Fyrstu íbúðirnar verða afhentar sumarið 2024

Á myndinni má sjá nálægð Vesturvinjar við hafnarsvæðið og til hægri má sjá upp Vesturgötuna.

Við Ánanaust í Vesturbænum eru að rísa þrjú glæsileg allt að sjö hæða borgarhús. Á horni Vesturgötu og Seljavegar rísa einnig þrjú hús, en þau eru lægri og fíngerðari og aðlaga sig lágreistri byggð Vesturbæjarins. Alls verða 210 íbúðir byggðar í þessum sex húsum auk bílakjallara sem rúmar 167 stæði. Framkvæmdir eru hafnar og stefnt er á að afhenda fyrstu íbúðirnar við Ánanaust sumarið 2024. Á þessu byggingasvæði var áður iðnaðarbyggð og auð svæði sem var kallað Héðinsreitur. Nafnið var dregið af vélsmiðjunni Héðni sem stóð við Seljaveginn. Smíði og sölu véla var hætt á þessum slóðum fyrir alllöngu og hefur gamla Héðinshúsinu verið breytt í Hótel og ferðamannastað. Nú gengur þetta nýja hverfi undir nafninu Vesturvin.

Saga málsins er að árið 2016 keypti félagið Festir lóðina á Héðinsreitnum. Var þá ráðist í gerð nýs deiliskipulags fyrir svæðið. Strax voru sett markmið Metnaðarfull að byggja borgarumhverfi þar sem gæði væru í fyrirrúmi og myndu auðga borgina og líf íbúanna sjálfra. Reiturinn er á mörkum þriggja hverfa sem eru íbúðahverfi, hafnarsvæði og miðbæjar. Í skipulaginu var lögð áhersla á að nýta kosti reitsins svo sem útsýni til sjávar og fjalla, nálægðina við miðborg Reykjavíkur og strandlengjuna til norðurs, auk þess að laga sig að íbúðabyggð Vesturbæjarins. Í skipulagi Vesturvinjar er ýmsar nýjungar að finna. Ein er að allir íbúar munu koma til með að hafa aðgang að innigörðum og íbúar á jarðhæð verða með sinn eigin garðreit. Garðarnir eru hugsaðir fyrir alla aldurshópa og gert ráð fyrir að unnt verði að bjóða upp viðburði á torginu, til að mynda markaði og tónleikahald, eða aðra hverfistengda viðburði, sem treysta böndin milli íbúanna. Mikil áherslan verður lögð á lýsingu meðal annars til þess horfa megi yfir garðana þegar myrkva tekur. 

Um 900  fermetrar af atvinnurými

Gert er ráð fyrir að um 900 fermetrar af atvinnurými verði á svæðinu á völdum svæðum. Í nútíma skipulagi er mikilvægur þáttur að skapa réttu samvirknina og það lifandi borgarumhverfi sem stefnt er að. Gert er ráð fyrir að jarðhæð inngarðshússins verði hjartað í þjónustu við þá sem þar búa, þar verði til dæmis hægt að sækja þar matar- og vörupantanir, föt úr hreinsun og fleira. Áherslu verður lögð á að í atvinnurýmum verði starfsemi sem verði íbúðabyggðinni ekki til trafala vegna ónæðis.

Þannig mun Vesturvin á gamla Héðinsreitunum líta út að framkvæmdum loknum. Hafnarsvæðið og Örfirisey aðal verslunarsvæði Vesturbæjarins eru í næsta nágrenni.

You may also like...