Vinirnir og íslenskan í íþróttum og frístundum

Þráinn Hafsteinsson.

Íþrótta- og frístundaþátttaka barna gefur þeim tækifæri til að umgangast jafningja með svipuð áhugamál og markmið. Oftar en ekki bindast þátttakendur vinaböndum og njóta tengslanna og vinskaparins sem myndaðist í æsku út ævina. Það að vera hlekkur í vinakeðju eflir og styrkir viðkomandi einstaklinga til fjölþættrar þátttöku í samfélaginu langt út fyrir íþrótta- og frístundastarfið. Þessi gríðarlega mikilvæga umgjörð tengslamyndunar auk heilsueflingarinnar sem felst í þátttökunni er megin ástæða þess að svo rík áhersla er lögð á þátttöku allra barna og unglinga í íþróttum og frístundum í Breiðholti. 

Íþrótta- og frístundaþátttakan getur líka verið mjög ákjósanlegur vettvangur fyrir börn og unglinga af erlendum uppruna til að læra íslensku og æfa sig í notkun málsins. Það að læra íslensku heitin og hugtökin sem notuð eru á íþróttaæfingunni, í tónlistarnáminu eða á skátafundi er mikilvægur þáttur í því að efla sjálfstraust og trú á að geta tileinkað sér nýtt tungumál. Sem síðan gerir sömu börnum auðveldara með að mynda tengsl, eignast vini og að geta lagt sitt að mörkum í allskonar þátttöku í lífinu. Í tengslum við verkefnið ,,Frístundir í Breiðholti“ hafa 50 þjálfarar, kennarar og leiðbeinendur í íþrótta og frístundastarfi í Breiðholti setið námskeið þar sem aðferðir til að efla vinatengsl og íslenskunotkun í gegnum íþrótta og frístundastarf voru kynntar. Íslenskumælandi þátttakendur þurfa líka að taka á með þjálfurum og kennurum og gefa þeim sem þurfa á að halda tækifæri og hvatningu til að æfa sig í íslenskunni í íþróttum og frístundum.

Þráinn Hafsteinsson.

Verkefnastjóri frístunda og félagsauðs Þjónustumiðstöð Breiðholts.

You may also like...