Rekstur hjúkrunarheimilisins tryggður
Hjúkrunarheimilið á Seltjarnarnesi mun taka til starfa á útmánuðum. Samkvæmt viljayfirlýsingu heilbrigðisráðherra sem undirrituð hefur verið mun Vigdísarholt ehf., sem er einkahlutafélag í eigu ríkisins annast rekstur nýja hjúkrunarheimilisins á Seltjarnarnesi. Þá mun félagið einnig taka að sér rekstur dagdvalarrýma í bæjarfélaginu sem ætlunin er að fjölga töluvert.
Framtíð hjúkrunarheimilisins hefur verið í nokkurri óvissu eftir að ljóst var að Seltjarnarnebær ætlaði ekki að koma að rekstri þess þrátt fyrir samningsbundna ábyrgð á honum. Samkvæmt viljayfirlýsingunni tryggir heilbrigðisráðuneytið greiðslur fyrir rekstri 40 hjúkrunarrýma af hálfu Sjúkratrygginga Íslands frá 1. febrúar nk., en gert er ráð fyrir að það geti tekið allt að þrjá mánuði að koma heimilinu í fullan rekstur.
Haft er eftir Steingrími Ara Arasyni formanni stjórnar Vigdísarholts hægt verði að taka við fyrstu vistmönnum í byrjun apríl en nokkurn tíma mun taka að ganga endanlega frá stofnuninni þótt Seltjarnarnesbær hafi afhent hjúkrunarheimilið til Vigdísarholts. Mikill vandi hefur skapast á Landspítala háskólasjúkrahúsi vegna skorts á hjúkrunarrýmum fyrir fólk sem þarf á slíkri þjónustu að halda en er fast á spítalanum vegna þess að hvergi er hægt að koma því fyrir. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur lagt áherslu á að tryggja opnun heimilisins um leið og það er tilbúið til reksturs. Tafarlaus opnun þess er einnig eitt af því sem sérstaklega er nefnt í hlutaúttekt embættis landlæknis til að bregðast við alvarlegri stöðu á bráðamóttöku Landspítalans.