Verðlaunuð hús í Vesturbæ og Miðborg – Fríkirkjuvegur 3 og Nýlendugata 24
Tvö eldri hús í Vesturbæ og Miðborg Reykjavíkur hlutu viðurkenningar fyrir vandaðar endurbætur á eldri húsum í Reykjavík árið 2018. Það eru húsin við Fríkirkjuveg 3 og Nýlendugötu 24.
Húsið við Fríkirkjuveg 3 var byggt árið 1905 sem íbúðarhús í hinum íslenska bárujárnssveitserstíl. Höfundur hússins er ókunnur en Sigurður Thoroddsen verkfræðingur reisti húsið fyrir sig og fjölskyldu sína. Breytingar og endurbætur á húsinu hafa verið gerðar í samræmi við gerð og aldur þess eftir teikningum Stefáns Arnar Stefánssonar og Grétars Markússonar, arkitekta hjá ARGOS ehf.
Nýlendugata 24 er íbúðarhús, byggt árið 1906 í stíl sem kallaður hefur verið íslenskur bárujárnssveitser. Höfundur hússins er ókunnur en fyrsti eigandi var Jóhannes Guðmundsson skipstjóri. Húsið er hluti af þeirri byggð sem reis norðan Vesturgötu í kringum aldamótin 1900. Engar upprunalegar teikningar fundust af húsinu en samkvæmt lýsingu í brunavirðingum og af ljósmyndum sem teknar voru af því fyrir 1926 má sjá að það hefur haldið upphaflegri gerð og verið varðveitt af kostgæfni með tilliti til upprunalegs útlits.