Leggjum mikið upp úr að höfða til breiðs hóps

Margrét Sigurðardóttir.

Um síðastu áramót voru gerðar skipulagsbreytingar á frístundamálum á Seltjarnarnesi. Frístundamálaflokkurinn tilheyrði áður íþrótta- og tómstundasvið en var fluttur undir fræðslusvið og eru nú frístundaheimilið Skjólið, félagsmiðstöðin Selið og ungmennahúsið Skelin rekin undir sameiginlegri stjórn frístundamiðstöðvar Seltjarnarness. Skjólið er frístundaheimili fyrir börn í fyrsta til fjórða bekk í grunnskóla og þangað geta þau farið í frístundastarf að skólatíma loknum og dvalið til klukkan fimm á daginn þar til hefðbundnum vinnutíma foreldra lýkur. Selið er með félagsstarf fyrir 16 ára og yngri og Skelin er fyrir ungmenni 16 ára og eldri. Margrét Sigurðardóttir er æskulýðs- og tómstundafulltrúi Seltjarnarnesbæjar og veitir starfsemi frístundamiðstöðvarinnar forstöðu. Hún er ekki ókunnug þessum málum á Seltjarnarnesi enda hefur hún starfað þar um árabil og margir þekkja hana sem Möggu í Selinu. Nesfréttir spjölluðu við Margréti á dögunum.

„Nei, – ég er ekki flutt á bæjarskrifstofuna. Það hefur komið til tals en ég vil vera á gólfinu með mínu fólki. Þannig tel ég mig hafa betri yfirsýn og vera aðgengilegri börnum, unglingum og starfsfólki heldur en ef ég sæti á skrifstofu í öðru húsi. Mér finnst mikilvægt að stjórnandi sé á staðnum og ég flakka svolítið á milli starfsstöðvanna með tölvuna og farsímann. Það eru í raun þau tæki sem ég þarf við dagleg störf. Við erum þrjú sem erum með þessi mál á okkar könnu, ég, Guðmundur Ari Sigurjónsson, sem er forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar og ungmennahússins, og Rut Hellenardóttir forstöðumaður barnastarfs. Við myndum stjórnendahóp yfir þessum stofnunum, leiðum faglegt starf, sinnum daglegum störfum starfsstöðvanna og sjáum um ráðningarmál. Allt þetta er unnið í góðri samvinnu við Baldur Pálsson sviðstjóra fræðslusviðs.“

Með góðri samvinnu hefur tekist að efla og bæta félagsstarfið

Margrét segir álagstíma í þessu starfi eins og í flestum störfum sérstaklega á haustin þegar starfið er að fara af stað eftir sumarfrí og eins í kringum ákveðna viðburði og verkefni. „En þá kemur gamla góða keppnisskapið upp í mér – keppnisskapið frá þeim tíma þegar ég var í fótboltanum og með góðri samvinnu verða þessi tímar bara skemmtilegir. Ég hef mikinn metnað og vil að við gerum hluti faglega og vel til að ná árangri. Ég er líka svo lánsöm að hafa metnaðarfullt og gott starfsfólk í kringum mig. Fólk með góða menntun, þekkingu og reynslu sem nýtist því vel í störfum þeirra. Það er lykillinn að því að ná góðum árangri. Við finnum leiðirnar í sameiningu og vinnum á lýðræðislegan hátt með börnum og ungmennum. Við höfum einnig átt mjög gott samstarf við Grunnskóla Seltjarnarness alveg frá aldamótum og okkar fólk hefur unnið með starfsfólki í skólanum. Með góðri samvinnu hefur okkur tekist að efla félagsstarfið og byggja gott starf upp fyrir börnin og unglingana.

Nú hefur gamli kálfurinn við Mýrarhúsaskóla verið endurnýjaður og breytt í húsnæði fyrir frístundaheimilið Skjólið.

Daglegur opnunartími til kl. 22:00 á kvöldin

Margrét segir mikilvægt að vera með daglegan opnunartíma og að Seltjarnarnes hafi einnig sérstöðu í því að hafa félagsmiðstöðina Selið opið alla virka daga til kl. 22:00 á kvöldin. Við leggjum mikið upp úr að vera verkefnamiðuð og höfða til breiðs hóps og opnunartíminn einn og sér felur í sér mikið forvarnargildi. Unglingarnir á Nesinu hafa aðgengi að húsnæði og starfsfólki til að skapa fjölbreytt frístundastarf. Rannsóknir sýna að minni hætta er á því að börn og ungmenni leiðist út í einhverja “vitleysu” ef þau stunda öflugt tómstundastarf og/eða íþróttastarf.

Öll frístundaþjónustan á sömu torfunni

„Nú hefur gamli kálfurinn við Mýrarhúsaskóla verið endurnýjaður og breytt í húsnæði fyrir frístundaheimilið Skjólið. Þar erum við með fyrsta og annan bekk í mjög skemmtilegu húsnæði sem sérstaklega var hannað fyrir starfsemina. Þriðji og fjórði bekkur eru í skólanum sjálfum, í aðstöðu sem verið er að breyta meðal annars með því að hólfa rýmið niður til að auðveldara verði að sinna félagsstarfinu með krökkunum. Það breytir miklu fyrir yngstu grunnskólabörnin að vera í heimilislegri aðstöðu í frístundastarfi sínu.“ Margrét segir það mikinn kost við Seltjarnarnesið að vera með alla frístundaþjónustu á sömu torfunni. „Félagsmiðstöðin og ungmennahúsið eru síðan í kjallara heilsugæslu-stöðvarinnar sem er staðsett á milli skólahúsanna sem oft ganga undir heitunum Mýró og Való. Það eru ekki aðeins börnin og unglingarnir sem nota félagsmiðstöðina heldur er samstarf við eldri borgara – fólk sem komið er að eða á eftirlaunaldur.

Öflugt ungmennaráð

„Ungmennaráðið á Seltjarnarnesi er fyrir unglinga, 16 ára og eldri, og hefur það verið starfandi frá árinu 2009. Í gegnum árin hefur ráðið verið með öflugt starf. Ráðið hefur haldið ungmennaþing og átt fulltrúa í nefndum bæjarins. Unglingarnir eru með aðstöðu í Skelinni og eru líka í samstarfi við eldri borgarana. Ungmennaráðið hefur tekið þátt í evrópusamstarfi og nú nýlega fékk ráðið að vita að Erasmus umsókn þeirra um samstarfsverkefni við ungmennaráð í Eistlandi var samþykkt þannig að árið 2018 verður mjög spennandi,“ segir Margrét.

Enginn ávinningur af sparnaði i félagsstarfi ungmenna

Margrét segir að ef tekið er mið af því hversu fámennt bæjarfélag Seltjarnarnes er sé mikið í boði fyrir börn og unglinga í nærumhvefinu. Bæjaryfirvöld á Nesinu leggja ríka áherslu á að hlúa vel að félagstómstunda- og íþróttastarfi barna og ungmenna. Eftir því sem fleiri taka þátt í tómstundastarfi minnkar hættan á að einhverjir verði útundan. Hjá sumum sveitarfélögum sitja þessi mál eftir þegar kreppir að. Verkefni sem sveitarfélögin eru skyldug að halda úti með lögformlegum hætti fara í forgang en hin mæta frekar afgangi. Eitt af því er tómstunda- og félagsstarf með börnum og ungmennum. En sparnaður í þessum málaflokki er lítill ávinningur eða alls enginn þegar upp er staðið. Málið er að ef ungmenni hafa lítið fyrir stafni og ekki verkefni við hæfi geta þau leiðst út á óæskilegar brautir og þá verður kostnaðurinn við félagsþjónustuna meiri þ.e. þegar komið er upp vandamál sem bregðast þarf við í nauðvörn í stað forvarna. Kostnaðurinn á ársgrundvelli við eitt barn sem fer út af sporinu getur orðið mun meiri en laun eins eða tveggja starfsmanna í félagsmiðstöð.“

Ýmislegt er gert sér til dundurs.

You may also like...