Markvissara samstarf um þjónustu í Breiðholti

Borgarfulltrúar og starfsmenn tóku þátt í kynningu á hinu nýja þjónustuverkefni í Breiðholti.

Í haust fer af stað verkefni í Breiðholti sem miðar að því að bæta þjónustu við börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra í skóla- og frístundastarfi borgarinnar. Færa á þjónustuna í auknum mæli í skólaumhverfi barna og ungmenna, veita viðeigandi stuðning sem fyrst og þétta samstarf skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs í þjónustumiðstöð hverfisins. Tillaga um að hleypa þessu tveggja ára þróunarverkefni af stað var samþykkt á sameiginlegum fundi skóla- og frístundaráðs og velferðarráðs fyrir skömmu.

Stofnuð verður skóla- og frístundadeild sem starfar innan þjónustumiðstöðvar Breiðholts og mun starfsemi leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila og félagsmiðstöðva í hverfinu heyra undir hana. Deildin mun m.a. veita ráðgjöf um almenna starfs- og kennsluhætti, skipulag skóla- og frístundastarfs, auk þeirrar sérfræðiþjónustu sem hefur verið veitt í hverfinu á undanförnum árum. Ný deild heyrir undir skóla- og frístundasvið og munu stjórnendur hennar verða næstu yfirmenn leikskólastjóra, grunnskólastjóra og forstöðumanna félagsmiðstöðva og frístundaheimila í Breiðholti. Þá verður stofnað mannauðs- og rekstrarteymi sem sinnir mannauðsþjónustu, fjármálaráðgjöf og utanumhald með rekstri húsnæðis allra starfsstaða sviðanna í hverfinu.

Að samhæfa skóla- og velferðarþjónustu

Í greinargerð með tillögunni segir meðal annars að mikilvægt sé að Reykjavíkurborg veiti heiltæka og samhæfða skólaþjónustu og því er eðlilegt að endurskoða og samræma hana til að tryggja að ekki sé um tvíverknað að ræða eða að mikilvæg verkefni lendi milli skips og bryggju – á milli þjónustu og verkefna skrifstofu skóla- og frístundasviðs við leikskóla, grunnskóla og frístundastarf annars vegar og þeirri skólaþjónustu við leik- og grunnskóla sem þjónustumiðstöðvar veita í dag. Enn fremur segir að afar mikilvægt sé að foreldrar og starfsfólk upplifi Reykjavíkurborg sem einn þjónustuveitanda með samhæfðri skóla- og velferðarþjónustu. Um 30%  þeirra barna sem fá þjónustu sálfræðinga á þjónustu-miðstöðvum eru einnig að fá aðra þjónustu frá velferðarsviði.

60 þjónustuaðilar í Breiðholti

Í Breiðholti eru þrettán leikskólar, ellefu borgarreknir og tveir sjálfstætt reknir, fimm grunnskólar, ein frístundamiðstöð, fjórar félagsmiðstöðvar, þar af ein fyrir fötluð börn og unglinga og sjö frístundaheimili. Í hverfinu starfa 26 dagforeldrar. 

Þjónustumiðstöð Breiðholts veitir ráðgjöf og stuðning fyrir börn, fjölskyldur og fólk á öllum aldri með sérstaka áherslu á fatlað fólk, innflytjendur og fólk sem glímir við félagslegar hindranir. Miðstöðin rekur sex heimili fyrir fatlað fólk, dagþjónustu fyrir fatlað fólk, tvær unglingasmiðjur, tvær félagsmiðstöðvar fyrir eldri borgara, stuðningsheimili fyrir ungt fólk og fjölskyldumiðstöð með margvíslega þjónustu. 

You may also like...