Getur farið að styttast í næsta gos

Oddur Sigurðsson jarðfræðingur.

– tölfræðin telur um 25 til 30 gos á öld –

“Ég flutti í Breiðholtið 1974. Ég er ættaður frá Akureyri og alin upp í Þingvallatrætinu rétt ofan við sundlaugina. Eins og marga aðra dró háskólanám mig suður og ég bjó við Dunhaga um tíma. En svo tók Breiðholtið við. Ég var búinn að stofna heimili og konan var úr Reykjavík og gat þess vegna sótt um lóð en á þeim tíma þurfti fólk að vera búið að vera með heimilisfesti í Reykjavík um nokkurt árabil til þess að geta sótt um lóð. Breiðholtið var að byggjast og við ákveðum að sækja um lóð í Seljahverfinu sem við fengum. Til að vera nær byggingasvæðinu ákváðum við að flytja í Breiðholtið og leigðum íbúð við Maríubakka fyrstu tvö árin á meðan við vorum að byggja í Brekkuselinu. Við fluttum svo inn í nýja húsið 27. febrúar 1977 og höfum verið þar síðan eða í rúm 40 ár.” Sá sem þetta mælir er Oddur Sigurðsson jarðfræðingur hjá Veðurstofu Íslands en Breiðholtsblaðið leit við hjá honum á dögunum.

“Við höfum kunnað ágætlega við okkur hér efra. Eini vandinn var að húsin voru flest byggð úr ónýtu efni og það vitandi vits. Menn vildu ekki viðurkenna að fyllingarefnin frá Björgun og Akranessementið gengu ekki nægilega vel saman. Saltið í fyllingarefninu hentaði ekki sementinu og steypan fór fljótt að molna. Ég get nefnt sem dæmi að Landsvirkjun notað aldrei sement frá Sementsverksmiðjunni á Akranesi enda hafa virkjanaframkvæmdir staðist tímans tönn með ágætum. Miklu betur en marga húsabyggingar frá þessum tíma og síðar. Ég tel að ef allt væri tekið saman – allar skemmdir og endurbætur þá hafi þetta kostað þjóðin hundruð milljarða.” Oddur segir að þetta hafi fljótlega komið fram í sínu húsi eins og víðar. “Ég þurfti að klæða það 13 árum eftir að við fluttum inn. Múrinn var farinn að hrynja utan af því. Þá lágu stór steinsykki á pallinum á morgnana og við máttum vera heppin að enginn úr fjölskyldunni fékk múrstykki í höfuðið. Ég sótti um lán til þess að bæta húsið en fékk neitun vegna þess að það var ekki talið nægilega gamalt til þess að hægt væri að telja það ónýtt. Klæðningin lokaði fyrir aðgang vatns að steypunni og einangraði það að utan og þetta hefur allt verið til fríðs síðan. En það var með ólíkindum hvað menn notuðu Akranessementið lengi.” Oddur segir Beiðholtið hafa breyst mikið á þeim rúmum 40 árum sem þau séu búin að vera þar. “Þegar við komum fyrst upp eftir þá sá maður ekkert annað en mýragróður. Húsin voru að byrja að rísa en hefðbundinn grasgróður og hvað þá tré sáust varla. Menn spáðu heldur ekki vel fyrir gróðurmyndun þarna. Töldu Breiðholtið of hátt yfir sjávarmáli til þess að trjágróður næði að þrífast. En annað hefur komið á daginn. Breiðholtið hefur blómstrað að þessu leyti eins og mörgu öðru. Það hefur elst vel.”

Ljóð Jónasar á disk 

Oddur var í stjórn foreldrafélags í hverfinu um tíma. “Þá kom fram hugmynd um að sameina leikskólann Hálsakot og öldrunarheimilið Seljahlíð. Ég var fylgjandi þessari hugmynd. Við sem vorum það töldum gott að tengja kynslóðirnar með þessum hætt. En það voru ekki allir sammál. Sumir töldu að gamalt fólk væri stundum illskeytt og það hefði ekki góð áhrif á börnin. Það varð ekkert úr þessu en ég held að þessi viðhorf hafi breyst nokkuð eins og svo margt annað. Eitt sem ég gerði athugasemdir við í málum leikskólans var lagavalið og þá einkum textavalið sem börnin voru látin syngja. Textarnir voru ekki miklir fyrir mann að sjá. Það voru ekki gerðar miklar kröfur til barnatexta eins og fyrir fullorðna og sumt var hreinn leirburður. Ég hringdi í Jónas Árnason sem þá átti heima í Borgarfirði og átti við hann mjög skemmtilegt samtal. Ég stakk upp á því að gerður yrði diskur með ljóðum hans og honum síðan dreift til allra leikskóla í landinu. Jónas tók þessu vel en því miður féll hann frá eftir nokkra daga. Því varð ekkert úr þessu en margir textar hans er góður kveðskapur – fínn fyrir börn og gerður við lög sem auðvelt er að syngja.”

Frá Skaftafelli.

Jöklarnir munu hverfa

Svona var lífið í Breiðholtinu en Oddur hefur ekki alltaf dvalið heima við. Hann hefur ferðast um og skoðað landið meira en margur annar enda starfað sem jarðfræðingur allan sinn starfsaldur. Eitt af því sem hann hefur rannsakað eru jöklar landsins sem eru að hopa. Því er tilvalið að spyrja Odd hvort og þá hvenær landið verði jöklalaust. “Já – þeir munu hverfa og enginn fær neitt við því gert. Sama til hvaða ráða verður gripið. Gróðurhúsaáhrifin búa yfir mikilli tregðu. Svo mikilli að það mun halda áfram að hlýna í um 150 ár eftir að hætt verður að blása þessum lofttegundum sem kenndar eru við gróðurhúsaáhrif út í andrúmsloftið. Það er svipaður tími og tekur jökla að hverfa með gildum rökum miðaða við það veðurfar sem spáð er.” 

Vísindamenn á mála stórfyrirtækja

Talið berst að landnámssögu Íslands, sögum um siglingar, ferðir á landi og jafnvel stórbúskap á bújörðum hér á landnámsöld. Segja þessar sagnir ekki frá því að hér hefur verið hlýrra veðurfar en síðar varð. “Það var hlýrra veður á landnámsöld. Það er vitað en svo kólnaði upp úr 1300. Tímabilið frá um 1300 og fram undir 1900 hefur stundum verið kallað litla ísöldin. Ef við förum lengra aftur í tímann þá er talið að Íslandi hafi verið jöklalaust fyrir um fimm þúsund árum. Þetta er ekki langur tími í jarðsögulegu tilliti. Nú hefur náttúruna ekki undan að jafna sig á þessum miklu breytingum og það verða afföll í lífríkinu. Þetta er að gerast núna. Um það eru flestir vísindamenn sammála þótt allt að 60% fólks í Bandaríkjunum vilji ekki leggja trúnað á það. Það er á annarri skoðun en vísindamenn vegna þess að þar eru öfl sem tekist hefur að koma í veg fyrir að fólk fái að vita sannleikann. Á stjórnartíma George W. Bush, Dick Chaney og Donald Rumsfelt komu fram þrír merkilegir eðlisfræðingar sem spáðu efasemdum að neinar loftslagsbreytingar væru á döfinni. Þetta voru sömu eðlisfræðingarnir og spáðu því að tóbaksnotkun væri ekki skaðleg. Maður getur rétt ímynda sér hvað þeir hafa fengið greitt frá fyrirtækjum – frá olíu- og kolaiðnaðinum og frá tóbaksframleiðendum. Það er skelfilegt hvernig stjórnmálamenn á þessum væng Bandaríkjanna hafa farið gegn viðurkenndum vísindum og látið skammtímasjónarmið stórfyrirtækja ráða för.” 

Allt er miðað við hagvöxt

Oddur bendir á að Kínverjar séu að skipta um skoðun. Þeir séu fara fram úr Bandaríkjamönnum í umhverfismálum en í Kína voru lengi talin og eru enn menguðustu svæði veraldar. “Þeir eru að átta sig á þessu enda er orðið lífshættulegt að vera í stórborgum í Kína. En það eru þessi sjónarmið sem eru einkennandi í veröldinni að miða allt við hagvöxt. Það stefnir hver einasta ríkisstjórn í veröldinni að hagvexti nema kannski í Bútan. Ég tel að mannkynið verði að minnka umsvif sín. Það er búið að smíða margar hörmungar sem eiga eftir að dynja yfir. Sameinuðu þjóðirnar hafa til dæmis var að við að umhverfisflóttafólki muni fjölga fjórfalt fram til miðrar aldar. Það er fólk sem verður að flýja heimkynni sín – einkum vegna breytinga á veðurfari.” 

Hvert fara umhverfisflóttamenn

Flóttamannavandinn er ærinn og spurningar hljóta að vakna hvert allt þetta fólk muni fara á hlýnandi jörð. Fá 350 þúsund Íslendingar að hafa 103 fer-kílómetra land fyrir sig að eilífu. Oddur hugsar sig um og segir að við þurfum trúlega ekki að óttast að verða umhverfisflóttafólk. Hvort slíkt flóttafólk frá öðrum heimshlutum eigi eftir að koma og setjast hér að sé erfiðari spurning. Kannski sé best að útiloka ekki neitt. “Ísland er að hækka og hækkar nær tífalt örar en hafið í kringum landið. Þetta stafar fyrst og fremst af því að jöklarnir eru að bráðna og þá fer ákveðið farg af landinu. Það er eiginlega aðeins vestast á Seltjarnarnesi sem land lækkar litillega.” Ísland situr á flekaskilum milli tveggja meginfleka jarðar. Vesturhluti landsins situr á Norður-Ameríkuflekanum, en Austfirðir á Evrasíuflekanum. Flekaskilin markast af skjálfta- og eldvirku belti sem teygir sig eftir Atlantshafinu miðju. Flekarnir færast í sundur og er rekhraðinn á Íslandi um 19 mm á ári. Oddur segir að skil á milli landhæðar og hæðar sjávar séu flókin og langt frá því að við höfum áttað okkur til fulls af hverju þessar breytingar stafa. Loftslagssveiflur hafi alltaf verið og muni alltaf verða en aðgerðir mannsins valdi því nú að þær verði örari. Þær bitni nú á fjölmörgum tegundum lífríkis sem ekki hafa undan að laga sig að aðstæðum. Ísbjörninn sé ef til vill nærtækastur. “Nú berast fréttir af horuðum hvítabjörnum sem ekki ná í æti þegar ísinn hopar. Hann hefur aðlagað sig lífi í hinn frosnu náttúru en hefur ekki tíma til að laga sig að þeim aðstæðum sem nú eru að skapast.”

Frá gosinu í Eyjafjallajökli árið 2010.

Getur farið að styttast í næsta gos

Annað hvílir á okkur Íslendingum en hlýnun jarðar þótt hún snerti okkur rétt eins og aðra jarðarbúa. Það eru eldgos. Þau hafa gert mikinn usla í gegnum tíðina og nú bíða Íslendingar eftir að fari að gjósa – eða hvað. “Ég er viss um að það muni gjósa og það jafnvel fyrr en síðar. Tölfræðin segir til um að það gjósi að jafnaði um 25 til 30 sinnum á öld. Fjórða hvert ár að meðaltali. Þótt við fylgjumst grannt með þá getur verið erfitt að lesa í þær upplýsingar sem við fáum að við getum sagt fyrir um gos með nákvæmri tímasetningu. Eftir því sem mælingar verða þéttari er þó hægt að spá með meiri nákvæmni. Við getum lesið af jarðskjálftamælum og sagt fyrir að þessi eða hin eldstöðin sé óróleg og verði að hafa gát á henni. Þegar gosið í Eyjafjallajökli varð 20. mars 2010 hafði hann ekki gosið í 180 ár. Þrátt fyrir það höfðu menn fengið vitneskju um við hverju mætti búast. Því var búið að fylgjast með honum og æfa viðbrögð við því sem gæti orðið. Menn gátu þó ekki séð nákvæmlega fyrir hvar gosið myndi koma upp. Vestmanna-eyjagosið 1973 kom flestum á óvart. Enginn hafði búist við að eldur kæmi upp inn á Heimaey þótt gosið í Surtsey hafi verið ákveðinn fyrirvari. Hér áður fyrr voru menn misglöggir á jarðfræðina rétt eins og veðrið. Einar á Skammadalshóli var með jarðskjálftamæli heima hjá sér og hann á að hafa verið búinn að sjá marga skjálfta sem voru ekkert annað en fyrirboði gossins. Bjarni Bjarnason skólastjóri á Laugarvatni var með annan. Sagan segir að þegar hann hafi verið búinn að sjá marga skjálfta í röð hafi hann gengið upp í fjall og beðið eftir að sjá gosbjarmann stíga upp af eyjunum. Svo viss hafi hann verið. Eftir að þeir tveir hafi verið búnir að láta vita af þessu var hringt til Vestmannaeyja en enginn þar hafi fundið fyrir jarðhræringum. Hefði þriðji mælirinn verið til staðar hefði mátt staðsetja þetta mun nánar þótt eflaust hafi ekki verið hægt að tímasetja gosið nákvæmlega eða sjá stærð þess fyrir. En eftir gosin í Surtsey og skömmu síðar í Heimaey í Vestmannaeyjum fóru menn að gera sér grein fyrir að Vestmannaeyjar eru megin eldstöð sem gæti orðið á stærð við Eyjafjallajökul. Eldstöðvar þurfa langan tíma til þess að byggjast upp. Talið er að eldstöð eins og Eyjafjallajökull lifi í um það bil milljón ár og miðað við það á hann talsvert eftir eða líklega um 600 þúsund ár. Jarðsagan býr við annan skala en saga mannsins. Þar gerast hlutirnir hægar. En ef miðað er við um 25 til 30 gos á öld getur farið að styttast í það næsta,” segir Oddur Sigurðsson jarðfræðingar og Breiðholtsbúi, þegar við göngum út í haustblíðuna úr gamla gráa húsi Veðurstofu Íslands ofan við Bústaðaveginn.

You may also like...