Brautryðjandastarf í æskulýðs­málum var í Breiðholti

DJ Dóri var fenginn til að vera með DJ námskeið og uppistand í Fellahelli á sínum tíma. Hann ákvað að sameina bæði hlutverkin í einu sjóvi.  

Íbyrjun áttunda áratugar liðinna aldar var farið að ræða um nauðsyn þess og kom á fót aðstöðu fyrir skipulagt félagslíf ungmenna. Fram að því hafði þeim málum lítið verið sinnt en ýmis þróun sýndi nauðsyn þess að finna tómstundaúrræði fyrir börn og ungmenni. Á þessum árum var hávær umræða um hið svonefnd Hallærisplan í miðborg Reykjavíkur. Þar söfnuðust ungmenni saman um helgar og lífsmáti þótti ekki í lagi. Í könnunum sem gerðar voru á meðal ungs fólks á Hallærisplaninu kom í ljós að unglingar úr Breiðholti sóttu þangað í umtalsverðu mæli. Fljótlega voru hendur látnar standa fram úr ermum og segja má að vagga félagsmiðstöðva á Íslandi hafi orðið til í Breiðholti. Fyrsta félagsmiðstöðin fékk nafn sitt af aðstöðunni sem hún fékk til afnota. Hún varð til í kjallara Fellaskóla. Íþróttaáhugi var lítil á meðal krakka á þessum árum en Fellahellir var einn af þeim hornsteinum sem gerðu Breiðholtið að góðu hverfi. Fellahellir var sterkur í því að ná inn í starfið með krökkunum sem ekki voru neins staðar annars staðar.

Fellahellir var stofnaður af æskulýðsráði Reykjavíkur 11. nóvember 1974. Margir komu að störfum í Fellahelli og má meðal annarra nefna Sverri Friðþjófsson, Sjón, Margréti Sverrisdóttur, Lindu Udengaard, Eygló Rúnarsdóttur, Agnar Arnþórsson, Hafstein Hrafn Grétarsson, Benóný Ægisson, Örnu Kristjánsdóttir og Helga Eiríksson sem nú stýrir Miðbergi arftaka Fellahellis sem var stofnað árið 1999. Miðberg þjónar nú Efra- og neðra-Breiðholti og leggur áherslu á forvarnir og að stuðla að jákvæðum félagsþroska. Þar skiptist starfið upp í tvo hluta. Annars vegar barnastarf og hins vegar unglingastarf. Hjá Miðbergi stafa um 130 manns.

Fjöld félaga fékk inni 

En lítum nær hálfa öld aftur í tímann. Mörg félög fóru að starfa í húsnæði Fellahellis og tóku fljótt að eflast eftir að hafa fengið öruggan samastað. Þar má nefna íþróttafélagið Leikni í Efra Breiðholti, Framfarafélag Breiðholts, KFUM og K, Skáta, Kvenfélag Breiðholts III og Talstöðvarklúbb Breiðholts. Einnig má nefna Fella- og Hólasöfnuðinn og íslenska ungtemplara. Tveir einkaaðilar störfuðu í Fellahelli í upphafi. Dansskóli Hermanns Ragnars Stefánssonar og Djassskóli Iben Sonne. Félög í Breiðholti gátu fengið inni fyrir starfsemi sína í Fellahelli bæði reglubundna og óreglubundna. Félögunum var reiknuð húsaleiga, sem síðan var bókfærð sem húsaleigustyrkur frá Reykjavíkurborg. Hinrik Bjarnason, sem var framkvæmdastjóri Æskulýðsráðs Reykjavíkur á þeim tíma sagði í samtali við Morgunblaðið að ætlast væri til að hver eining hússins væri notuð til eins fjölþætts félagsstarfs og mögulegt væri. Engin félög fengu húsnæði til einkaafnota. Hinrik sagði í sama viðtali að Fellahelli væri skipt í þrjár einingar og er hver eining rúmlega 300 fermetrar og allt að 100 manns gætu verið í húsinu í einu.  

Veitingastaður með kaffiteríusniði 

Starfiðið í Fellahelli þróaðist smám saman. Í fyrstu var æskulýðsráð með opið hús á hverju föstudagskvöldi. Í tengslum við það voru leiktæki til staðar og almennt félagsstarf fór fram. Farið í æfingar í dönsum, fimleikum á gólfi, þroskaleikjum og öðru þess háttar í salnum. Tvískipt samkomurými var miðsvæðis í húsnæðinu. Annars vegar veitingastaður. Hins vegar samkomusalur. Veitingastaðurinn var ekki leigður út en var rekinn með kaffiteríusniði með sjálfsafgreiðslu og léttum veitingum.  

Diskóbúr í flugvél 

Diskóbúrið í Fellahelli var óvenjulegt. Það hafði framhluta af gamalli flugvél verið fengið nýtt og heldur óvenjulegt hlutverk. Vélinni var komið fyrir við einn vegginn á dansgólfinu og þar var plötusnúðurinn að sjá um nýjustu tónlistina á meðan krakkarnir dönsuðu. Hugmyndin að þessu diskóbúri kviknaði þegar nokkrir starfsmenn Fellahellis komum auga á flugvélarflak á Reykjavíkurflugvelli. Flakið á Reykjavíkurflugvelli reyndist ekki falt en hins vegar bárust fréttir af ónýtri vél á Keflavíkurflugvelli. Sú vél hafði verið í þjónustu bandaríska hersins. Vélin hafði komst í fréttir þegar hermaður á Vellinum kveikti í henni. Hermaðurinn var rekinn en vélin varð eftir á vellinum. Íslenskur maður, Sigurður Gíslason var eigandi hennar þegar Fellahellisbúar fengu ágirnd á henni. Vélin var föl og fyrir fimmtán þúsund krónur urðu þau í Fellahelli stoltir eigendur hálfrar flugvélar. Þegar búið var að koma vélinni til Reykjavíkur var hún hlutuð í sundur til þess að hægt væri að koma henni inn í Fellahelli. Þangað komin var vélin hnoðuð saman aftur, hreinsuð, máluð og innréttuð fyrir plötusnúðinn. Krakkar sem stunduðu Fellahelli sáu um að snurfusa vélina og hreinsa. Rúður voru hreinsaðar með tannkremi. Umræður urðu um að verið væri að breyta Fellahelli í diskóstað sem var alls ekki rétt. Aðeins var um skemmtilega nýbreytni að ræða. Einn af þekktri plötusnúðum landsins er Ívar Guðmundsson sem í dag starfar sem dagskrárgerðarmaður á Bylgjunni. Hann hóf feril sinni 13 ára gamall í diskóbúrinu í Fellahelli.

Framhluti Douglas R6D vélarinnar sem varð að DJ búri í Fellahelli.

Af stað ferðir

Yfir sumartímann var starfsemi í Fellahellis frjálsari. Minna fór fyrir skipulögðu uppeldisstarfi heldur en á veturna. Eitt af því voru svokallaðar Af stað ferðir. Á fimmtudagskvöldum að sumri var öllum sem mættu í Fellahelli smalað upp í rútu og ekið út fyrir bæinn í svokallaðar Af stað ferðir. Meiningin var að fara eitthvað út í náttúruna. Á Þingvöll eða Laugarvatn eða einhverja aðra staði í nágrenni Reykjavíkur. Í Fellahelli voru meðal annars námskeið í leikjum og útivist fyrir sex til tólf ára börn á daginn yfir sumarið. Einnig var boðið upp á trimmaðstöðu fyrir almenning á laugardögum frá klukkan tíu um morgun til fjögur því ágætis íþróttasalur og góð baðaðstaða var í Fellahelli. Einnig voru kraftlyftingatæki og aðstaða fyrir borðtennis á staðnum ásamt ýmsu öðru. Böll voru haldin öðru hvoru ásamt ýmsum uppákomum. Krakkar sem sóttu Fellahelli voru á aldrinum þrettán til sextán ára. Stundum mættu hundrað og fimmtíu til tvö hundruð krakkar á einu kvöldi sem gerið að verkum að Fellahellir var stærsta félagsmiðstöðin þótt aðrar kæmu í kjölfarið.

„Unglingar utan úr geimnum“

Margar hljómsveitir komu fram í Fellahelli. Ná þar nefna Oxmá, Gypsy, Kukl og einnig Megas, Bubba Mortens og Sykurmolana. Ár æskunnar var 1985 og báru tónleikar þá yfirskriftina: „Unglingar utan úr geimnum“. Portið var skreytt með myndverkum í þeim anda og kvikmyndum var varpað á veggi á meðan hljómsveitir léku. Tónlistarhátíðin Rikkrokk var haldin í Fellhelli og á þökum Fellahellis nokkrum sinnum á níunda áratugnum þar sem „gógó-dans“ var meðal annars í boði. Fellahellir var gróðrarstöð fyrir ungmennahljómsveitir.

Nokkur skoðanaskipti

Nokkur skoðanaskipti áttu sér stað um Fellhelli og starfið þar. Úrtöluraddir heyrðust um að óregla væri viðhöfð á dansleiknum þar. Þær hljóðnuðu þó fljótlega. Í blaðagrein frá þessum tíma má sjá eftirfarandi. „Sá er þetta ritar brá sér nýlega í Fellahelli til að sjá „spillinguna”, en varð vitni að öðru. Rokkið dunaði og unga fólkið virtist skemmta sér hið besta þó kvartað væri um loftræstingu. Ekki sást vín á neinum og telpur sem undirritaður ræddi við kváðust að vísu ekki koma oft en þær hefðu ekki orðið varar við að vín væri haft um hönd innan dyra. Já, vel á minnst innan dyra, en hvað tekur við í „partýum”? Þetta gefur hugmyndafluginu byr undir báða vængi. Undirritaður hefði gaman af að fá að kikja í eitt slíkt „partý” og bera það saman við „gamla daga”. Þau voru orð greinarhöfundar sem ofboðið hafði neikvæðni sem hann hafi lesið um ungmennastarfi.

Stærsta félagsmiðstöðin 

Lengi hafði verið rætt um meðal þeirra sem starfa að æskulýðsmálum, og eins meðal unglinganna sjálfra, að rétt væri að leyfa þeim að ráða meiru um eigin málefni. Í Fellahelli var komið á fót vísi að því sem kalla mætti unglingalýðræði. Krakkarnir kusu fimm úr sínum hópi í svokallað unglingaráð. Unglingaráðið sá alfarið um rekstur á bæði sjoppunni á staðnum og rúlluskautahöllinni. Starfsmenn Fellahellis og unglingaráðið sáu í sameiningu um skipulagningu dagskrár félagsmiðstöðvarinnar. Þegar taka þurfti stórar ákvarðanir sem kostuðu fjármuni eins og um hvaða hljómsveitir eða skemmtiatriði ætti að bjóða upp á á skemmtunum var boðað til stórfundar. Í stórfundi tóku allir þátt sem mættir voru á svæðið og þar var um lýðræðislega atkvæðagreiðslu að ræða um afdrif mála. Starfsmaður æskulýðsmiðstöðvarinnar sat venjulega stórfundina en skiptir sér ekki af framkvæmd eða ákvörðunum. Ungmennin voru látin reka sig á sjálf ef eitthvað fór úrskeiðis.

Gamli Fellahellir er nú matsalur Fellaskóla. Enn er þó hægt að blása lífi í gamlar glæður.

Frumkvöðlastarf í æskulýðsmálum

Í Fellahelli var unnið mikið frumkvöðlastarf í æskulýðsmálum. Starf sem nýst hefur við mótun og þróun starfsemi félagsmiðstöðvar í borginn og trúlega víðar. Með Fellahelli var brotið blað í uppeldismálum á breyttum tímum í samfélaginu. Tímum þegar konur fóru almennt að stunda vinnu utan heimilis og ýmis hugðarefni drógu úr áhuga ungmenna á útileikjum. Enginn vafi er á að starfsemi Fellahellis og annara félagsmiðstöðva eiga stóran þátt í að draga úr áfengisneyslu ungmenna og tilheyrandi ólátum og ólifnaði. Geta má þess að Hallærisplanið svonefnda lognaðist út af um miðjan níunda áratug liðinnar aldar.

You may also like...