TUFF Breiðholt – öll börn taki þátt

Þessi mynd var tekin á fundi með KSÍ sem styður verkefnið. Á myndinni eru Helgi Óttarr Hafsteinsson, Hrund Hafsteinsdóttir, Guðni Bergsson, Þráinn Hafsteinsson og Samander Talwar.

Breiðholtsblaðið heldur áfram að fylgjast með TUFF Breiðholt verkefninu sem nú hefur staðið yfir í rúma 2 mánuði. Með verkefninu býðst 6 til 15 ára börnum sem ekki hafa tekið þátt í íþróttum áður að æfa án endurgjalds hjá ÍR eða Leikni í þrjá mánuði. Öll börn í Breiðholti eru hvött til þess að taka þátt og eru börn af erlendum uppruna boðin sérstaklega velkomin. Ásamt íþróttaiðkun er lögð áhersla á að kenna mannleg og samfélagsleg gildi.

Reykjavíkurborg rekur verkefnið í samstarfi við alþjóðlegu góðgerðasamtökin TUFF en aðalframkvæmdaaðilar verkefnisins eru íþróttafélögin Leiknir og ÍR. Hverfisstjórinn í Breiðholti, Óskar D. Ólafsson hefur farið fyrir verkefninu fyrir hönd Reykjavíkurborgar og frá TUFF eru þau Dr Shamender Talwar og Hrund Hafsteinsdóttir.

Þrátt fyrir miklar annir gaf hópurinn sér tíma til þess að ræða við Breiðholtsblaðið um framvinduna í TUFF Breiðholt. Dr Talwar bendir strax á tvo lykilmenn í verkefninu, þá Þráin Hafsteinsson frá ÍR og Helga Hafsteinsson frá Leikni. Þeir beri uppi framkvæmdina á TUFF verkefninu og þessi tvö félög hafi þegar unnið mikið þrekvirki með starfi sínu í Breiðholti. Félögin hafi á að skipa þjálfurum á heimsklassa sem sé sérstök ánægja að vinna með.

Hvað segja ÍR og Leiknir

Þráinn frá ÍR sagði að með þátttöku í TUFF Breiðholt hafi hann kynnst alveg nýrri nálgun í starfinu: “Með þátttöku í TUFF Breiðholt verkefninu höfum við markvisst átt fundi og byggt upp samstarf við skóla, íþróttafélög,  trúfélög, móðurmálsskóla, lögreglu og fleiri. Við verðum öll að vera samstíga í því að fá börn til þess að taka þátt í íþróttum eða tómstundum af einhverju tagi. Það skiptir máli fyrir liðsheildina í samfélaginu. Ég vil hvetja sem flest börn til þess að taka þátt.”

Helgi frá Leikni segist hafa mikla trú á þessu verkefni og er sannfærður um að hægt verði að ná til krakka sem ekki hafa æft áður. “Þetta er frábært forvarnarstarf og færni barnanna eykst ekki bara líkamlega heldur líka andlega, svo þau eiga miklu meiri möguleika á að aðlagast samfélaginu eins og við í Leikni höfum séð svo mörg dæmi um. Við sjáum TUFF verkefnið sem tækifæri til þess að stækka okkar öfluga hóp. Við hjá Leikni viljum að Breiðholtið vinni saman sem ein heild. Við verðum að auka samkennd og tryggja að enginn verði utanveltu. Hér á að vera þverskurður samfélagsins, bæði meðal iðkenda og þjálfara.”

Hvers vegna er TUFF á Íslandi?

Dr Talwar verður fyrir svörum: “Frá 2013 hefur TUFF staðið fyrir mörgum verkefnum sem miða að því að fá börn og unglinga til þátttöku í íþróttum og tómstundum og kenna þeim samfélagsleg gildi. Mörg verkefnanna eru í Bretlandi þar sem við erum í samstarfi við breska innanríkisráðuneytið. Staðan á Íslandi er auðvitað allt önnur en þar og aðdáunarvert að sjá hvernig Breiðholtshverfið hefur markvisst unnið að því að opna arma sína gagnvart fjölmenningu.”

Lagði hann ríka áherslu á að TUFF verkefnið væri ekki einskorðað við nýbúa. “Það er mikilvægt að verkefnið nái til allra barna, ekki bara þeirra sem eru að erlendu bergi brotin. Verkefnið snýst um að byggja upp skilning og samstöðu og því verður ekki náð nema með þátttöku allra. Á næstunni mun TUFF taka stefnu á önnur hverfi Reykjavíkur og aðra landshluta.”

Hrund, einnig frá TUFF kom með verkefnið til landsins ásamt Dr Talwar og undirstrikar forvarnargildi verkefnisins:

“Við vitum hvað það er mikilvægt að börn og unglingar, burtséð frá bakgrunni eða uppruna, upplifi sig sem hluta af heild. Það gerir þau sterkari einstaklinga, tryggir betri árangur í námi og gefur þeim veganesti inn í lífið. Í raun erum við að tala um sameiginlega hagsmuni þjóðfélagsins til framtíðar.”

Sterkt og sameinað Breiðholt

Óskar hverfisstjóri í Breiðholti segir að það hefði komið sér á óvart hve gríðarlega víðtækt TUFF verkefnið væri. “Það hafa allir hlutverk, skólar, íþróttafélög, félagsmiðstöðvar og trúfélög. Okkar markmið er að fá krakkana til að taka þátt og að ná betur til foreldranna. Verkefnið gengur út á að styðja börnin til þess að verða betri manneskjur og að undirbúa þau betur fyrir þátttöku í samfélaginu. Verkefnið styður við önnur verkefni sem Breiðholt hefur skipulagt, svo sem Heilsueflandi Breiðholt og fjölskyldumiðstöðina. Við viljum sterkt og sameinað Breiðholt “

Breiðholtsblaðið heldur áfram að fylgjast með TUFF Breiðholt verkefninu. Hópurinn kveður í bili: “Ég er TUFF”.

Þessi mynd var tekin í Breiðholtsskóla 22. febrúar og þarna eru tveir nemendur með kynningarbækling um Tuff verkefnið.

 

Þrjá áhugasamar stelpur um TUFF verkefnið í Hólabrekkuskóla.

You may also like...