Hagaskóli fékk Menningarfánann
Hagaskóli fékk Menningarfánann fyrir framúrskarandi menningarstarf með börnum og unglingum og fyrir að hlúa að listakennslu og skapandi starfi á dögunum.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti fánann við líflega athöfn á Kjarvalsstöðum þar sem menningarstofnanir borgarinnar héldu stefnumót og kynntu fræðslustarf sitt á komandi skólaári. Hagaskóli er fyrsti unglingaskólinn í borginni sem flaggar Menningarfánanum. Í skólanum skipa list- og verkgreinar veigamikinn sess. Allir nemendur hafa víðtækt val og flóru listgreina í sinni stundatöflu. Hagaskóli er í Evrópusamstarfi um nýbreytni í kennsluaðferðum og tekur þátt í ýmsum þverfaglegum verkefnum sem miða að því að örva listsköpun. Eitt þeirra felur í sér að nemendur skrifa barnasögur sem þeir fara með í leikskóla í Vesturbænum og lesa upp fyrir börnin þar. Á vorin eru þemadagar þar sem nemendur fá frjálsar hendur til listsköpunar og sýna þeir afraksturinn á uppskeruhátíðinni Listadögum. Þá setur Hagaskóli upp leikverk annað hvert ár þar sem margir unglingar fá að spreyta sig í ólíkum hlutverkum sviðslistarinnar.