Kvöddu með Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna

Árni Einarsson og Margrét Lind Ólafsdóttir.

Bæjarstjórn Seltjarnarness hélt síðasta fund kjörtímabilsins 6. júní síðastliðinn. Það var jafnframt síðasti fundur Árna Einarssonar bæjarfulltrúa Neslista og Margrétar Lindar Ólafsdóttur bæjarfulltrúa Samfylkingar sem hverfa nú úr bæjarstjórn. Aðrir núverandi bæjarfulltrúar verða við bæjarstjórnarborðið þegar ný bæjarstjórn tekur formlega við síðar í þessum mánuði.

Á þessum síðasta fundi sínum lögðu Árni og Margrét Lind í sameiningu fram tillögu um að Seltjarnarnesbær innleiði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og geri samning við UNICEF á Íslandi um samstarf við innleiðinguna.   

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var lögfestur á Íslandi árið 2013 og er nú hluti af íslenskri löggjöf. Hann veitir börnum víðtæk réttindi og endurspeglar nýja sýn á stöðu barna í samfélaginu og tryggir þeim sérstaka vernd, umönnun og þátttöku. Hann felur í sér viðurkenningu á því að börn séu sjálfstæðir einstaklingar með fullgild réttindi, óháð réttindum fullorðinna. 

Tillaga Árna og Margrétar Lindar var samþykkt samhljóða.

You may also like...