Íþróttafólk ÍR 2017

Á myndinni eru verðlaunahafarnir.

Aníta Hinriksdóttir frjálsíþróttakona og Matthías Orri Sigurðsson körfuknattleiksmaður voru útnefnd Íþróttakona og íþróttakarl ársins 2017 hjá ÍR á verðlaunahátíð félagsins. Hver deild innan ÍR tilnefndi íþróttakonu og íþróttakarl ársins 2017 og úr þeim hópi valdi aðalstjórn þau Anítu og Matthías Orra. Aníta vann m.a. til bronsverðlauna á EM innanhúss á árinu og bætti Íslandsmetin í 800m og 1500m hlaupum. Matthías Orri leiðir lið ÍR í toppbaráttu Dominosdeildarinnar í körfuknattleik um þessar mundir og lék sína fyrstu karlalandsleiki á árinu. Matthías Orri og Aníta voru valin úr hópi um 2700 skráðra iðkenda sem stunda 10 mismunandi íþróttagreinar undir merkjum ÍR á árinu 2017.

Kom valið Anítu á óvart. “Ég var frekar sátt við hlaupaárið 2017 og vissi að það væru einhverjar líkur en svo eru líka mjög margir vel að tilnefningunni komnir úr röðum ÍR inga svo það var mikill heiður að vera tilnefndur.

Hvenær byrjaðir Aníta að hlaupa. Hvenær vaknaði áhuginn. “Ég og Dagbjartur frændi skottuðumst mikið á æfingar og í kringum mót með mömmum okkar, Mörthu og Bryndísi Ernstsdætrum, og vorum alltaf að keppast eitthvað. Ég byrjaði svo að æfa frjálsar frekar snemma og þá allar greinar. Seinna fann ég að áhuginn og hæfileikarnir væru mest í hlaupunum. Við frændsystkinin kepptum svo í fyrsta skiptið saman á stórmóti á EM u23 í sumar, hann í spjótkasti og ég í 800. Það má því segja að fjölskyldan hafi verið mér góð hvatning og í rauninni bara stemmningin og andinn í frjálsíþróttadeildinni yfirleitt.”

Aníta segir áhuga og eljusemi lykilinn að baki góðum árangri í íþróttum. “Áhuginn, skemmtilegur æfingahópur og góðir þjálfarar er það fyrsta sem mér dettur í hug þegar ég er spurð um þetta.”

Aníta er nú stödd í æfingabúðum í Suður Afríku og þá vaknar spurning um hver verði næstu skref hennar á hlaupabrautinni. “Ég er í þessum töluðu orðum í Potchefstroom í Suður Afríku en þar er einmitt frábæra grashlaupabraut að finna. Hér kemur fólk alls staðar að að æfa og þó að það sé vissulega frábær æfingaaðstaða og veðurfar hér, gefur það að hitta og sjá allt fólkið æfa hvað mestu hvatninguna. Æfingar hafa svo bara gengið ágætlega hingað til eftir bröstulegt æfingahaust þar sem ég var meidd í smá tíma. Hitinn gerir þessu gott og því er stefnan sett á að komast á heimsmeistaramótið innanhúss sem fer fram í Birmingham í mars. Stærsta markmið ársins er svo EM í Berlín í sumar.

En er svona æfingaprógram ekki full vinna. Er einhver tími fyrir önnur störf eða nám með þessu. “Eftir menntaskólann flutti ég til Hollands til þess að reyna fyrir mér enn frekar í hlaupunum. Síðasta árið fór mest bara í að læra hollensku og aðlagast en í haust fann ég að nám myndi líklega gera mér gott. Skemmst er frá því að segja að ég tók fyrsta misserið á skólaárinu í Mann- og þróunarfélagsfræði en það reyndist aðeins of stór biti svona á nýju tungumáli þó að skólinn komi aðeins til móts við íþróttafólk. Stefnan er því sett á að vinna enn frekar í hollenskunni og skrá mig svo í skothelt nám sem gengur vel með hlaupum á næsta ári. Það verður vonandi þetta sama nám eða nám/fjarnám kennt á íslensku.”

Á myndinni eru Aníta Hinriksdóttir og Matthías Orri Sigurðsson með verðlaun sín.

Metnaðurinn og vinnusemin lykilatriði

Matthías Orri segir tilnefninguna ekki hafa komið sér mikið á óvart. “Samt sem áður eru margir frábærir íþróttamenn hjá ÍR þannig að ég er stoltur að hafa unnið þetta. Ég byrjaði í körfu þegar ég var kornungur, líklega fimm ára gamall. Ég kem úr mikilli körfubolta fjölskyldu þannig að einhverju leyti var ég fæddur í að vera körfuboltamaður.”

En hver er galdurinn að baki þessu. “Ég var alltaf fremur einbeittur á að komast að því hversu góður ég gæti orðið í íþróttinni minni. Metnaðurinn og vinnusemin hefur alltaf verið til staðar og það hefur hjálpað mér að verða að því sem ég er í dag. Fyrst og fremst held ég að vinnusemi sé það mikilvægasta til að koma sér á framfæri. Það þarf ákveðna geðveiki til að vera nógu vinnusamur til að virkilega ná árangri í því maður sem er að gera, hvort sem það eru íþróttir eða annað í lífinu.”

En hver eru næstu skref hjá Mattíasi. “Næstu skref eru að reyna halda ÍR á sömu braut og koma inn í úrslitakeppnina með fullmótað lið sem hefur möguleika á að fara langt í Íslandsmótinu.

Er þetta ekki full vinna. “Þetta er klárlega full vinna. Maður tekur í raun aldrei frí frá körfuboltanum. Þó að maður eyði kannski þremur tímum á dag í æfingar þar sem maður er líkamlega á staðnum þá er hugurinn alltaf á fullu að reyna finna fleiri vinkla til að verða betri í íþróttinni. Ég er í námi með þessu en oft á tíðum lendir það á skólanum að fá of fáar klukkustundir í athygli. Maður þarf oft að velja og hafna og forgangsraða.”

Þeir sem tilnefndir voru frá deildum ÍR

Frjálsíþróttakona: Aníta Hinriksdóttir.

Frjálsíþróttakarl: Guðni Valur Guðnason.

Handknattleikskona: Sólveig Lára Kristjánsdóttir.

Handknattleikskarl: Bergvin Þór Gíslason.

Júdókona: Aleksandra Lis.

Júdókarl: Jakub Marek Tumowski.

Karatekona: Kamila Buraczewska.

Karatekarl: Aron Anh Ky Huynh.

Keilukona: Linda Hrönn Magnúsdóttir.

Keilukarl: Andrés Páll Júlíusson.

Knattspyrnukona: Mónika Hlíf Sigurhjartardóttir.

Knattspyrnukarl: Andri Jónasson.

Körfuknattleikskona: Hanna Þráinsdóttir.

Körfuknattleikskarl: Matthías Orri Sigurðsson.

Skíðakona: Helga María Vilhjálmsdóttir.

Skíðakarl: Kristinn Logi Auðunsson.

Taekwondokona: Ibtisam El Bouazzati.

Taekowondokarl: Kriel Eric Jan Luzara Renegado.

You may also like...