Rektorinn í Vesturbænum

Jón Atli Benediktsson rektor háskóla íslands.    Mynd: Kristinn Ingvarsson.

Jón Atli Benediktsson rafmagnsverkfræðingur og rektor Háskóla Íslands er Reykvíkingur og býr í Vesturbænum. Foreldrar hans eru Benedikt H. Alfonsson, fyrrverandi kennari í Stýrimannaskólanum í Reykjavík, stofnandi og stjórnandi Siglinga-skólans, og Katrín Jónsdóttir, húsmóðir og fyrrverandi skrifstofumaður. Eftir stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík hélt Jón Atli til náms í rafmagnsverkfræði, fyrst við Háskóla Íslands þaðan sem hann lauk prófi 1984 og síðan við Purdue University í Indiana í Bandaríkjunum þaðan sem hann lauk Ph.D. prófi í rafmagnsverkfræði 1990. Eftir heimkomuna, nánar tiltekið í júní 1991, hóf hann störf sem lektor í rafmagns- og töluverkfræði við Háskóla Íslands, en varð síðar dósent og loks prófessor við Háskólann árið 1996. Jón Atli tók við embætti rektors Háskóla Íslands í júní 2015. Jón Atli spjallar við Vesturbæjarblaðið að þessu sinni.

Þú hefur starfað við Háskóla Íslands á miklu vaxtarskeiði í sögu skólans, sem hvergi nærri er lokið. „Háskólanemum hefur fjölgað umtalsvert á umliðnum árum. Vægi vísindastarfa hefur aukist og markviss uppbygging doktorsnáms átt sér stað. Vaxandi alþjóðasamstarf hefur einnig kallað fram mikinn vöxt í starfsemi skólans. Alls þessa sér auðvitað stað ekki aðeins í innra starfi Háskólans heldur einnig í ytra umhverfi hans og eru ýmsar framkvæmdir yfirstandandi eða fyrirhugaðar á háskólasvæðinu á næstu árum“, segir Jón Atli. „Starfsemi Háskóla Íslands fer nú fram á nokkrum stöðum í Reykjavík en stefnt er að því að sem mest af henni verði á umráðasvæði skólans í Vesturbænum, Vatnsmýrinni og við Hringbraut. Það er því ljóst að starfsemi Háskóla Íslands mun setja mikinn svip á bæði umhverfi og samfélag í Vesturbænum á komandi tímum.“

Nemendum fjölgaði mikið eftir hrunið

Jón Atli segir að nemendum Háskóla Íslands hafi fjölgað mikið í kjölfar efnahagsþrenging-anna eftir hrunið 2008. Fleira fólk hafi sótt bæði í grunn- og framhaldsnám en áður. Þá hafi Kennaraháskóli Íslands verið sameinaður Háskóla Íslands og nýtt Menntavísindasvið orðið til innan hans. Einnig hafi verið unnið markvisst að uppbyggingu doktorsnáms við skólann á sama tíma, auk þess sem alþjóðlegt samstarf hafi stóraukist. „Í reynd er Háskóli Íslands fullburða alþjóðlegur rannsóknaháskóli sem á í nánu samstarfi við innlendar stofnanir og atvinnulíf og starfar í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi.“

Aðalbygging Háskóla Íslands teiknuð af Guðjóni Samúelssyni er kennileiti í Vesturbænum en háskólasvæðið allt afmarkast af Suðurgötu, Hjarðarhaga, Dunhaga og Birkimel til vesturs, Hringbraut til norðurs, Njarðargötu til austurs, þar með talið svæði Fluggarða en af holti fyrir sunnan stúdentagarða við Eggertsgötu til suðurs.

Á sautjánda þúsund manns á Háskólasvæðinu

Hvað starfa margir á háskólasvæðinu núna? „Nú eru um 12.500 nemendur skráðir til náms og fer starfsemin fram í um 30 byggingum. Af þessum nemendum eru um 1.200 erlendir stúdentar sem koma hingað til lands til þess að stunda háskólanám. Við Háskólann starfa um 1.500 fastráðnir kennarar auk þess sem um 2.000 stundakennarar víðsvegar að úr atvinnu- og þjóðlífi koma að kennslunni. Því má ætla að á sautjánda þúsund manns starfi á háskólasvæðinu, ýmist við kennslu, rannsóknir, nám eða önnur störf sem tengjast Háskólanum,“ segir rektor.

Vísindagarðar í Vatnsmýrinni

Aukin aðsókn og ný verkefni koma m.a. fram í auknum umsvifum og framkvæmdum á háskólasvæðinu og nú eru nokkur stór uppbyggingarverkefni í gangi. „Nýjasta byggingin, sem stendur á horni Suðurgötu og Brynjólfsgötu, verður vígð 20. apríl nk. og mun hýsa Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og erlendar tungumálagreinar Háskólans. Samhliða framkvæmdum við bygginguna hafa verið grafin göng undir Suðurgötu sem tengja saman Háskólatorg og Vigdísarhúsið. Við bindum einnig miklar vonir við að brátt fari að rætast úr með byggingu Húss íslenskra fræða sem slegið var á frest í kjölfar hrunsins árið 2008. Húsgrunnurinn við hlið Þjóðarbókhlöðunnar hefur staðið opinn í rúm fjögur ár og er mál að húsið fari að rísa,“ segir Jón Atli. „Þá verður áfram haldið uppbyggingu Vísindagarðanna í Vatnsmýrinni. Þar er að verða til alþjóðlegur vettvangur tækni- og þekkingarsamfélagsins á Íslandi sem mun tengja saman Háskólann og aðra aðila sem vinna að hagnýtingu rannsókna, nýsköpunar og viðskiptaþróunar. Vísindagarðar eru vel þekkt fyrirbæri erlendis, í Evrópu, Bandaríkjunum og í Asíu, og hafa Háskóli Íslands og Reykjavíkurborg tekið höndum saman um að leiða slíka uppbyggingu í Vatnsmýrinni. Þar eru nú þegar starfsstöðvar Íslenskrar erfðagreiningar og lyfjaþróunarfyrirtækisins Alvogen. Í upphafi árs var svo tekin fyrsta skóflustungan að nýju hugmyndahúsi sem hlotið hefur nafnið Gróska og mun hýsa tölvuleikjafyrirtækið CCP og ýmis sprotafyrirtæki. Þá verður áfram haldið uppbyggingu stúdentagarða, en nú þegar er lokið byggingu fjögurra stúdentagarða á milli Oddagötu og Sæmundargötu og ætlunin er að hefja framkvæmdir við þann fimmta í byrjun næsta árs. Einnig er áformað að reisa byggingu fyrir kennslu, þjálfun og rannsóknir í heilbrigðisgreinum í tengslum við uppbyggingu nýs Landsspítala háskólasjúkrahúss við Hringbraut. Loks er ætlunin að flytja starfsemi Menntavísindasviðs, sem nú er við Stakkahlíð, vestur á Melana.“

Tölvuteikning af Húsi íslenskra fræða eins og það mun koma til með að líta út. Jón Atli kvest binda miklar vonir við að brátt fari að rætast úr með byggingu þess sem slegið var á frest í kjölfar hrunsins árið 2008. Hann segir húsgrunninn við hlið Þjóðarbókhlöðunnar hafa staðið opinn í rúm fjögur ár og mál sé að húsið fari að rísa.

Háskólastarfið auðgar Vesturbæinn og Miðborgina

Hvernig sér rektor fyrir sér tengsl háskólasvæðisins og hinar almennu byggðar fyrir vestan Læk? „Háskóli Íslands og Landspítalinn eru stærstu vinnustaðirnir í vestari hluta Reykjavíkur og það setur vissulega mark sitt á þennan borgarhluta. Drjúgur hluti starfsmanna og stúdenta býr einnig í Vesturbænum og aðliggjandi hverfum svo kannski mætti segja að þessi borgarhluti sé orðinn nokkurs konar háskólabær. Ég tel að Háskólinn auðgi miðborgina og hafi jákvæð áhrif á margvíslega aðra starfsemi. Í því sambandi nægir að benda á Háskólatorg og Stúdentakjallarann sem iðar af lífi allan daginn og á kvöldin, Þjóðminjasafnið er okkar næsti nágranni með fjölbreyttum sýningum, Þjóðarbókhlaðan sem hýsir Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn er afar mikilvæg stofnun, Háskólabíó er lifandi menningarhús, Vesturbæjarlaug er heilsumiðstöð hverfisins, friðlandið í Vatnsmýrinni er í reynd náttúruleg tilraunastofa, Norræna húsið er vettvangur margvíslegra viðburða og þannig mætti áfram telja. Svo er líka gaman að sjá hvernig svæðið við Hofsvallagötu er að lifna við með kaffihúsum og verslunum og í kringum höfnina á sér stað mikil uppbygging.“

 Okkur líður afskaplega vel í Vesturbænum

Nú er rektor sjálfur búsettur í Vesturbænum – nánast á Háskólasvæðinu sjálfu. Hvernig líkar Jóni Atla sjálfum að vera einn af íbúum Vesturbæjarins? „Við fjölskyldan höfum lengi búið í Vesturbænum og okkur líður afskaplega vel hér. Það er mikill kostur að geta gengið til og frá vinnu og skóla og það sparar bæði tíma og bílaakstur. Háskóli Íslands hefur sett sér metnaðarfulla umhverfis- og sjálfbærnistefnu og mér finnst gaman að taka þátt í að hrinda henni í framkvæmd. Hér er nánast allt til alls í göngufæri.“

You may also like...