Breiðhyltingar eru hluti af öflugu samfélagi
– segir Guðrún Eiríksdóttir nýkjörinn formaður Hverfisráðs Breiðholts –
Guðrún Eiríksdóttir hefur verið kjörin formaður Hverfisráðs Breiðholts. Hún tók við formennskunni af Nichole Ligh Mosti sem farin er til annarra starfa. Guðrún er uppalin Breiðhyltingur. Foreldrar hennar bjuggu fyrstu árin í Bökkunum en fóru síðan í Vesturbergið og enduðu í Seljahverfinu þar sem Guðrún býr nú. Hún bjó um áratug í Danmörku og segir að þegar hún flutti heim aftur hafi ekkert annað komið til greina en gömlu heimkynnin í Seljahverfinu. „Við keyptum hús við Brekkusel og búum í tvíbýli ásamt föður mínum eftir að hann varð ekkjumaður.”
Guðrún hefur ekki tekið þátt í borgarmálum fyrr, en hefur tekið þátt í starfi Bjartrar framtíðar og setið á lista Bjartrar framtíðar til alþingiskosninga ásamt stjórnarsetu í flokknum. Hún segir að Breiðholtið hafa breyst mikið frá því hún var að vaxa upp “Breiðholtið hefur vaxið út því að vera frumbýlisleg byggð í gróið hverfi. Mannlífið hafði líka breyst. Breiðholtið er orðið mikið fjölmenningarhverfi. Ég kynntist fjölmenningu í Danmörku og get fullyrt að við séum í betri aðstöðu en Danir í að aðstoða fólk við að laga sig að nýjum heimkynnum að vissu leyti. Ætli það sé ekki vegna þess hversu fá við erum. Það eru mikið um það í Danmörku að nýbúar tengist ekki nábýli sínu og umhverfi og í stað þess að aðlagast fara þeir að mynda sína eigin lokuðu hópa. Mér sýnist okkur hafa tekist að komast að miklu leyti fram hjá þessum vanda og fólkið hér í Breiðholtinu þar sem ég þekki best til hefur flest náð góðum tökum á tilveru sinni í nýju umhverfi. Þetta er vissulega vinna og við þurfum að taka mið af vandamálum nágrannaþjóða okkar þegar kemur að því að virkja alla í samfélaginu. Við eigum að geta fagnað fjölbreytileikanum og búið í sátt og samlyndi og með það að leiðarljósi að allir þrífist og aðlagist. Það er ótrúlega mikið af flottu fólki hér í Breiðholtinu.
Meiri samfélagsleg ábyrgð í Danmörku
„Annað sem ég kynntist í Danmörku og tel að Íslendingar mættu tileinka sér er ákveðin samfélagsleg ábyrgð. Ég get nefnt dæmi um að á hverju ári var ákveðinn tiltektardagur í leikskólunum þar sem foreldrar komu saman og gerðu leikskóla barnanna sinna gott til – til dæmis með tiltekt eða málningu. Á eftir var svo grillað og fólk hafði gaman af að koma saman. Þetta hugarfar virðist ekki fyrir hendi hér á landi – alla vega ekki þar sem ég þekki til. Þetta á við um allt annað t.d. snjómokstur, sorphirðu og almenningsrými. Fólki finnst þetta vera verkefni annara. Verkefna sveitarfélaganna og í þessu tilviki borgarinnar. Hugsunin er að við höfum greitt skatta og eigum rétt á þessu ásamt allri annari þjónustu
Aðlögun og móðurmál
Guðrún segir að næstu verkefni hverfisráðsins séu framhald á því sem unnið hafi verið að. Einkum hvað varðar börn sem eru tví- og jafnvel þrítyngd. “Í mörgum fjölskyldum eru notuð tvö tungumál. Þá oftast móðurmál foreldra og síðan íslenskan sem verður annað móðumál barnanna. Enska kemur líka oft við sögu sem þriðja tungumálið því margir notast við hana til þess að gera sig skiljanlega einkum á meðan þeir eru að ná tökum á Íslensku. Verkefni okkar eru því ekki síst tengd þessum mikilvægu málum; aðlöguninni, móðurmálinu, velferð, lestrarkunnáttu og frístundaiðkun.”
Hluti af öflugu samfélagi
Guðrún víkur að öðru sem hún kveðst oft hafa velt fyrir sér. “Mér finnst vanta ákveðið stolt í Breiðhyltinga. Það er eins og umræða liðinna ára – einkum fyrstu ára Breiðholtsins hafi rænt suma Breiðhyltinga stoltinu. Umræðan gat verið neikvæð á köflum og hefur að einhverju leyti viljað koma upp aftur og aftur. Fólk er enn hörundsárt vegna fréttaflutnings og afstöðu sumra fjölmiðla sem hefur því miður ekki breyst eða þróast í takt við tímann. En það er enginn fótur fyrir neikvæðu tali um Breiðholtið. Breiðhyltingar þurfa að vera meðvitaðir um að þeir eru hluti af öflugu samfélagi.”