Íslenskir foreldrar senda börn í aðra skóla
Í haust eru aðeins 25 nemendur skráðir til náms í sex ára bekk í Fellaskóla í Breiðholti og hefur þeim fækkað um nær helming á skömmu tímabili. Meiri hluti barna sem eru að hefja nám í skólanum eru af erlendum uppruna. Mörg þeirra eiga ekki íslensku að móðurmáli enda tvítengi algengt þegar börn af erlendum uppruna eiga í hlut þar sem annað tungumál er talað á heimilum þeirra en í skólaumhverfinu.
Í ljós hefur komið að á undanförnum árum hafa íslenskumælandi foreldrar í Fellahverfi kosið í vaxandi mæli að senda börn sín í aðra grunnskóla en Fellaskóla. Um 66% barna sem eiga lögheimili í skólahverfinu gengu í Fellaskóla árið 2013 og hefur það hlutfall lækkað enn frekar á síðustu fimm árum. Á sama tíma hefur hlutfall barna með heimili í sínu skólahverfi hækkað í nærliggjandi skólum og einnig hlutfall barna sem koma úr öðru skólahverfi – einkum skólahverfi Fellaskóla. Á þetta einkum við um Hólabrekkuskóla og Seljaskóla. Verulegt áhyggjuefni hefur vaxið af þessu þar sem gott starf hefur verið unnið í Fellaskóla og starfsfólk þar náð góðum árangri í vinnu með nemendur skólans. Erfitt er að greina þennan vanda nákvæmlega en hann er engu að síður fyrir hendi. Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar hefur látið hafa eftir sér að taka þurfi samtal með foreldrum og samfélaginu í Fellahverfi með því markmiði að efla hverfið og treysta skólastarf þar. Þess má geta að nemendur Fellaskóla eru yfir meðaltali í lesskilningi sé miðað við skóla á vegum Reykjavíkurborgar.