Leitar eftir byggingarreit

— Byggingarsamvinnufélag um bíllausan lífsstíll —

Ljóst er að ekki er rými til að byggja bíllausa íbúðabyggð við Laugaveginn en Miðborgarsvæðið hentar vel fyrir þennan lífsstíl.

Bíllaus lífsstíll hefur verið að ryðja sér til rúms að undanförnu og hefur hugmyndin ekki látið Íslendinga ósnortna. Nú hefur verið stofnað til byggingafélags Samtaka um bíllausan lífsstíl og var stofnfundur þess haldinn í Norræna húsinu fyrir skömmu. Markmið félagsins er að fá reiti miðsvæðis í borginni til að byggja bíllaus hverfi. Félagið heitir Miðgarður og er Magnús Jensson arkitekt nýkjörinn formaður þess.

Næstu skref verða að kynna félagið betur fyrir almenningi og stjórnvöldum. Stefnt er á að halda kynningu á Hönnunarmars næst komandi þar sem sagt verður frá hugmyndum félagsins og sjónræn samantekt notuð. Félagið hefur enn ekki beint sjónum að ákveðnum svæðum innan borgarinnar en forsvarsmenn þessara hugmynda hafa átt fund með eigna- og atvinnuþróunarsviði borgarinnar í haust þar sem þeim voru sýndar ýmsar lóðir sem bæði eru í eigu hins opinbera og einkaaðila. Á síðasta ári sóttu félagsmenn um að fá að byggja á lóðinni við Sjómannaskólann en voru þremur stigum af 100 frá því að fá byggingarleyfi úthlutað. Áhersla er lögð á að byggja sem næst miðborginni þar sem auðveldara er að fara ferða sinna án þess að notast við eigin bíl. Einnig er lögð áhersla á hagkvæmt húsnæði sem aukið getur fjölbreytni á markaði.

You may also like...