Margt gert til gaman í tilefni afmælisins

Fjöldi fólk tók þátt í afmælisgöngunni.

Seljaskóli er 40 ára á þessu ári. Skólinn var byggður á síðari hluta áttunda áratugs liðinnar aldar og var tekinn í notkun haustið 1979. Skólinn var mjög fjölmennur í upphafi enda nánasta umhverfi næstum eingöngu byggt barnafólki. Magnús Þór Jónsson skólastjóri segir að þegar mest var hafi um 1400 nemendur verið í skólanum.

Skólinn var tvísetinn á fyrstu árunum. Um annað var ekki að ræða. En svo fór nemendum að fækka. Það gerðist í takt við að börnin uxu upp en sama fólkið bjó áfram í flestum íbúðum og húsum. Eftir að verulegur hluti hverfisins var orðin barnlaus var nemendafjöldinn komin niður í um 600 börn. “Þetta er aftur farið að þokast upp á við,” segir Magnús. “ Nú er eldra fólkið eða frumbýlingarnir farnir að flytja úr húsunum og yngra fólk og þá gjarnan með börn komið í staðinn. Barnafjöldinn fer svolítið í hringi.” Magnús segir að búast megi við meiri fjölgun nemenda á næstu árum. Stórar fjölskyldur séu að flytja í hverfið og einnig eitthvað um að stórum húsum sé skipt í fleiri íbúðir. Til dæmis að litlar íbúðir séu gerðar á neðri hæðum stórra húsa. “Við höfum jafnvel fengið allt upp í fimm systkini á einu bretti sem nýja nemendur við skólann.”

Kór Seljaskóla á afmælisdaginn.

Um 1500 manns komu í heimsókn

Á dögunum var haldið upp á 40 ára afmæli skólans. Magnús segir daginn hafa heppnast vel. Um 1500 manns hafi komið í heimsókn, bæði gamlir nemendur og starfsfólk. Verkefnið var unnið í samstarfi skólans og foreldrafélagsins og mikið var um dýrðir. Auk verkefna sem nemendur unnu um sögu skólans var margt brallað. BMX-bros mættu og sýndu hjólalistir, hoppukastalar voru á lóðinni, ásamt blaðrara og fulltrúa frá Dr. Bæk auk þess sem vildarvinir skólans, slökkviliðið litu við í tilefni dagsins. Dagurinn hófst á skrúðgöngu um hverfið undir forystu Lúðrasveitar Árbæjar og Breiðholts, og eftir stutta athöfn var boðið í afmælisköku og opið hús. Magnús segir að skólastarf Seljaskóla í 40 ár snerti marga. Bæði nemendur og starfsfólk og margir hafi sterkar taugar til skólans. Það hafi komið vel í ljós á afmælisdaginn.

Endurbyggingin verður tekin í notkun í áföngum 

Hluti skólahússins er lokaður sem stendur en eins og fólk rekur minni til urðu tvisvar eldsvoðar í húsinu á liðnu vetri. Sá síðari varð af völdum íkveikju, var stærri og olli meiri eyðileggingu. Magnús segir að nú sé unnið af fullum krafti við endurbyggingu þess hluta hússins sem skemmst hafi og og það verði tekið í notkun í áföngum eftir því sem vinnu við endurbygginguna vindur fram. 

Glaðar hnátur í afmæli Seljaskóla.

Fellasel til bráðabirgða

Á meðan endurbætur fara fram á hluta af Seljaskóla fengu 139 krakkar og 12 starfsmenn inni í kjallara Fellaskóla þar sem þeim eru búnar eins góðar aðstæður og kostur var. Skólaúrræðið hefur fengið vinnuheitið Fellasel, hópurinn sem þangað fer kemur í Seljaskóla á morgnana þar sem krökkunum er ekið niður í Fellaskóla og aftur til baka í hádeginu og þar ljúka nemendur skóladeginum í verk-, list og íþróttagreinum. Þau þurfa því ekki að ganga lengri leið í skólann þótt þessi skammtímalausn hafi verið fundin. Magnús segir hluta húsnæðis sem skemmdist hafa orðið fyrir altjóni og þurfti að byggja alla innviði upp að nýju samkvæmt nýjum stöðlum. Verkinu miði vel og ætlunin er að bjóða fólki aftur í heimsókn þegar allt verður tilbúið í hinum endurgerða hluta skólans.

Magnús horfir bjartur fram á veginn, segir farsæld hafa ríkt í Seljaskóla í gegnum 40 ára sögu hans og er sannfærður um að svo verði áfram.  Metnaður fyrir starfinu sé mikill, hjá starfsfólki, nemendum og forráðamönnum sem að skólanum standa og hann sé nú þegar farinn að hlakka til hálfrar aldar afmælisins.

You may also like...