Réttindaganga barna er árlegur viðburður

Kröfuspjöldin voru litskrúðug.

Frístundamiðstöðin Tjörnin stóð á dögunum fyrir réttindagöngu barna, en gangan er árlegur viðburður sem ætlaður er til að minna á barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna og mikilvægi hans.

Vikuna fyrir gönguna lærðu börnin í frístundaheimilum Tjarnarinnar um sáttmálann og eigin réttindi, meðal annars í gegn um allskonar réttindasmiðjur, spurningakeppnir þar sem reynir á þekkingu þeirra á réttindum barna, ljóðasmiðjur og listasmiðjur tengdar þemanu, en rauði þráðurinn í starfi frístundaheimilanna er að börnin hafi val um þátttöku og viðfangsefni og að lýðræðisleg vinnubrögð séu í heiðri höfð þannig að raddir þeirra, skoðanir og þarfir leggi grunninn að starfinu. Börn í öðrum bekk í þjónustu Tjarnarinnar gengu þannig frá Skólavörðuholti og niður Skólavörðustíg, alla leið niður að Alþingishúsi, þar sem tekið var á móti áskorunarbréfum, en skorað var á stjórnvöld til að hafa réttindi barna hugföst og minnt var á þær skyldur sem barnasáttmálinn leggur á löggjafann í allri vinnu sinni. Eftir herlegheitin fór hópurinn í ráðhúsið þar sem tekið var vel á móti hópnum. Með réttindagöngunni lauk þemavikunni um réttindi barna, en vinnunni með lýðræðisleg vinnubrögð og réttindi barna er þó hvergi nærri lokið í frístundaheimilunum.

Börnin á leið niður Skólavörðustíginn.

You may also like...