Verðum að auka faglegan metnað hjúkrunarfólks

– segir Jórunn Ósk Frímannsdóttir Jensen hjúkrunarfræðingur og forstöðumaður Droplaugarstaða –

Jórunn og Hörður að leggja af stað í göngu. Hún segir þau fara í gönguferð að jafnaði tvisvar í viku.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) tileinkar árið 2020 hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum. Ákvörðunin er meðal annars tekin til heiðurs minningu breska hjúkrunarfræðingsins Florence Nightingale en þann 12. maí 2020 eru 200 ár liðin frá fæðingu hennar. Markmiðið með þessari ákvörðun er að vekja athygli á störfum hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra og stuðla að því að störf þeirra séu metin að verðleikum. Jórunn Ósk Frímannsdóttir Jensen er hjúkrunarfræðingur og forstöðumaður Droplaugarstaða hjúkrunarheimilis við Snorrabraut. Hún býr einnig á völdum ef ekki földum stað í Vesturbænum í húsi sem hafði nafnið Gamli Ólafsdalur, var síðan kennt við Kaplaskjólsmýri en tilheyrir nú Einimel. Er innst inni í horninu á Einimelnum. Heilbrigðismálin eru Jórunni hugleikin. Hún hefur áhyggjur af því hvernig málin séu að þróast. Það er mikil vöntun á hjúkrunarfræðingum og það þarf að auka faglega vitund hjúkrunarfræðinga og metnað fyrir faginu. Hún segir að auka þurfi vigt hjúkrunarnámsins og finna leiðir til þess að fá hjúkrunarfræðinga að störfum í heilbrigðisgeiranum. “Ég veit mörg dæmi þess að útskrifaðir hjúkrunarfræðingar hafa sótt í önnur störf. Allt of margir hjúkrunarfræðingar kjósa heldur að starfa við annað en hjúkrun. Jafnvel þar sem er unnið á vöktum – unnið bæði daga, helgar og nætur en eitthvað er það sem dregur að. Eflaust betur borgað og trúlega eru ýmis önnur störf betur borguð en að starfa í heilbrigðisgeiranum en það er hvergi skemmtilegra að vinna, ég get vitnað um það. Launin og álagið kunna líka að draga fólk til annarra starfa.” segir Jórunn sem spjallar við Vesturbæjarblaðið að þessu sinni.

“Nei – ég er ekki gróin Vesturbæingur þótt ég búi í horninu á Einimelnum. Ég á mér nokkuð fjölbreytta búsetusögu. Ég er fædd í Grundarfirði en fluttist ung með móður minni og bróður suður. Móðir mín er frá Eskifirði og faðir minn frá Siglufirði. Mamma missti foreldra sína ung að árum og fluttist þá til Reykjavíkur hún hefur oft sagt frá fyrstu jólunum sínum eftir að foreldrar hennar dóu en þeim eyddi hún í vinnu á Grund og eru þau jól henni mjög eftirminnileg. Áður en foreldrar mínir fluttu til Grundarfjarðar leigðu þau bæði á Fálkagötu og Lynghaga á meðan faðir minn lærði skipasmíði í Slippnum. Skólaganga mín er álíka fjölbreytt og búsetusagan. Ég byrjaði í Kársnesskóla í Kópavogi, var um tíma í Hólabrekkuskóla í Breiðholti og síðan í Álftamýrarskóla. Eftir Grunnskólann fór ég í MS –  Menntaskólann við Sund.  Hvernig ég svo endaði í vesturbænum er í raun bara tilviljun. Ég og fyrrverandi eiginmaður minn skyldum árið 2010 og ég eignaðist þá íbúð við Selvogsgrunn.  Þegar ég kynntist núverandi eiginmanni mínum, Herði Ólafssyni lækni ákváðum við að leigja íbúðirnar okkar út og leigðum okkur saman hús út á Seltjarnarnesi. Við vorum varkár og vildum láta reyna á hvernig búskapur okkar gengi áður en við myndum festa okkur sameiginlega eign. Búskapurinn gekk vel og við ákváðum að selja báðar íbúðirnar okkar og finna okkur saman eign. Við vildum vera í göngufæri við miðbæinn en þó ekki alveg í bænum. Nesið var of langt í burtu að okkar mati.  Norðurströndin er löng og ég gat ekki hugsað mér að búa þar ytra til frambúðar. Fannst eins og ég væri komin svolítið út úr samfélaginu.

Gamli Ólafsdalur varð fyrir valinu

Þá hófst leit að nýju húsnæði sem endaði með því að Gamli Ólafsdalurinn við Einimelinn varð fyrir valinu.” Jórunn segir að húsið hafði verið byggt 1932 löngu áður en nærliggjandi svæði hafi verið byggt og því í allt öðrum stíl en umhverfið. “Við vorum búin að leita að húsi í dálítinn tíma og skoða margt. Það var strax eitthvað við þetta hús. Ég man eftir því þegar við komum út í bíl og ég var búin að vera að hugsa hvernig ég ætti eiginlega að orða það að þetta væri húsið og hvernig ég ætti að sannfæra manninn minn um alla þá möguleika sem voru í því. Þarna var komið hús sem hægt var að gera eitthvað með. En áhyggjur mínar voru algerlega óþarfar, hann hafði fengið sömu góðu tilfinninguna og ég og við litum einfaldlega hvort á annað úti í bíl og vissum að þetta var húsið okkar. Við fórum beint á fasteignasöluna og gerðum tilboð í húsið og fengum það. Við höfum ekki séð eftir því og liðið óskaplega vel hér. Við fórum strax í að endurskipuleggja og breyta og við höfum unnið að ýmsum lagfæringum. Þótt við höfum gert breytingar er gamli andinn í húsinu. Við fundum hann strax. Við opnuðum til dæmis á milli eldhúss og stofu og þurftum því að saga niður vegg. Settum líka hurð út úr borðstofunni og pall þar útaf. Þá kom í ljós að veggirnir voru ofboðslega þykkir og mikið mál að saga þá í sundur. Maður borar heldur ekki auðveldlega í þá. Ekki einu sinni til að hengja upp myndir. Svona vönduðu menn til verka á þessum tíma. Eigum við að segja í gamla daga. En húsið heldur vel utan um mann. Hjónin sem byggðu húsið bjuggu þar alla sína ævi. Talsvert af landi mun hafa fylgt Gamla Ólafsdal sem síðar var byggt á. Stór garður var og er í kringum húsið og mikið af gróðri. Sagan segir að hjónin hafi nýtt garðinn vel. Bæði til ræktunar og útiveru á góðviðrisdögum. Rifsberjarunnarnir eru ótrúlega miklir, ég nýt þess á haustin að sulta með tengdadætrunum og dóttur minni. Við gerum úr þessu skemmtilegan dag. Í haust tókum við þrjár fullar fötur af rifsberjum og sultuðum úr þeim. Það er ekki keypt sultukrukka á okkar heimilum. Við erum að verða búin að vera sjö ár í Gamla Ólafsdal. Nú síðustu tvö árin bara þrjú, ég, maðurinn minn og hundurinn okkar hann Gormur. Börnin eru öll orðin fullorðin og flogin úr hreiðrinu. Við eigum alveg óskaplega vel gerð og dugleg börn. Ég á tvo stráka fædda ´90 og ´91 og stelpu fædda ´97. Hörður á einn son fæddan ´00.  Tvö þau yngri eru erlendis í námi og strákarnir elstu báðir komnir með fjölskyldur, annar með einn lítinn fimm mánaða gaur og hinn á von á einum nú í maí. Já það breytist hlutverkið hjá manni. Við fengum sem sagt barnabarn á síðasta ári og von er á öðru á þessu ári, svo við erum aðeins að venjast nýju hlutverki. Mér finnst hálfskrítið þetta ömmuhlutverk.  Mér finnst ég svo ung og ég er enn að leika mér og það sennilega breytist ekkert. Nú er ég farin að leika mér aftur á gólfinu með barnabarninu og það er alveg dásamlegt.“ Jórunn segir að Vesturbærinn sé yndislegur bæjarhluti. Ekki ósvipaður Laugarnesinu að því leyti að þetta líkist þorpi í borg. “Maður kannast við mörg andlit. Fólk stoppar á förnum vegi og spjallar saman eins og algengt er í fámennari byggðum.”

Gamli Ólafsdalur. Húsið sem Jórunn og Hörður festu kaup á við Einimelinn. “Það var strax eitthvað við þetta hús,” segir Jórunn. 

Var formaður Þróttar

Jórunn var formaður íþróttafélagsins Þróttar um tíma. “Ég tók að mér stjórnina þegar krakkarnir voru á kafi í íþróttunum. Ég minnist 60 ára afmælis Þróttar sérstaklega en þá var ég formaður. Þá var reistur steinn við Grímstaðavörina við gömlu grásleppuskúrana við Ægisíðu. Knattspyrnufélagið Þróttur var stofnað 5. ágúst 1949 í herbragga við Ægissíðu af þeim Halldóri Sigurðssyni kaupmanni, sem var fyrirmyndin að Tomma í bókum Einars Kárasonar um Djöflaeyjuna og Eyjólfi Jónssyni lögreglumanni og sundkappa. Félagið starfaði í Vesturbæ Reykjavíkur til ársins 1969 þegar því var úthlutað svæði við Sæviðarsund í Laugarnesi. Þar starfaði félagið til 1998 þegar það fékk formlega aðstöðu í Laugardalnum þar sem það hefur aðsetur í dag. Ég var búsett á Teigunum á þeim tíma og því lá við að börnin færu í fótbolta hjá Þrótti. Svo fórum við “mömmurnar” í Þrótti að spila fótbolta. Það var nú bara til gamans gert og engin að ætla sér vinninga í íþróttagreininni. Við „mömmurnar“ kölluðum okkur Andspyrnuna og fórum norður til Akureyrar og kepptum í bumbuboltanum þar. Við mættum að sjálfsögðu í felulitunum í stíl við nafn félagsins og vorum eingöngu þarna til þess að hafa gaman af þessu.  Þar kepptum við einn leik á móti KR sem var hin mesta skemmtun ekki síst vegna þess að okkur tókst að vinna seinnihálfleikinn og vorum svo rosalega glaðar yfir því. Leikurinn fór 7-1 en við unnum samt seinnihálfleikinn með einu marki. Við skemmtum okkur konunglega yfir þessu. 

Hjúkrunarfræðingar sækja of mikið í önnur störf

Jórunn er hjúkrunarfræðingur að mennt og starfar við öldrunarþjónustu. Hún stýrir hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum einni af þeim stofnunum þar sem ákveðinn vandi er fyrir höndum. Hjúkrunarheimilin ná ekki að taka við því fólki sem er þurfandi fyrir þessa þjónustu. Það skapar aftur vanda inn á spítölum þegar ekki er hægt að útskrifa fólk sem ætti mun fremur heima á hjúkrunarheimilum. “Hjúkrunarfræðingar sækja of mikið í önnur störf. Eflaust er eitt og annað sem veldur því. Oft getur verið mikið álag á þeim og launakjörin ekki eins og þeir myndu óska. Umræðan á að mínu mati líka sinn þátt í þessum. Við verðum að ná að auka faglegan metnað fólks sem leggur nám í hjúkrun fyrir sig. Við þurfum að höfða til unga fólksins okkar og námið þarf að skila einstaklingum sem hafa áhuga á að vinna við fagið sitt. Hjúkrunarfræði er fjögurra ára háskólanám og hjúkrunarfræðingar mjög hæfir starfskraftar svo eðlilega er eftirsótt að fá þá til starfa. Það er mikil þörf fyrir hjúkrunarfræðinga í heilbrigðisgeiranum og heilbrigðisgeirinn þarf að höfða til þeirra. Við verðum að vera samkeppnishæf í launum, við þurfum að styðja betur við hjúkrunarfræðinga og hvetja til símenntunar og starfsþróunar.”

Var spurður hvort hann væri að skeina

Jórunn tekur dæmi af syni sínum sem var að vinna með námi í heimaþjónustu á Sléttuveginum við að aðstoða líkamlega fatlað fólk.  “Við vorum stödd í matarboði þegar frændi hans spurði hann hvar hann væri að vinna með skólanum og hann útskýrir það fyrir honum. Þá segir frændi hans hátt og snjallt “Hvað ertu þá að skeina fólkið” eins og það væri eitthvað aðalatriði. Mér finnst þetta lýsa vel hvað okkur hefur ekki tekist að uppræta fáfræði og koma því út til almennings hvað það er frábært að vinna við hjúkrun og í umönnunarstörfum.  Síðastliðinn vetur komu nemar frá Listaháskólanum og unnu verkefni á Droplaugarstöðum. Þetta var um 50 manna hópur, allir annars árs nemar skólans. Verkefnin sem þau unnu voru mismunandi en einn hópurinn varð svo hrifinn af því hvað starfsfólkið var ánægt í vinnunni og hvað starfsandinn var góður. Þau sögðu hreinlega að það hefði komið þeim á óvart, en þau urðu svo hrifin af þessu að þau tileinkuðu verkefnið sitt því að kynna störf í umönnun fyrir ungu fólki hvað það er gefandi að vinna á hjúkrunarheimili og gerðu app og kynningarefni í samræmi við það. Það var mjög gaman að sjá hvað krakkarnir nutu þess að vinna verkefnin sín á Droplaugarstöðum og hvað þau höfðu gaman af að umgangast íbúana. Við þurfum að gera meira af því að tengja saman unga og aldna og ég held að allir hafi gott af því að kynnast því að vinna við umönnun af einhverju tagi og verði betri einstaklingar fyrir vikið. Við sem erum heilbrigð höldum oft að það sé sjálfsagður hlutur, en það er það ekki og öll getum við þurft á hjálp að halda. Jafnvel við að skeina okkur.” 

Hlakka til að fara til vinnu á morgnana

Jórunn segir að taka verði þetta fag upp eins og hún kemst að orði. “Ég var spurð að því um daginn hvernig mér líki í vinnunni, og mér fannst eins og sá sem spurði ætti ekki von á því að ég væri ánægð. Ég svaraði því til eins og satt er að ég hlakka til að fara í vinnuna á hverjum morgni. Droplaugarstaðir eru frábær vinnustaður og metnaður starfsfólks mikill. Við erum líka að vinna að mörgum spennandi verkefnum Við erum búin að taka upp nýtt gæðakerfi. Við erum sjálf búin að vera að „smíða“ það í eitt og hálft ár og erum að fara með heimilið í ISO vottun. Það er gefandi að vinna í þessum geira og við þurfum að fara að tala þetta upp. Það gengur ekki að þeim sem sinna hjúkrun og aðhlynningu sé vorkennt vegna þess að þeir séu að vinna annars flokks störf. Þetta er svo fjarri lagi. Þessi störf eru bæði krefjandi og einnig gefandi. Fólk fær aðra sýn á lífið. Það eru ekki allir heilbrigðir og þurfa á margvíslegri aðstoð að halda. Mér finnst það frábær ákvörðun hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni að tileinka árið 2020 hjúkrunarfræðingum og fæðingarhjálp.

You may also like...