Endurskoðun deiliskipulags Elliðaárdals

– byggt á þremur flokkum. Flokkum lífríkis, útivistar og menningar –

Á myndinni má sjá hvernig Elliðaárnar liðast eftir dalnum á milli borgarhverfanna Árbæjar og Breiðholts.

Kynnt hafa verið drög að tillögu Landslags ehf að nýju deiliskipulagi fyrir Elliðaárdal. Tillagan felur í sér meiri vernd og betra stígakerfi. Nýtt deiliskipulag byggir á grunni eldra deiliskipulags, sem var samþykkt árið 1994. Töluvert samráð við helstu hagsmunaaðila á svæðinu hefur þegar átt sér stað um tillögugerðina.

Elliðaárdalurinn er mikilvægt útivistar- og náttúrusvæði í Reykjavík með ríka sögu og sterka ímynd meðal borgarbúa. Á undanförnum árum hefur vægi og gildi dalsins innan borgarinnar aukist og fleiri hópar og einstaklingar nýta Elliðaárdalinn til útivistar, afþreyingar og sem samgönguleið. Í skipulagsdrögunum hafa verið skilgreindar forsendur, viðfangsefni og markmið tillögunnar. Tillagan var kynnt í skipulags- og samgönguráði Reykjavíkurborgar 15. janúar.

Tillögur að verndarsvæðum

Viðfangsefni og markmið deiliskipulagsvinnunnar er að skilgreina aðalleiðir notendahópa um svæðið. Bæta á tengingar göngu- og hjólreiða. Meta stígakerfi og mögulega þörf á nýjum stígum og brúm yfir árnar. Einnig á að meta og endurskoða afmörkun hverfisverndarsvæðis og skilgreina í skipulagi. Vinna á ítarlega náttúrufarsúttekt, þar með talið að kortleggja jarðminjar, lykilvistgerðir, gróðurlendi og búsvæði dýra, einkum fugla. Meta á verndargildi náttúruminja og leggja fram tillögur að verndarsvæðum. Vinna á heildstæða fornleifaskýrslu og húsakönnun fyrir dalinn samhliða skipulagsvinnunni. Skilgreina þarf rjóður og áningarstaði og vinna á með Orkuveitunni að ákvörðun um hreinsun ofanvatns úr götum áður en því er hleypt í árnar. Þá á að taka saman upplýsingar um veiðistaði og aðgengi að þeim.

Vinsælt útivistarsvæði

Í deiliskipulagstillögunni kemur fram að Elliðaárdalurinn hafi fjölmarga kosti og sé vinsælt útivistarsvæði og áningarstaður og því mikilvægt fuglasvæði í borginni. Hólminn ofan stíflu sé náttúrulega friðaður fyrir fugla. Elsti skógurinn í dalnum er frá því um 1950. Í dalnum er að finna fossa, skessukatla og tjarnir og náttúruminjar eins og hraunreipi, grettistök og grágrýtisurðir. Töluvert er um sögulegar minjar, friðaðar fornminjar, herminjar, ofl. Leiðarljósin í deiliskipulaginu skiptast af þessum sökum í þrjá flokka. Flokk náttúru og lífríkis. Flokk útivistar og upplifunar og flokk menningar og arfleifðar. Gert er ráð fyrir samfelldum hjólastíg upp allan dalinn að sunnan- og vestanverðu og að gerðar verði nýjar göngu- og hjólabrýr á völdum stöðum til að greiða leiðir þvert yfir dalinn.

Hvað er borgargarður

Hugtakið borgargarður hefur verið í umræðunni í tengslum við deiliskipulag á þróunarsvæði við Stekkjarbakka. Svæðið er mikið raskað og fellur utan deiliskipulags fyrir dalinn sjálfan. Borgargarðar eru kjarninn í vef útivistarsvæða og göngu- og hjólreiðastíga sem tengja saman útmörkina við strandsvæði borgarinnar. Gert er ráð fyrir því að styrkja sérstöðu og sérkenni svæðanna þannig að hvert svæði bjóði upp á ólíka möguleika til útivistar og afþreyingar. Innan borgargarða er gert ráð fyrir útivistariðkun og fjölbreyttri mannvirkjagerð af ýmsum toga sem tengist nýtingu og þjónustu svæðanna til útiveru, afþreyingar og leikja og allrar almennrar frístundaiðkunar.   

Elliðárdalurinn skýrt afmarkaður

Borgargarðurinn Elliðaárdalur er nokkuð skýrt afmarkaður í gildandi aðalskipulagi og þeim mörkum hefur ekki verið breytt. Ef rýnt er nánar í mörkin, þá sést að afmörkunin er dregin talsvert frá núverandi legu þróunarsvæðis við Stekkjarbakka. Borgargarðurinn innlimar svæði Garðyrkjufélagsins en nær ekki yfri önnur fyrirhuguð mannvirki á svæðinu (ALDIN Biodome, búsetuúrræði og óráðstafaða lóð) eins og deiliskipulagstillaga Stekkjarbakka gerir ráð fyrir.

You may also like...