Hagar vilja byggja allt að 400 íbúðir í Norður Mjódd

Myndin sýnir svæðið í Norður Mjódd þar sem hugmyndir eru um að íbúðahverfi rísa frá grunni.

Fyrirtækið Hagar hyggja á uppbyggingu í Norður Mjóddinni í Breiðholti og hafa forsvarsmenn þess hafið viðræður við Reykjavíkurborg um þróun á landsvæði við Stekkjarbakka. Forsaga þess er að Hagar festu kaup á reit, sem telur tæplega 20 þúsund fermetra, fyrir nokkrum árum. Olís er með starfsemi á næstu lóð. Eftir sameiningu Haga og Olís eignaðist sami aðili, það er Hagar báðar lóðirnar og leigusamninga við leigjendur. Samkvæmt hugmyndum Haga er gert ráð fyrir að þarna muni rísa blokkir með allt að 400 íbúðum ásamt aðstöðu fyrir verslun og þjónustu. Garðheimar og Vínbúðin eru á meðal bygginga á þessu svæði en leigusamningar þeirra renna úr árið 2021 eða eftir tvö ár. Ráðgert er að þá hafi náðst samkomulag við Reykjavíkurborg um skipulag á lóðinni. 

Samkvæmt fyrsta skipulagi af Norður Mjódd frá 1962 til 1983 var gert ráð fyrir að þar yrði óbyggt útivistarsvæði hugsað til þess að tryggja íbúum í Neðsta hluta elsta Breiðholtshverfisins útsýni. Í grenndarkynningu fyrir Norður Mjódd frá 1974 má finna fyrstu teikningar um nýtingu þessa svæðis undir byggingar. Þar kom meðal annars fram að í Norður Mjóddinni yrði komið fyrir lágum byggingum, sem myndu ekki trufla útsýni úr neðstu húsum Stekkjarhverfis. Um svipað leyti hafði Olís fengið vilyrði hjá Reykjavíkurborg til að flytja bensínstöð sína sem þá stóð sunnan Álfabakka yfir götuna og verða syðst í Norður Mjódd þar sem hún er nú. Þá voru komnar fram hugmyndir um að reisa hverfisstöð fyrir Strætisvagna Reykjavíkur við Álfabakka og því varð að færa bensínstöðina.

Úr útivistarsvæði í blandaða notkun og nú íbúðabyggð

Var landnotkun á reitnum norðan bensínstöðvar Olís breytt úr útivistarsvæði til sérstakra nota í blandaða notkun verslunar- og þjónustusvæðis og útivistarsvæðis til sérstakra nota. Þar var lagt er til að nýtingarhlutfall svæðisins yrði lágt og yfirbragð þess grænt. Hugmyndir forráðamanna Haga ehf. nú eru að við Stekkjarbakka í Mjóddinni, á því svæði þar sem Garðheimar og Vínbúðin eru nú muni rísa blokkir með hátt í 400 minni og stærri íbúðum auk verslunar- og þjónustuhúsnæðis. Er þetta unnið í samráði við hugmyndir og stefnu borgaryfirvalda um þéttingu byggðar. Áform eru um að öllum undirbúningi verða lokið í tæka tíð þannig að framkvæmdir geti hafist á árinu 2021. Hugmyndir eru um að Bónusverslun verði á svæðinu en Bónus er í eigu Haga og einnig bensínstöð. Þá er gert ráð fyrir að stoppistöð fyrir borgarlínuna verði við byggðina þar sem strætómiðstöðin er í dag.

You may also like...