, Ólöf Arn­alds og hljóm­sveit­in RuGl. Mat­ar­markaður var á svæðinu var þar sem tyrk­nesk­ur og nepalsk­ur mat­ur var á boðstólum meðal ann­ars góðgæt­is úr Seljahverf­inu. Nepalski mat­ur­inn er vin­sæll og allt seldist upp þannig að aðstandendurnir þurftu að loka um stund og fara heim og elda. Ljóst er að hátíðin er að fest­ast í sessi og orðspor henn­ar berst manna á milli. Það sést best á að sömu einstaklingarnir og fjölskyldurnar eru farnar að venja komur sína aftur að ári og gestum fjölgar ár frá ári.

Fatamarkaðir og fleira í Hallsteinsgarði við Vogasel en garðurinn hefur verið miðpunktur Breiðholt Festival frá byrjun.

You may also like...