Nýir stúdentagarðar við Sæmundargötu
Hafnar eru framkvæmdir við nýja stúdentagarða á svæði Háskóla Íslands. Garðarnir verða staðsettir á lóð Vísindagarða Háskólans við Sæmundargötu. Þar er ætlunin að byggja um 14.700 fermetra hús á fimm hæðum, með um 220 leigueiningum, herbergjum með sér baðherbergi og sameiginlegri aðstöðu, einstaklingsíbúðum og paríbúðum. Stefnt er að því að framkvæmdum verði lokið í lok árs 2019.
Gert er ráð fyrir að með þessum nýbyggingum verði unnt að mæta mikilli þörf fyrir námsmannaíbúðir en að jafnaði eru um eitt þúsund manns á biðlista eftir dvöl á görðum og þrátt fyrir töluverða uppbyggingu hafa biðlistar lengst síðustu ár. Í dag eru um 1.200 leigueiningar á stúdentagörðum og hýsa um tvö þúsund manns, þ.e. stúdenta við Háskóla Íslands og fjölskyldur þeirra. Félagsstofnun stúdenta stefnir að því að halda uppbyggingu Stúdentagarða áfram þar til allir stúdentar sem kjósa að búa á görðum eigi þess kost. Markmið félagsstofnunarinnar er að byggja um 600 leigueiningar á næstu fimm árum. Nýju stúdentagarðarnir verða fjármagnaðir að 90% hluta með lánum frá Íbúðalánasjóði en það sem á vantar leggur stofnunin til.