Hjúkrunarheimilið Seltjörn hefur starfsemi
— dagdvöl opnuð fyrsta október —
Seltjörn hjúkrunarheimili, er nýtt hjúkrunarheimili, staðsett við Safnatröð á Seltjarnarnesi. Tekið var á móti fyrsta heimilisfólkinu 20. mars síðastliðinn og var hjúkrunarheimilið komið í fullan rekstur í byrjun júlí. Fyrsta október er fyrirhugað að opna dagdvöl með níu heimildum sem reiknað er með að fjölga í 25 frá næstu áramótum.
Húsið er allt hið glæsilegasta og er skipt í fjögur heimili hvert fyrir 10 heimilismenn, allt á einni hæð. Heimilið er hannað í anda Eden-stefnunnar þar sem lögð er áhersla á sjálfræði hvers íbúa. Góð aðstaða er fyrir endurhæfingu, iðjuþjálfun og sjúkraböðun í húsinu. Eitt af því sem vekur jafnan athygli gesta sem skoða heimilið er göngustígur á þaki hússins en húsnæðið var hannað af Arkís-arkitektum.
Eins og gengur og gerist þegar hjúkrunarheimili hefur rekstur í nýju húsnæði eru ýmsar áskoranir sem þarf að takast á við. Má þar helst nefna nýráðningar og þjálfun starfsfólks. Þá voru ýmsir þættir varðandi húsnæðið sem þurfti að leysa úr. Þegar á heildina er litið er ekki hægt að segja annað en að þetta hafi allt tekist vel og á starfsfólk Seltjarnar og aðrir sem komu að opnun heimilisins miklar þakkir skildar fyrir þeirra framlag. Í framtíðinni á Seltjörn án efa eftir að vera framúrskarandi hjúkrunarheimili en einnig skemmtilegur og eftirsóknarverður vinnustaður.
Þeir sem hafa áhuga á að skoða heimilið er velkomið að líta við (helst á dagvinnutíma) og er þá heppilegt að gefa sig fram við deildarstjóra á vakt.