Fjölgun íbúða við Vesturbugt
Ætlunin er að fjölga verulega íbúðum við Vesturbugt á hafnarsvæðinu. Samþykkt hefur verið í borgarráði að breyta deiliskipulagi Vesturbugtar, hins svokallaða Allianz reit til þess að koma fyrir fleiri byggingum en eldra deiliskipulag gerði ráð fyrir. Ekki varð samstaða í borgarráði þar sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðust gegn breytingunni á þeirri forsendu að um of mikla fjölgun bygginga væri að ræða sem breyta myndi heildaryfirbragði byggðarinnar mjög mikið auk þess sem hótelrekstur á svæðinu stingi í stúf við styrkingu íbúðabyggðar.
Umræddur reitur er í eigu Reykjavíkurborgar og hyggst borgin selja hann ásamt byggingarétti þegar deiliskipulag hefur verið samþykkt. Byggingarnar verða alls 8.100 fermetrar, þar af 6.700 fermetrar ofanjarðar og bílakjallari með 45 stæðum verður 1.400 fermetrar að flatarmáli. Fjölmargar athugasemdir bárust við fyrirhugaða breytingu og munu íbúar við Mýrargötu 26 einkum vera ósáttir við þessar fyrirhuguðu framkvæmdir. Í athugasemdum frá húsfélaginu kemur fram flestir þeirra sem keypt hafi íbúðir í húsinu hafi gert það vegna mannlífs sem einkennir hverfið og nálægðar við höfnina. Kaupverð íbúða hafi verið fremur hátt og tekið mið af staðsetning hússins og þess útsýnis sem er frá íbúðum.