Miklar skemmdir á Breiðholtskirkju

– ófyrirsjáanlegur kostnaður við viðgerð

– rætt um að sameina Breiðholts- og Fella- og Hólasóknir

Breiðholtssöfnuður fékk nýlega styrk úr Kirkjumálasjóði til þess að meta skemmdir er orðið hafa í áranna rás á Breiðholtskirkju. Skemmdirnar eiga sér langa sögu eða nánast frá því að byggingu hennar lauk. Byggingin er að verulegum hluta gerð úr límtré þar sem tólf límtrésbitar bera hana uppi. Fljótlega kom lekavandamál í ljós og þurfti að klæða bitana með stáli sem kostaði verulega fjármuni. Ekki tókst þó að koma í veg fyrir lekann sem orðin er það mikill að í nokkur ár hefur þurft að setja fötur á gólfið til þess að taka við leka ofan úr loftinu. Svo rammt hefur kveðið að þessu að til vandræða hefur horft við kirkjulegar athafnir.

Erfitt hefur reynst að fá fjármuni til þess að ráðast í nauðsynlegar viðgerðir. Ljóst er að þær verða kostnaðarsamar en engu að síður nauðsynlegar eigi kirkjan ekki að verða ónýt. Nokkuð hefur tekist að halda í horfinu með bráðabirgðaviðgerðum sem flestar hafa verið unnar af miklum vanefnum og ekkert annað en smávægilegir plástrar á stór sár. Ekkert bendir til að að unnt verði að hefja vinnu við varanlegar viðgerðir og styrkurinn sem veittur hefur verið miðast að mestu við undirbúningsvinnu, einkum við mat á framkvæmdaþörf.

Breiðholtssöfnuður er fámennasti söfnuðurinn á höfuðborgarsvæðinu og hefur ekki bolmagn til þess að sjá um viðhald á kirkjunni. Sóknargjöld standa vart undir rekstri kirkjunnar án þess að við bætist mikil og kostnaðarsöm viðhaldsvinna við kirkjubygginguna. Sökum fámennis safnaðarins hefur verið rætt um hvort rétt væri að sameina Breiðholtssókn og Fella- og Hólasókn. Endanlega ákvarðanir hafa ekki verið teknar en talið er að rekstur Breiðholtssóknar verði tæpast sjálfbær til frambúðar þótt viðhaldskostnaður á kirkjubyggingunni sé ekki tekinn inn í dæmið. Fari svo að sóknirnar verði sameinaðar vakna spurningar um hvað verði um Breiðholtskirkju. Á þessari stundu virðist ekki áhugi fyrir því að afleggja hana sem kirkju eða að selja kirkjuhúsið. Heldur að nýta báðar kirkjurnar fyrir sameinaðan söfnuð. Fella- og Hólakirkja er stór bygging með góðri aðstöðu fyrir margskonar kirkjustarf og annað félagsstarf. Og þá vakna spurningar um hvort sameinaður söfnuður hefur bolmagn og vilja til þess að gera við Breiðholtskirkju eða hvar fjármuni megi finna til þess verks. Og spurning er einnig um álit sérfróðra manna. Hvert kostnaðarmat þeirra verður og hvort kirkjan sé ef til vill of illa farin til þess að talið verði fært að gera við hana eða endurbyggja að hluta.

You may also like...