Bæjarstjórnina skortir kjark og framtíðarsýn

— myndirnar sem skreyta viðtalið voru teknar á útgáfuhófi – Lífið í lit – Endurminningabók Helga Magnússonar —

Arna Einarsdóttir og Helgi t.h. með bróður Helga og mágkonu, Sigurði Gylfa og Tinnu Laufeyju, sem bæði eru prófessorar við HÍ.

Helgi Magnússon sem lengi hefur búið á Seltjarnarnesi sendi nýlega frá sér endurminning-ar sínar, Lífið í lit, sem Björn Jón Bragason skráði. Hann kemur víða við í bókinni sem er yfir 500 blaðsíður og mikið myndskreytt. Bókin er hin áhugaverðasta og vönduð að allri gerð. Margt forvitnilegt kemur fram um sitthvað sem gerðist að tjaldabaki í viðskiptalífinu á Íslandi. Einnig er áhugaverð lýsing á samfélaginu á árunum frá 1950 og fram undir síðustu aldamót. Margar skemmtilegar sögur fljóta með sem auka á fjölbreytileika bókarinnar.

Áður en við spyrjum Helga um efni bókarinnar biðjum við hann að segja skoðun sína á samfélagi okkar hér á Seltjarnarnesi. Gefum honum orðið um það: “Senn eru liðin 40 ár frá því ég flutti á Nesið en fram að því hafði ég búið í vesturbæ Reykjavíkur, í miðju KR-hverfi, þó ég hafi verið Valsari alla ævi. Ég þekkti marga sem bjuggu á Seltjarnarnesi og létu vel af því. Ég greip því tækifæri sem bauðst og keypti mér raðhús í byggingu sem ég lauk við og lét innrétta eftir mínum óskum. Á þessum árum var bærinn rekinn af miklum myndarskap undir öruggri forystu Sigurgeirs Sigurðssonar. Ég tel að hann og þeir sem áttu þá sæti með honum í bæjarstjórninni hafi lagt grunninn að því trausta og öfluga samfélagi sem Seltjarnarnes er ennþá. Samfélagið býr enn að þeirri miklu uppbyggingu sem varð í tíð Sigurgeirs þó mér þyki lítið hafa bæst við frá því hann lét af störfum fyrir aldurs sakir og aðrir tóku við. Eftir tíma Sigurgeirs hefur skort þor og framtíðarsýn. Mér finnst það sorglegt því þetta bæjarfélag hefur afl til að gera mun betur en raun ber vitni.”

Vantar yngra fjölskyldufólk inn í sveitarfélagið

Helgi segir Seltjarnarnesið státa af fyrirmyndarskipulagi að því er varðar samtengingu leikskóla, grunnskóla, íþróttastarfs og tómstundastarfsemi fyrir börn. “Þetta er allt á sama stað, leikskólinn, Mýrarhúsaskóli, Valhúsaskóli, Tónlistarskólinn, sundlaugin, íþróttahúsið, íþróttavöllurinn og Selið. Ég efast um að svona gott fyrirkomulag finnist í öðrum sveitarfélögum á Íslandi. Arna Einarsdóttir konan mín og ég höfum búið á Nesinu allan okkar búskap og alið hér upp þrjú börn sem öll hafa gengið í gegnum skólana, tómstundastarfið og íþróttirnar í Gróttu og líkað vel. Allar aðstæður fyrir fjölskyldufólk eru því góðar á Seltjarnarnesi. En það mætti hafa betri nýtingu á skólum og oft er kvartað yfir því að árgangar séu of litlir í skólunum og ég veit að sama gildir um árganga yngri iðkenda í Gróttu. Það vantar meira af yngra fjölskyldufólki inn í sveitarfélagið, það vantar fleira fólk með börn  sem gætu notað skólana og stækkað árgangana í Gróttu.”

Af hverju steig bæjarfélagið ekki inn í Bygggarðamálið

Og Helgi spyr sjálfan sig hvers vegna skyldi vanta fleira ungt fjölskyldufólk inn í sveitarfélagið núna og svarar um hæl. “Það er vegna þess að forystan í sveitarstjórninni hefur brugðist. Það hefur vantað lóðir fyrir nýbyggingar, það hefur vantað tækifæri fyrir ungt fólk til að koma sér fyrir á Nesinu. Þetta stafar ekki síst af því að ekki hefur orðið af byggingu íbúða á Bygggarðasvæðinu vestast á Seltjarnarnesi sem til stóð að ráðast í fyrir meira en áratug. Ef ég man rétt var búið að skipuleggja 500 manna byggð sem þar átti að rísa. Það er einmitt sá fjöldi íbúa sem hefði gert gæfumuninn varðandi þróun byggðar og nýtingu innviða á Nesinu. Þessi áform strönduðu við hrunið. Að mínu mati hefði bæjarstjórnin þá átt að stíga inn og tryggja það að þessum áformum yrði hrint í framkvæmd í stað þess að láta það viðgangast að þessi góðu áform fengju að leggjast í dvala hjá verktökum sem strönduðu með áform sín fyrir heilum áratug. Enn hefur ekki verið hafist handa um uppbyggingu á þessu áhugaverða svæði. Þarna skorti forystu af hálfu bæjaryfirvalda. Þau hafa ekki neinar handbærar afsakanir fyrir þessu sleifarlagi.”

Vil sjá enn meiri stuðning við Gróttu

“Ég gæti nefnt ýmislegt fleira sem betur hefði mátt fara varðandi grundvallarmál í sveitarfélaginu síðustu 10 til 15 árin. En ég ætla að láta nægja að bæta einu álitaefni við. Bærinn ver á hverju ári umtalsverðum fjármunum til stuðnings við íþróttastarfið í bænum. Ég geri ekki lítið úr því en ég tel að það megi gera enn betur og ganga enn lengra. Íþróttir eru besta forvarnarstarf sem völ er á gagnvart börnum, unglingum og ungu fólki. Um það er varla deilt. Sveitarfélög eru misvel stödd fjárhagslega. Yfirleitt er talað um að Seltjarnarnes sé eitt best stadda sveitarfélagið fjárhagslega ásamt með Garðabæ. Í ljósi þess hefði ég viljað sjá enn meiri metnað hjá okkur varðandi stuðning við Gróttu. Ég vísa til þess hve myndarlega Garðabær hefur stutt íþróttafélagið Stjörnuna á umliðnum árum og áratug. Það skilar sér í því að nú er Stjarnan með lið í efstu deild karla og kvenna í knattspyrnu, handbolta og körfubolta. Þarf að segja meira? Getum við ekki lært af þessu? Og annað dæmi: Vestmannaeyjar eru svipað bæjarfélag og Seltjarnarnes að íbúafjölda, um 4.500 íbúar. Hvers vegna eru þeir jafnan með lið í efstu deild karla og kvenna í knattspyrnu og handbolta? Það er vegna þeirrar stefnu sem þeir hafa þorað að móta varðandi stuðning við íþróttir. Okkur á Seltjarnarnesi er engin vorkunn,” segir Helgi. “Við höfum efni á þessu eins og t.d. Vestmannaeyjar og Garðabær. En svo virðist sem það skorti djörfung, framtíðarsýn og forystu. Að mínu mati kallar það á nýja sýn – eða nýja forystu.

Helgi Magnússon og Björn Jón Bragason bókarhöfundur.

Hver endurminningabók er framlag til Íslandssögunnar

En snúum okkur þá að bókinni Lífið í lit. “Ég hafði aðeins velt því fyrir mér hvort ég ætti að láta skrifa endurminningar mínar og gefa út á bók. Ég hef alla tíð haft mikla ánægju af ævisögum og lesið fjölda þeirra. Mín kynslóð á að mestu eftir að koma fram og segja sögu sína. Ég tel það mikilvægt því hver endurminningabók er framlag til Íslandssögunnar – þó lítið sé. Þegar Björn Jón Bragason bauðst til að skrifa bókina þá ákvað ég að slá til. Hann er lögfræðingur og sagnfræðingur og mjög snjall rithöfundur að mínu mati. Ég treysti honum fyrir verkefninu og það reyndist rétt mat. Lífið í lit er sjöunda bók hans.”

Réttarkerfið brást í Hafskipsmálinu

Hvað er fjallað um í bókinni. “Í bókinni er fjallað um ættir mínar og uppruna og svo tímann þegar ég var að alast upp á Melunum í Reykjavík. Þá fjalla ég einnig um skemmtileg ár í Versló og Háskólanum þar sem margar þekktar persónur koma við sögu. Fimmtungur bókarinnar fjallar um Hafskipsmálið sem ég tengdist en ég var endurskoðandi fyrirtækisins og lenti ásamt fleirum í talsverðum hremmingum eftir gjaldþrot fyrirtækisins. Í þessu máli brást réttarkerfi okkar með eftirminnilegum hætti. Ég hef litið á það sem borgaralega skyldu mína að upplýsa um gang þessa mistakamáls. Einnig fjalla ég um fleira sem ég hef tekið mér fyrir hendur í íslensku viðskiptalífi þar sem margt hefur gengið á síðustu tuttugu árin. Við Björn Jón reyndum einnig að gæta þess að birta ýmsar skemmtilegar sögur og frásagnir í bókinni til þess að efni hennar yrði sem fjölbreyttast. Þegar maður leggur út í að segja sögu sína er maður auðvitað hikandi. En ég sé ekki eftir því að hafa ráðist í verkið miðað við þær góðu og jákvæðu undirtektir sem bókin og við Björn Jón höfum fengið.”

Tekið á móti Árna Oddi forstjóra Marels og Eyrúnu Magnúsdóttur.
Seltirningurinn Ólafur Egilsson, Friðrik Sophusson og Helgi.
Birna Hafstein og Björgólfur Guðmundsson létu sig ekki vanta í útgáfuhófið.


You may also like...