Stundum sagt að borgarstjórn sé eins og málstofa

– segir Jórunn Pála Jónasdóttir fyrsti varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins –

Jórunn Pála Jónasdóttir lögfræðingur og varaborgarfulltrúi.

Jórunn Pála Jónasdóttir fyrsti varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins er uppalinn Breiðhyltingur. Hún gekk í Ölduselsskóla og kveðst minnast þeirra ára með hlýju. Það var frábært að vera í Ölduselinu. Góður skóli þar sem haldið var vel utan um krakkana. Daníel Gunnarsson var skólastjóri þegar ég var í skólanum. Ég kynntist líka fleiru ágætu fólki. Til dæmis séra Valgeir Ástráðssyni sem var sóknarprestur í Breiðholtssókn. Síðan hefur leið Jórunnar Pálu legið víða. Bæði til framhaldsnáms og starfa. Tók strætó úr Breiðholtinu niður í bæ öll framhaldsskólaárin og býr enn í efri byggðum en nú í Bryggjuhverfinu. Jórunn Pála spjallar við Breiðholtsblaðið að þessu sinni.

„Eftir Ölduselsskóla fór ég í Menntaskólann í Reykjavík. Það var mælt með skólanum við mig. Krakkarnir úr hverfinu dreifðust nokkuð þegar kom að framhaldsskólanum. Við vorum fá sem fórum í MR. Sum fóru í Versló og önnur í Menntaskólann við Sund. Svo voru einhverjir sem héldu sig við Breiðholtið og fóru í FB.“ Jórunn Pála segir það hafa verið smá skell að byrja í MR. „Þetta var allt annað. Maður þurfti að fara að læra heima en í Ölduselsskóla hafði ég ekki þurft að hafa mikið fyrir náminu. Í MR var haldið í ýmsar gamlar hefðir sem mér fannst ágætt. Ég hef alltaf talið að ekki eigi að henda þeim frá sér þótt skólahald og skólalíf þróist frá einum tíma til annars. Ég hef alltaf verið félagslynd og fór fljótt inn í félagsstarfið í MR. Ég fór í Framtíðina og sat þar í stjórn með fjórum strákum. Þótt ekki séu mörg ár síðan þætti þetta trúlega ekki eiga við í dag. Jafnréttishugsjónin er búin að ná lengra.“

Vantaði fjöllin í Danmörku

Stefndi Jórunn Pála alltaf á lögfræðina. „Ég horfði fljótt til hennar. Ég heillaðist af sjálfstæðisbaráttunni og þekking á sögu er góð undirstaða fyrir lögfræði. Ég tók nokkra útúrdúra eins og gengur. Fór til Kaupmannahafnar sem aupair og var að vinna um tíma hjá Subway þar í borg. Síðan lá leiðin í bakpokaferðalag til Asíu með nokkrum félögum mínum úr MR. Það var ágætt að vera í Danmörku en mér fannst vanta nálægðina við fjöllin. Einhver sagði mér að til þess að komast í tæri við náttúru þyrfti að fara yfir til Noreas þar sem ekki eins er flatlent og í Danmörku. Þegar ég fékk Erasmus styrk til að stunda skiptinám meðan ég var í lögfræðinni varð ég að finna mér stað þar sem ég yrði í nálægð við fjöllin en ekki á flata. Því varð úr að ég valdi Vínarborg í Austurríki sem er rétt við þröskuld Alpanna. Ég kunni ágætlega við mig þar.“

Lög og reglur þurfa að vera aðgengileg og skýr 

Jórunn Pála fór að starfa með Vöku á námsárunum í Háskóla Íslands. Var hún alltaf pólitísk. „Ég ólst upp á pólitísku heimili. Pabbi hefur mikinn áhuga á stjórnmálum og fylgdist mjög vel með öllu em var að gerast. Hann fór þó aldrei út í pólitík sjálfur eða neinn annar úr fjölskyldu minni. Ég er sú eina sem lagt hef hana fyrir mig. Ég hef gaman af þessu. Nú er ég varamaður í borgarstjórn Reykjavíkur og ég veit ekki hvað ég mun enda. Kannski á ég eftir að fara á þing. Tíminn verður bara að leiða það í ljós.“ Jórunn snýr sér aftur að skólastarfi og möguleikum til náms. „Ég tel að efla verði fleiri möguleika til náms. Hér er fullt af fólki með áhuga á margvíslegum viðfangsefnum. Iðn- og tækninámi. Þessar námsgreinar hafa ekki notið nægilegrar athygli. Ekki verið talaðar upp eins og sagt er. Frekar niður ef eitthvað er en áherslan hefur verið á greinar sem þarfnast fábrotinnar kennslutækni. Eins og lögfræðina sem þarf bara kennara og myndvarpa. Ég veit um lögfræðinga sem hafa farið í kvöldskóla og verið að læra að smíða svo ég nefni dæmi. Hugur fólks stefnir víðar en skólarnir hafa verið að sinna. Alla vega ekki nægilega vel. Þetta á bæði við um framhaldsskóla- og háskóla-menntun. Lögfræðin hefur miklu samfélagslegu hlutverki að gegna en við megum gæta okkar að fara ekki of langt. Við megum ekki enda eins og í Bandaríkjunum þar sem flest verður að skaðabótamálum. Lög og reglur þurfa líka að vera aðgengileg og skýr og ekki má drukkna í lagatæknilegum atriðum.“

Hef mikinn áhuga á mannréttindum

Það er von að þú spyrjir af hverju ég fór að vinna hjá Rétti. Hjá Ragnari Aðalsteinssyni og félögum. Ég hef mikin áhuga á mannréttindum og Ragnar er einn fremsti mannréttindalögfræðingur okkar og hefur verið með mörg mál af því tagi í gegnum tíðina. Hann hefur einnig unnið mikið að málefnum tengdum eignarétti og sinnt réttindabaráttu fólks. Ég hef líka kynnst frábæru fólki þarna. Fólki á borð við Sigríði Rut Júlíusdóttur, Katrínu Oddsdóttur og Claudie Ashonie Wilson ásamt fleiru öflugu og góðu fólki.“

Stundum sagt að borgarstjórn sé eins og málstofa

En starfið í borgarstjórn. „Starfið þar getur verið svolítið sérstakt. Stundum er sagt að borgarstjórn sé eins og málstofa þar sem tekist er á um mál og þau stundum ýkt upp. Síðan er unnið úr málum annars staðar. Í borgarráði, nefndum og svo framvegis. Sú venja virðist hafa skapast fyrir löngu að borgar-stjórnarfundir séu einskonar eftirlíking af fundarformi Alþingis. Ef við horfum til Breiðholtsins þá er ýmislegt fram undan. Áform eru um að efna til íbúa- og þjónustubyggðar í Norður Mjóddinni. Eftir að Hagar og Olís urðu að einu félagi er ákveðið landsvæði þar komið á eina hendi. Þegar eru komnar fram hugmyndir um hvernig henni geti verið háttað. Einnig er ákveðið svæði austan við Stekkjarbakka til umfjöllunar. Garðheimar hafa fengið vilyrði fyrir aðstöðu þar ef kemur til flutnings þeirra úr Norður-mjóddinni. Hugmyndir hafa komið fram um stóra gróðurhvelfingu. Aldin Bio dome. Það mál er umdeilt og nú hefur verið samþykkt í borgarráði að opna fyrir íbúakosningu í Reykjavík um skipulag Elliðaárdalsins. Það eru ákveðin sóknarfæri á þessum stað en það liggur ekki nægjanleg vitneskja fyrir um hvað býr að baki Aldin bio dome. Ég var stödd í Seattle í Bandaríkjunum á liðnu hausti. Þar sáum við gróðurhvelfingu sem er í eigu Amazon sem er mjög ofarlega á lista Fortune 500. En þetta er áhætturekstur sem kallar eftir mikilli umferð og bílastæðum. Þarna eru engar lagnir og allur lagnakostnaður myndi lenda á borginni. Við í borgarstjórnarhópi Sjálfstæðisflokksins viljum horfa til Akureyrar. Þar er Kjarnaskógur. Vel heppnað svæði þar sem saman fer útivist og náttúruvernd. Það er ekkert sambærilegt í Elliðaárdalnum. Ef til vill er nærtækara að byrja þar en að efna til mikils áhætturekstrar. Dalurinn er náttúruperla og mörgum borgarbúum kær einkum sem útivistarsvæði. Með vaxandi áherslu á útiveru og einnig náttúruvernd hafa margir skoðanir á framtíð hans.“ Jórunn Pála segist ætlað að halda áfram á þeirri braut sem hún er á. „Ég ætla að vinna áfram hjá Rétti í hálfu starfi og sinna borgarmálunum. Ég er svolítið tvískipt og fer á milli lögfræðinnar og borgarmálanna.“ 

You may also like...