Menningar- og félagsmiðstöð Seltirninga

Elsa Hartmannsdóttir og Kristín Bergljót Arnþórsdóttir starfsmenn Bókasafns Seltjarnarness.

Gagngerar breytingar og endurbætur hafa verið gerðar á Bókasafninu á Eiðistorgi. Um er að ræða miklar lagfæringar á húsnæði þess en ekki síður hefur verið hugað að innra umhverfi og þjónustu þess. Að undanförnu hafa verkefni safnsins verið að breytast og þjónusta þess aukin og nú má segja að bókasafninu hafi verið breytt í menningarsetur fyrir Seltirninga og gesti.

Skipt var um öll gólfefni í húsnæði safnsins og veggir málaðri í hólf og gólf. Sett voru upp ný ljós nema í tímaritadeildinni en ný ljós í svipuðum stíl eiga að koma þangað á næstunni. Skipt var um plötur í loft vegna þess að þak hússins hafði lekið en var endurnýjað á liðnu sumri og voru hinar nýju loftplötur framhald af þeirri aðgerð. Húsgögnin í tímaritadeildinni þar sem gestum gefst kostur á að setjast niður og fá sér kaffisopa voru endurnýjuð að því leyti að skipt var um áklæði sem var orðið slitið en sjálf húsgögnin eru sterkbyggð og þægilega þannig að ekki var talin ástæða til að skipta þeim fyrir önnur og nýrri. Í tímaritadeildinni gefst gestum kostur á að taka með sér eitthvað matarkyns en kaffi er ávallt á boðstólum. Tímaritadeildin er eini staðurinn i safninu þar sem hægt er að vera með veitingar en á öðrum stöðum er það ekki hægt enda eiga matur og safnkostur bókasafns ekki góða samleið.

Bætt í barnadeildina

Þá hefur barnadeildin verið stækkuð að flatarmáli og færð inn á mitt gólf en hún var endurgerð frá grunni fyrir nokkrum árum að fyrirmynd sem Teresa Himmer vann fyrir safnið. Barnadeildin er sérstök og mikil áhersla lögð á að vel fari um börnin. Nú hefur nýrri dýnu verið komið fyrir þar og innan tíðar koma ný dönsk svamphúsgögn. Á menningarhátíð Seltjarnarness sem verður í október er gert ráð fyrir að búið verði að koma sérstakri gagnvirkri segultöflu í barnadeildinni. Allar merkingar hafa verið sérhannaðar af Arnari Frey Guðmundssyni og Birnu Geirfinnsdóttir. Þess má geta að hringurinn í gólfinu sem blasir við þegar komið er inn í safnið er hluti af þessari hönnun. Hann er hannaður eftir bókstafnum O eins og hann er í hinni nýju leturgerð. Þá hefur rýminu á milli safnsins og verslun Hagkaupa sem er á neðri hæð verið lokað að mestu en eftir er að setja upp sjálfsstýrða hurð við neðri enda stigans. Með því hefur verið byggt fyrir hávaða sem barst upp frá versluninni og einnig matarlykt sem vildi leita upp á efri hæðin og kitla bragðlauka starfsfólks og safngesta.

Flygillinn fékk uppreisn æru

Flygill safnsins hefur fengið uppreisn æru eða verið dreginn framar ef svo má að orði komast og er í miðju o-sins sem lýst er hér að framan. Talsvert er um tónleikahald í safninu og kemur hljóðfærið því oft að góðum notum. Gallerí Grótta hefur líka fengið andlitslyftingu en miklar endurbætur voru gerðar á sýningarrýminu fyrir um tveimur árum. Hurð inn í safnið var færð og við það fékkst meira veggpláss til sýningarhalds.

Rafbækur nú á boðstólum

Ein af nýjungum í Bóksafni Seltjarness er þjónusta með rafbækur. Safnið fékk auka fjárveitingu á árinu til þess að kaupa talsvert af rafbókum og var áhersla einkum lögð á unglingabækur. Nú þegar eru komnir um þrjú þúsund rafbókatitlar í safnið. Notkun þess er einföld. Fólk þarf að fá aðgangskort og síðan pin-númer sem safnið lætur í té. Hugmyndin er einnig að fá Raspberry Pi tölvur þar sem krakkar geta fikrað sig áfram með einfalda forritun og leiki, sett saman allskonar tæknivirkni með Little Bits tæknikubbum og Makey Makey tæknisettum. Þar geta þau jafnframt lesið bækur um virkni þessara nýju tækni og aflað sér frekari þekkingar á sínum hraða.

Endurbæturnar hafa tekist vel á Bókasafninu.

You may also like...