Alþjóðlegt samstarf í FB
Fjölbrautaskólinn í Breiðholti tekur á hverju ári þátt í fjölmörgum erlendum samstarfsverkefnum. Eitt þeirra er Erasmus+ samstarfsverkefnið „WATT in STEaM“ sem þýða má sem „Kvenkyns kennarar í vísindum, tækni, verkfræði og stærðfræði“.
Með FB í þessu verkefni eru kennarar og stjórnendur frá Belgíu, Finnlandi, Þýskalandi, Hollandi, Ítalíu og Portúgal. Verkefnið miðar að því að fjölga stúlkum sem velja nám í vísindum, tækni, verkfræði og stærðfræði. Verkefnið er til tveggja ára og er vinnufundur haldinn í hverju landi fyrir sig þar sem löndin kynna það helsta sem þau hafa gert til að stuðla að aukinni þátttöku kvenna í þessum greinum og hvernig þjóðirnar geta lært af hvor annarri. Á síðasta fundi sem var haldinn í Portúgal tóku þrír starfsmenn FB þátt. Þetta eru þau Ágústa Unnur Gunnarsdóttir alþjóðafulltrúi og kynningarstjóri, Elvar Jónsson skólameistari og Þóra Óskarsdóttir forstöðukona Fablabs Reykjavíkur. Þann 10.-11. febrúar 2020 verður alþjóðlegur vinnufundur landanna sjö haldinn í Gerðubergi og í FB.