Fimm ára bið eftir uppbyggingu ekki á enda

Tölvumynd sem kynnt var af væntanlegum byggingum í Vesturbugt. Spurning er um hvort þær eiga eftir að rísa upp úr bugtinni eða einhverjar aðrar.  

Ekkert bólar enn á uppbygg­ingu tæplega tvö hundruð íbúða í Vesturbugt á slippsvæðinu í Reykja­vík. Tilkynnt var um framkvæmdir þar með athöfn fyrir fimm árum. Í maí 2017 skrifuðu borgarstjóri, framkvæmdastjóri VSÓ og framkvæmda­stjóri Vestur­bugtar undir samkomulag um byggingu 176 íbúða í Vesturbugt og áttu fram­kvæmdir að hefjast haustið 2018. Ekkert hefur hins vegar orðið af framkvæmdum. Vinna við deiliskipulag virðist hafa tafið verkið og mismunandi sýn borgaryfirvalda og verktaka á framkvæmdina. Á liðnu vori hótaði borgarstjóri að lóðin yrði dregin til baka. Hann gaf Kaldalóni þá frest út maí til að skila áætlunum um upphaf framkvæmda í Vesturbugt.

Nú þremur mánuðum seinna virðist litið hafa gerst þótt samtöl á milli borgar og verktaka kunni að hafa verið í gangi. Af hálfu verktaka mun þess beðið að deili­skipulag verði afhent af hendi borgar­innar og að leyst verði úr ágreiningsatriðum er varða túlkun á einstökum ákvæðum samnings á milli Vesturbugtar og Reykjavíkurborgar. Í riti Reykjavíkurborgar Uppbygging íbúða í borginni frá því í nóvember 2019 kemur fram að deiliskipulag Vesturbugtar hafi verið samþykkt fyrir 114 almennar íbúðir og 74 íbúðir fyrir húsnæðis­félög. Nýr lóðarhafi hafi komið í stað Vesturbugtar sem væri Kaldalón fasteingaþróunarfélag. Þarna virðist hnífurinn standa í kúnni svo gripið sé til þekkts máltækis. Nýr lóðarhafi virðist hafa aðrar hugmyndir en fyrirrennari hans um uppbygg­inguna. Á meðan ekki verður leyst úr ágreiningi Reykjavíkur­borgar og Kaldalóns verður ekkert byggt í Vesturbugt.

You may also like...