Vilja flytja Dillonshús á Suðurgötu 2

– telja því betur komið fyrir á upprunalegum stað en í Árbæjarsafni –

Dillonshús meðan það stóð við Suðurgötu 2 þangað sem hópur fólks vill flytja það aftur.

Hugmyndir hafa komið fram um að flytja Dillonshús úr Árbæjarsafni á sinn upphaflega stað á horni Túngötu og Suðurgötu. Það eru Árni Snævarr upplýsingafulltrúi og rithöfundur, Gísli Marteinn Baldursson fjölmiðlamaður, Guðjón Friðriksson sagnfræðingur, Kristinn Hrafnsson ritstjóri Wikileaks, og Sif Sigmarsdóttir rithöfundur og pistlahöfundur Fréttablaðsins sem hafa lagt þetta til. Húsið var flutt í Árbæjarsafn árið 1961 og er friðað.

Þau telja tímaskekkju að geyma gömul og söguleg hús í Árbænum langt frá sínum upprunalegu slóðum nú þegar þétting byggðar er „alfa og ómega“ í bæjapólitíkinni í Reykjavík eins og þau komust að orði í grein í Fréttablaðinu nýverið. Upp úr miðri síðustu öld og síðar voru hús flutt í Árbæjarsafn og talið að sameina ætti þau á einum stað og þá nánast fyrir utan borgina enda Árbærinn óbyggður um 1960. Þannig myndu húsin varðveitast og segja sína sögu í safni en ekki verða fyrir nýjum miðborgarbyggingum.

Sigríður Elísabet fiorkelsdóttir Bergmann

Dillonshús á sér merkilega sögu. Húsið var reist af breskum aðalsmanni Arthur Edmund Denis Dillon eða Dillon lávarði sem byggði það fyrir íslenska ástkonu sína Sire Ottesen öðru nafni Sigríði Elísabetu Þorkelsdóttur Bergmann árið 1853. Sigríður Elísabet var dóttir Þorkels Bergmann sem var annar fyrsti kaupmaður í Reykjavík og um skeið forstjóri Innréttinganna. Hún var fædd í Kaupmannahöfn og ólst þar upp. Á sextánda ári var hún gift Lárusi Ottesen kaupmanni sem var bróðursonur Sigurðar Stefánssonar Hólabiskups og Ólafs Stephensen stiftamtmanns. Þar fékk hún Ottesennafnið. Þau eignuðust tvo syni. Þorkel Valdimar Ottesen, síðar verslunarmann og ári síðar Pétur Odd Ottesen, bónda og dannebrogsmann á Ytra-Hólmi við Akranes, afa Péturs Ottesen alþingismanns er lengst sat á Alþingi allra íslendinga. Sire og Lárus skyldu að borði og sæng 1819. Síðar eignaðist hún son með ungum skólapilti og síðar annan með Petersen faktor en báðir þeir drengir létust ungir. Þá var Lárusi nóg boðið og krafðist lögskilnaðar og hlaut hún síðan dóm fyrir hórdóm.

Glæsileg kona og valdi sér ástmenn

Þekktust er Sire fyrir samband sitt við Arthur Dillon lávarð. Hún þótti sérlega glæsileg kona og var af mörgum talin ein fegursta kona landsins á sinni tíð. Sire var mjög óvenjulega kona að sögn sem sjá má af því að hún lifði lífi sínu frjáls og óþvinguð af illu umtali og stífum gildum samfélagsins. Hún tók sér ástmenn eftir þörfum og lét sér fátt um finnast þrátt fyrir slúður siðapostula. Sire rak veitingasölu í Reykjavík og þar kynntist hún Bretanum Dillon en hann var í fæði þar sem hún starfaði.

Ástin tók völdin

Ástin tók völdin og í júní 1835 fæddist þeim dóttir sem hlaut nafnið Henrietta eftir móður Dillons. Dillon hugðist kvænast Sire og lét smíða hús fyrir þau til að búa í á Ullarstofutúninu sem nú er bílastæðislóð við Suðurgötu 2. Dillon mun ekki hafa fengið samþykkti kaþólskrar fjölskyldu sinnar fyrir giftingu þeirra og af þeim sökum hrökklaðist hann af landi brott haustið 1835. Áður eftirlét hann húsið ástkonu sinni sem rak þar gistingu og veitingasölu. Jónas Hallgrímsson skáld var leigjandi hennar um tíma því hann bjó í herbergi uppi á lofti í Dillonshúsi síðasta vetur sinn á Íslandi 1841 til 1842 en fór þá alfarinn til Kaupmannahafnar. Sire dvaldi undir handarjaðri dóttur sinnar síðari ár ævinnar þar til að hún flutti til sonar síns, Odds Péturs að Ytra-Hólmi þar sem hún lést 79 ára að aldri. Talið er að Henrietta hafi á efri árum farið til Englands til að hitta ættingja sína en ekki er vitað með vissu hvort hún hafi hitt fóður sinn. „Hún var frjálsleg eins og drottning, samboðin hverjum konungbornum tignarmanni,“ skrifaði Tómas skáld Guðmundsson um Sire.

Í fréttir vegna óhugnaðar

Dillonshús komast í fréttir í febrúar 1953 vegna óhugnaðar. Þá gerðist sá hörmulegi atburður að Sigurður Magnússon lyfjafræðingur, sem bjó í húsinu réð fjölskyldu sinni, eiginkonu, þremur ungum börnum og sjálfum sér bana með blásýru. Sigurður hafði glímt við erfið veikindi áður en hann fyrirfór fjölskyldunni en náð nokkurri heilsu á ný. Margt er á huldu um veikindi hans. Í bókinni Ísland í aldanna rás segir að hann hafi þjáðst af heilabólgu sem er vírussjúkdómur en ekki er talið ljóst hvort sá sjúkdómur olli þessum atburði eða hvort hann þjáðist af geðveilu eða persónuleikabrestum óháð heilabólgunni. Í bréfi sem hann skildi eftir sig kvaðst hann ekki geta skilið fjölskyldu sína eftir. Hann kaus að taka hana með sér yfir móuna miklu. Er þessi atburður í Dillonshúsi með þeim óhugnanlegri sem orðið hafa í sögu Reykjavíkur.

You may also like...