Vilja nýtt umhverfismat um vegastæði um Vatnsendahvarf

Af Vatnsendahvarfi.

Andstæðingar lagningar Arnarnesvegar um Vatnsendahvarf segja að sá hluti vegarins sem fyrirhugað er að leggja hafi upphaflega verið hugsaður sem ofanbyggðarvegur og settur sem slíkur á skipulag fyrir 40 árum. Þeir telja ljóst að forsendur fyrir upprunalegu umhverfismati séu brostnar. Meðal annars vegna mikilla breytinga á fyrirkomulagi byggðar og að vegurinn muni hafa mikil áhrif á náttúrulífs- og útivistarsvæði. Þá telja þeir að umferð um væntanlegan veg muni auka verulega umferð um Breiðholtsbraut sem þegar sé fullsetin. Því sé nauðsynlegt að fram fari nýtt umhverfismat þar sem fyrra mat er nær 18 ára gamalt.

Áætluð umferð um Arnarnesveg, 1,3 km langan þjóðveg í þéttbýli, um vestanverða Vatnsendahæð var endurmetin í allt að 20.000 bifreiðar á dag árið 2013, sem er langt umfram upphaflegrar áætlunar frá umhverfismati 2003 sem var 9.000 til 15.000 bifreiðar. Bent hefur verið á að rútur og þungaflutningabifreiðar munu einnig fara um Arnarnesveginn til og frá Reykjanesi sem þýðir stóraukna umferð í mikilli nálægð við einn fjölmennasta skóla höfuðborgarsvæðisins.  

Náttúrulegt útivistarsvæði

Andstæðingarnir telja að vegurinn komi til með að skerða náttúrulegt útivistar- og útsýnissvæði í tvennt. Svæði sem mikið er nýtt af íbúum borgar og nágrennis. Þá er bent á að allt fyrirhugað vegarstæði sé þakið fjölbreyttum gróðri og sé einnig árlegt varplendi fuglategunda eins og lóu, hrossagauka og spóa. Vegurinn mun koma til með að breyta ásýnd og notagildi þessa dýrmæta græna svæðis til frambúðar. Þá muni hann skerða fyrirhugaðan Vetrargarð sem er á nýju hverfisskipulagi fyrir Breiðholt.

Úr Jaðarseli í Kópavog

Í nýju hverfisskipulagi Breiðholts koma fram áætlanir um að opna umferð inn í Kópavog úr Jaðarseli fyrir strætisvagna. Við það vaknar spurning um hvort þá opnist ekki möguleiki að leyfa umferð slökkvibíla, sjúkraflutninga- og lögreglubifreiða að fara þar í gegn þegar útkall á sér stað en ein megin röksemd fyrir lagningu vegarins er að auðvelda aðkomu þessara aðila að efri byggðum Kópavogs.

You may also like...