Við höfum reynt að víkka guðfræðilega sýn
— segir Séra Hjörtur Magni Jóhannsson prestur Fríkirkjunnar í Reykjavík —
Séra Hjörtur Magni Jóhannsson hefur verið prestur Fríkirkjunnar í Reykjavík frá árinu 1998 eða í rúma tvo áratugi. Á þeim tíma hefur fjölgað verulega í söfnuðinum og störf séra Hjartar Magna vakið athygli. Mörgum finnst kirkjustarfið frjálslegra en almennt gerist í söfnuðum þjóðkirkjunnar og fólk finnur sig í léttu andrúmslofti sem leikur þar innan dyra. “Við höfum meira frelsi sem fríkirkja og mér finnst sjálfsagt að nota það,” segir Hjörtur Magni í spjalli við Vesturbæjarblaðið. En hvaðan kemur þessi prestur sem virðist stundum fara ótroðnar slóðir í kirkjustarfinu.
“Ég er Suðurnesjamaður. Fæddur í Keflavík og ólst þar upp þar til leiðin lá í háskóla. Ég ferðaðist líka talsvert á unglingsárunum og var meðal annars við nám í Jerúsalem. Móðir mín var mjög trúrækin og ég því virkur í kristileguæskulýðsstarfi. Þetta var hópur í Keflavík sem starfaði með þjóðkirkjunni en var ekki sértrúarsöfnuður. Þetta hafði áhrif og var undirrót þess að vekja áhuga minn á kristindómi og á Ísrael.” Voru það ekki viðbrigði að koma úr litla og friðsæla bænum Keflavík til Ísrael þar sem lífið virðist snúast um allt aðra hluti. “Þetta var allt annar heimur og auðvitað gjörólíkur því sem við þekkjum hér heima. Ég kom fyrst til Ísrael á níunda áratugnum og þarna var og er stöðug spenna í loftinu. Ég hef farið þangað nokkrum sinnum síðan sem fararstjóri og þetta hefur ekkert breyst. Spennan og átökin verða alltaf til og fátt sem bendir til þess að það muni eða geti breyst. Börnum er kennt að hata beggja vegna múrsins – bæði gyðingamegin og á svæðum múslima. Þannig verður hatrið á hinum, innbyggt í sálina allt frá bernsku. Nokkuð sem erfitt eða ógerlegt er að breyta. Rótin að þessu er auðvitað baráttan um land eins og í flestum átökum í sögu mannkyns. Þarna er verið að berjast um lítinn landskika sem var skipt á teikniborði stórveldanna þvert á þjóðir og kynþætti, hefðir og menningu og síðan hefur verið ófriðvænlegt. Ef til vill töldu Vesturveldin sig í skuld við Gyðinga vegna atburða síðari heimsstyrjaldarinnar en þeim tókst ekki að leysa vandann með þessari skiptingu. Það er enn á lifi fólk sem upplifði þessa atburði. Enn í dag er til fólk í Ísrael með brennd tákn og tölur á höndunum eftir helförina. Fólk sem átti að taka af lífi af því það voru Gyðingar. Þetta er ekki svo langur tími í sögunni þótt stundum sé sagt að við séum fljót að gleyma. Í skiptingunni fólust hættulega einfaldar lausnir á mjög flóknu máli – lausnir sem skapa meiri vanda en þær hafa leyst. Og þessi mál eru ekki aldeilis úr sögunni. Nú er öfgahyggja að rísa upp víða í heiminum. Trumpisminn í Bandaríkjunum. Erdogan í Tyrklandi og í Evrópu eru að koma fram á sjónarsviðið stjórnmálamenn sem byggja á þjóðernis- og öfgahyggju og vilja fara að skipta sér af – setja sín spor í söguna. Þetta er áhyggjuefni. ”
Varnarmálin efst í hugum fólks
Ísraelsmönnum virðist ganga mun betur til dæmis í efnahafslegu tilliti búandi á litlum landskika og í stöðugum ýfingi við nágrannana en öðrum nágrannaþjóðum. “Já – Ísraelsmann eru mjög sjálfbjarga. Þeim hefur tekist að þróa tæknisamfélag sem verður að teljast háþróað í dag. Þeir eru iðnir og skapandi. Þetta hefur bjargað efnahagslífi þeirra.” Hjörtur Magni segir erfitt að skilgreina ísraelsk stjórnmál eftir hinni vestrænu skilgreiningu um hægri og vinstri. Þeir virðast hægrisinnaðir ef úrslit kosninga eru skoðuð en þar komi fleira til. “Þetta er spurningin um óttann. Þeir lifa í stöðugum ótta vegna ástandsins sem er á þessu svæði og það kemur fram í afstöðu þeirra til stjórnvalda og ráðamanna. Þeir horfa til þess sem boðar hörðustu stefnuna í von um að það tryggi öryggi þeirra betur, en ef menn sátta og samlyndis veljast til að vera við stýrið. Þetta á stóran þátt í vinsældum Benjamin Netanjahu og Likud bandalagsins. Menn eru ekki að horfa á demokratisma eða frjálshyggju heldur einkum öryggi sitt. Varnarmálin verða efst á baugi í hugum fólks þegar það gengur að kjörborðinu.”
Á Útskálum á Hvalsnesi
Hjörtur Magni leitaði aftur á sínar gömlu slóðir að loknu námi. Hann gerðist prestur á Útskálum í Garði og þjónaði Garði og Sandgerði sem nú heitir Suðurnesjabær eftir sameiningu sveitarfélaganna. “Þetta er ekki langt frá minni gömlu heimabyggð. Stutt frá æskustöðvunum. Ég tók við af séra Guðmundi Guðmundssyni sem var ættaður úr Eyjafirði, en var búinn að sitja á Útskálum í tæpa fjóra áratugi og mætur maður séra Eiríkur Brynjólfsson var á undan honum. Ég hef annars tekið nokkrar slaufur frá guðfræðinámi og prestskap. Við Ebba Margrét eiginkona mín fórum til dæmis um þriggja ára skeið til Edinborgar þar sem hún var að sérhæfa sig í kvennlækningum og ég var að vinna rannsóknarvinnu um ýmsar trúarstofnanir og samanburð á þjóðkirkjunni hér og í Skotlandi. Þetta var bæði gefandi og skemmtilegur tími.”
Tók við kefli af öflugum prestum
Svo kemurðu að Fríkirkjunni. “Já – svo kom ég í Fríkirkjuna og tók við af séra Cecil Haraldssyni sem starfaði þar um tíma. Séra Cecil tók ýmsar nýjungar upp. Ein þeirra var að hann opnaði kirkjuna á síðkvöldum og um nætur um helgar. Þá lokuðu flestir skemmtistaðir á sama tíma og miðborgin fylltist af fólki í ýmiskonar ástandi. Fólk gat komið í kirkjuna, sest niður fengið sé heitan drykk því sumum var kalt og rétt sig af áður haldið var heim á leið. En Fríkirkjan hefur lengi verið þekkt fyrir öfluga presta. Séra Gunnar Björnsson var hér um tíma og séra Þorsteinn Björnsson var Fríkirkjuprestur í 28 ár. Séra Árni Sigurðsson var prestur á undan honum og var mjög virtur í starfi. Hann helgaði Fríkirkjunni alla starfskrafta sína og starfað aldrei annars staðar sem prestur. Svo var séra Ólafur Ólafsson og síðan frumkvöðulinn séra Lárus Halldórsson frá Hofi í Vopnafirði sem var mikill eldhugi og hugsjónamaður. Tengdasonur hans var séra Sigurbjörn Á. Gíslason, mikill framfaramaður, sem stofnaði Elli og hjúkrunarheimilið Grund sem enn er starfrækt af afkomendum hans.
Ég sótti um Fríkirkjuna ásamt 10 öðrum umsækjendum. Ég vissi ekki hvernig mér yrði tekið enda þá búinn að tjá mig um að mér þætti þjóðkirkjuformið ekki trúverðugt til framtíðar. Einhverjir hafa eflaust veitt þessu athygli og talið mig passa fyrir Fríkirkjuna því ég er hér og búinn að vera þennan tíma – rúmlega það sem af er 21. öldinni.”
Meira frelsi en í öðrum kirkjum
“Já – það hefur ýmislegt breyst,” segir Hjörtur Magni þegar hann er inntur eftir þessum tíma. “Fríkirkjusöfnuðurinn hefur tvöfaldast að stærð á sama tíma og fólki fækkar í Þjóðkirkjunni. Hann er orðinn fjölmennari en Dómkirkjusöfnuðurinn og Hallgrímssöfnuður til samans. Fólkið kemur reyndar af stærra svæði en hefðbundnar kirkjusóknir afmarka. Ég er hér einn starfandi prestur, en það starfa tveir prestar í Dómkirkjunni og þrír í Hallgrímskirkju, ríkslaunaðir.” En hvað skapar vinsældir Fríkirkjunnar. Hjörtur Magni hugsar sig um. “Við höfum verið með meira frelsi en margar aðrar kirkjur. Ég tók það í arf frá forverum mínum hér að byggja á víðsýni, frjálslyndi og umburðarlyndi. Það má rekja þessar áherslur allt aftur til fyrstu ára safnaðarins og þeirra presta sem þá störfuðu. Séra Lárusar sem var fyrst prestur frjáls safnaðar á Reyðarfirði og síðan séra Ólafs. Við höfum greint okkur enn meira frá Þjóðkirkjunni og lagt ríka áherslu á að mannréttindi standi ofar lögmálshyggju og trúarlegum bókstaf. Til þess að skilja þá hluti til hlítar þarf að setja sig inn í hugsunarhátt miðalda. Ég hef gagnrýnt Þjóðkirkjuna. Ég hef gagnrýnt bókstafstrú og sumir bókstafsprestar eru því ekki sammála og vilja líta á mig sem ég sé með vígtennur og úr hinu neðra. En ég held að þessi sérstaða eigi sinn þátt í hversu sóknarbörnum hefur fjölgað. Við höfum reynt að endurtúlka gamlar hefðir og víkka guðfræðilega sýn.”