Unnið að bættu umferðaröryggi í Vesturbænum

Umferðarljós í Miðborg Reykjavíkur. Með nýrri tækni er hægt að auka sýnileika gangandi vegfaranda við gangbrautir.

Neshagi við Furumel, Sólvallagata við Framnesveg, Framnesvegur við Brekkustíg, Ægisgata við Ránargötu, Hverfisgata við Frakkastíg og Barónsstíg og Grandavegur við innkeyrslu á Ægissíða eru á meðal þeirra staða ákveðið hefur verið að efna til úrbóta vegna umferðarmál. Eru það einkum gangbrautir en einnig viðvörunarljós og bætt yfirsýn vegfarenda sem um er að ræða.

Í frétta frá Reykjavíkurborg segir að ný tækni geri gangandi vegfarendur sýnilegri þegar þeir fara yfir gangbrautir. Um er að ræða tæknibúnað sem skynjar þegar gangandi vegfarendur nálgast gangbraut og kveikir þá LED götulýsingu, sem sett er upp þannig að einungis gangbrautin og sá sem fer yfir verða lýstir upp. Einnig kviknar lýsing í gangbrautarmerkinu og viðvörunarljós fyrir akandi umferð.

Borgarráð hefur heimilað umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir við umferðaröryggismál 2020. Verkefnin eru að hluta skv. áætlun um að flýta fjárfestingaverkefnum Reykjavíkurborgar með það að markmiði að veita viðspyrnu við atvinnuleysi af völdum COVID 19. Áfram verður unnið að ýmsum öðrum aðgerðum í umferðaröryggismálum í samræmi við ábendingar og forgangsröðun. Kostnaðaráætlun vegna verkefna ársins 2020 er 190 milljónir króna en það nær í heild sinni til allrar borgarinnar.

You may also like...