Ökukennslan verður alltaf að vera á tánum

— segir Guðbrandur Bogason ökukennari —

Guðbrandur Bogason. 

Ökuskólinn í Mjódd á sér rætur í upphafi hægri umferðar á Íslandi árið 1966. Með tilkomu hægri umferðar var mönnum betur ljós nauðsyn þess að efla og bæta ökukennslu. Margir höfðu lært að aka fyrir umferðalagabreytinguna og urðu að tileinka sér nýjar reglur og ekki síður nýjan hugsunarhátt. Á þessum tíma fjölgaði ökutækjum hratt og bílar urðu almenningseign. Tækni við framleiðslu bíla fleygði einnig fram og ýmsar nýjungar farnar að líta dagsins ljós. Stjórnvöld vildu þó stundum gjalda varhug við nýjungum sem einkum kom fram í hugmyndum og búnað bifreiða sem notaðar voru til kennslu. Guðbrandur Bogason ökukennari hefur lengi verið mikil áhugamaður um bifreiðar og þá einkum það sem snýr að menntun ökumanna. Hann hefur fylgt Ökuskólanum eftir frá byrjun og á mikinn þátt í að móta ökunám hér á landi á undanförnum áratugum. Guðbrandur spjallar við Breiðholtsblaðið að þessu sinni.

„Ökuskólinn á rætur í Öku­kennarafélagi Íslands sem var stofnað 22. nóvember 1946. Félags­starfið fór hægt af stað en 1959 færðist aukinn kraftur í starfsemi þess. Árið 1967 þegar undirbúningur fyrir breytingu yfir á hægri akrein stóð yfir, fór í gang mikil vinna hjá Öku­kennara­félaginu. Hópur öku­kennara fór til Svíþjóðar til að kynna sér umferðalagabreytingu en Svíar höfðu þá nýverið skipt yfir í hægri umferð. Stofnaður var Ökuskóli 1967 sem þá var staðsettur í Suðurveri við Stigahlíð og í framhaldi af því fór Öku­kennara­félagið að vinna að útgáfu ýmiskonar fræðsluefnis til allra ökuréttinda.“ Guðbrandur segir að ökunámið hafi þróast áfram. „Fyrst byrjuðum við á skellinöðrunum sem voru létt bifhjól. Svo vorum við með námskeið til réttinda til þess að aka dráttarvélum á vorin. Dráttar­vélanámskeiðin var samvinnuverkefni bænda­samtakanna, öku­kennara­­félagsins, tryggingaf­élaga og nokkurra fyrirtækja sem fluttu dráttarvélar inn og seldu. Þau fóru fram á vormánuðum frá byrjun maí og fram í júní. Ungmenni gátu fengið dráttarvélaprófið fyrr en almenn ökuréttindi til að aka bifreiðum. Þessi námskeið voru vel sótt og oft var fjöldi ungling akandi á dráttarvélum í allskyns forarvilpum að æfa sig fyrir próf. Síðan voru sett barnaverndarlög sem bönnuðu að þetta væri gert. Á sama tíma var til vél­hjólaklúbbur sem hét Vélhjólaklúbburinn Elding. Hann fór í samstarfi við skóla Ökukennara­félagsins að standa fyrir námskeiðum þar sem Sigurður Ágústsson lögreglumaður sem oft var kenndur við Palestínu annaðist leiðbeiningar og kennslu. Þetta er upphafið að sögunni.“  

Veruleg fjölgun á sjöunda áratugnum 

Guðbrandur segir að ökunemum hafi farið að fjölga verulega á sjöunda áratugnum og einkum á þeim áttunda. Bílum fjölgaði stöðugt og konur fóru almennt að taka ökupróf sem ekki hafði verið áður. Ég hygg að fyrir 1960 hafi fremur fáar konur verið með ökupróf og ekið þó með nokkrum undantekningum. Akstur kvenna helst talsvert í hendur við för þeirra út á vinnumarkaðinn sem tók skamman tíma eða um við áratug. Árið 1974 voru gerðir kjarasamningar sem bættu stöðu launa­fólks talsvert og ýtti undir meiri bílaeign. Hringvegurinn um landið var opnaður. Við það jókst umferðarflæði á landinu í heild mikið á mjög skömmum tíma.“ Guðbrandur segir að árið 1955 hafi orðið skriða í inniflutningi bíla. Þá var mörgum gjaldeyrisleyfum úthlutað til þess að kaupa jeppa, einkum Willys, Landrover og rússneska jeppa sem kölluðust GAS. Þá hafi stóru amerísku limósínurnar frá Ford og Chervolett komið sem settu mikinn svip á bílaleigna næstu árin. Varla var talað um leigubíl nema að hann væri frá þessum stóru amerísku framleiddum. Sumir þessara gullaldar bíla eru enn í fullu gildi og ég á meira að segja einn sem er ágætlega gangfær.“ 

Meirapróf bifreiðastjóra varð munaðarlaust 

Talsverð ásókn varð fljótt í nám­skeið hjá Ökukennarafélagi Íslands. Á árinu 1975 var sendur 1891 nemandi í nám. Þetta var þá ekki orðin skylda en var vakið upp sem áhugavert nám. Ég þori ekki að segja til um hversu mörg ökupróf voru tekin á landinu á þessum tíma en ég hygg að þau hafi verið innan við fjögur þúsund. Bifreiðaeftirlit ríkisinss sá um ökuprófin allt til 1987 að það var lagt niður. Þá verður stærra prófið það sem hét meirapróf bifreiðarstjóra hálf munaðarlaust. Þá var sett á fót stofnun sem hét Bifreiðapróf ríkisins sem annaðist um meiraprófin til 1992. Þá störfuðu ökukennarar út um land á vegum Ökukennarafélagsins og á ábyrgð þess. Síðar þróaðist þetta þannig að þeir fengu sjálfir starfsleyfi.“  

Í Þarabakkann

Árið 1988 kaupir Ökukennarafélag Íslands eign í Þarabakka 3 og flutti starfsemi sína í Mjóddina þar sem aðsetur félagsins eru enn í dag. „Við þessa flutninga jókst félagsstarf til muna, auk þess sem bókaútgáfan varð blómlegri og síðan gerðist meira. Árið 1991 voru meiraprófin færð frá Bifreiðaeftirliti ríkisins til Ökuskólans. Grundvöllurinn að þessum flutningi var Ökuskólinn í Mjódd, sem þá var í eigu Öku­kennarafélags Íslands og gat tekið meira­prófskennsluna að sér. Farið var í að útbúa nýtt kennsluefni og aðstoða ökuskóla víðs vegar um landið í að koma meiraprófsnámskeiðum af stað. Guðbrandur segir að á þessum tíma hafi verið hugmyndir um að Iðn- og tækniskólarnir kæmu inn í ökunámið. Þær urðu þó ekki að veruleika og af þeim sökum fór þessi námsþáttur ekki undir menntamálaráðuneyti. „Við vorum búnir að gera það sem ég vil meina góða hluti og sýna fram á faglega nálgun og var því treyst til þess að taka meiraprófin að okkur. Ég tel að þetta sé stærsti sigur ökunáms hér á landi.“ Hann segir að meiraprófin hafi verið eins konar skrúfupróf á meðan þau hafi verið í höndum ríkisins. Eftir að Ökuskólinn hafi tekið við þeim hafi orðið breyting. „Við fórum í að afla okkur þekkingar. Fóru meira að segja erlendis til þess að kynna okkur þessi mál. Læra um hvað væri nýtt að gerast.“

Ökuskóli 3 var mikil framför

„Þetta þróast svo áfram. Árið 1997 var það gert að skyldu að nemendur færu í ökuskóla en fram að því hafði það verið valkvætt. Fjarnámið tók svo yfir um 2010. Fólk fór að læra til aksturs á netinu,“ segir Guðbrandur en veltir jafnframt fyrir sér hvað fólk læri sér til gagns með netnáminu. Ökuskóli 3 var stofnaður 2009 en þá var gert að skyldu fyrir nemendur til almennra ökuréttinda að sækja nám í áhættuvarnarakstri. Ökuskóli 3 var búinn að vera baráttumál Ökukennarafélagsins í nær 30 ár þegar hann var loks settur á laggirnar.“ Tíðindamaður nefndi við Guðbrand að sonardóttir sín sem hafi nýlokið ökunámi og bílprófi hafi látið þess getið hversu gott hafi verið fyrir sig að fara í Ökuskóla 3. Þar hafi hún virkilega lært. Þá birti yfir Guðbrandi. „Þar er horft til þess að byggja á þjálfun. Kennt með gamla laginu. Nemendur æfa í ökugerði og ökunemar verða að geta leyst ýmsar þrautir. Ökuskóli 3 var mikil framför í hinu almenna ökunámi.“

Ökukennslan verður alltaf að vera á tánum 

En aftur að meiraprófinu. Er alltaf mikil á sókn í að fá ökuréttindi á stóra bíla. Guðbrandur segir svo vera. „Aðsókn að meiraprófsnámskeiðunum er alltaf að aukist. Margir vilja geta skapað sé atvinnu við akstur. Hvort sem er akstur leigubíla eða stórra ökutækja fólks- og vöruflutningabíla. Á síðustu árum koma margir sem eiga sér erlendan uppruna til þess að ná sér í atvinnuréttindi með akstri. Svo er endurmenntun atvinnubifreiðastjóra orðin skilyrt. Allir sem hafa atvinnu­réttindi þurfa að koma á endurmenntunarnámskeið á fimm ára fresti.“ Nokkrar kennslustofur eru í ökuskólanum í Mjódd. Guðbrandur segir þær notaðar jafnframt í fjarnámi og fyrirlestrar haldnir og kennsluefni rætt. „Ég hef orðið þess áskynja að margir kjósa að koma í stofunám eins og ég kalla þetta. Finnst gott að hittast og geta auk þess fengið að hlýða á fræðsluefni og spjallað saman. Annars get ég ekki annað en verið ánægður með þróun þessara mála. Hvernig tekist hefur til. Ökunám verður alltaf hluti af almennu námi fólks hvort sem það kýs að nota það til þess að aka eign bifreið eða hafa aksturinn að atvinnu. Við viljum alltaf leitast við að geta boðið það sem er nýjast og best í fræðunum. Þetta þýðir að ökukennslan verður alltaf að vera á tánum.“ 

You may also like...