Unuhús við Garðastræti
Gamla húsið í Vesturbænum er að þessu sinni Unuhús eða Garðastræti. Húsið var byggt árið 1896 af Guðmundi Jónssyni apótekara. Það var um langa tíð eitt þekktasta hús Reykjavíkur. Saga þess hófst í upphafi 20. aldar þegar ungt listafólk voru heimagangar í húsinu. Má þar nefna Stefán frá Hvítadal, Stein Steinarr, Nínu Tryggvadóttur myndlistarmann, Guðmund G. Hagalín, Þorberg Þórðarson og síðast en ekki síst Halldór Kiljan Laxness sem öðrum fremur hefur gert þeim tíma skil þegar menningarlíf blómstraði í Unuhúsi. Einkum í bókinni Skáldatímar en Erlendur í Unuhúsi er einnig talinn vera fyrirmynd að organistanum í Atómstöðinni svo nokkurs sé getið.
Húsið er nefnt eftir Unu Gísladóttur eiginkonu Guðmundar. Una annaðist matsölu og hafði kostgangara eins og það var kallað og leigði einnig út aðstöðu til gistingar. Fæði og húsnæði þótti í lægri kanti hjá henni og því drógust þangað ýmsir sem höfðu takmörkuð auraráð. Ekki síst skáld og listamenn en einnig fólk sem átti sér hvergi höfði að halla. Una lést árið 1924 og þá tók sonur þeirra hjóna, Erlendur við og hélt uppi merki móður sinnar sem gestgjafi og velgjörðarmaður þeirra sem vöndu komur sínar í Unuhús. Erlendur var umtalaður í Reykjavík. Í minningarorðum um hann má finna eftirfarandi lýsingu: “Mjer er það hulin ráðgáta hvernig Erlendur öðlaðist alla þá þekkingu, er hann hafði. Það duldist engum, sem við hann talaði, að þar var hámenntaður maður. En þó var hugljúfust prúðmennska hans og ráðhollusta. Þar átti hann engan sinn líka.”
Gestur kaupir húsið
Gestur Ólafsson skipulagsfræðingur og arkitekt festi kaup á Unuhúsi ásamt þáverandi eiginkonu sinni Ernu Ragnarsdóttur um miðjan áttunda áratug liðinnar aldar. Þau keyptu húsið af föður Ernu Ragnari Jónssyni sem kenndur var við smjörlíkisgerðina Smára og var þekktur útgefandi og listunnandi í Reykjavík um langt skeið. Ragnar hafði keypt húsið af Erlendi Guðmundssyni árið 1941 á 45 þúsund krónur sem þótti nokkuð hátt kaupverð ásamt því skilyrði að hann mætti búa þar til dauðadags. Talið er að þessi gjörningur hafi orðið vegna þess að Erlendur hafi viljað forða vini sínum Halldóri Kiljan Laxness frá gjaldþroti og Ragnar hlaupið undir bagga með þessum hætti. Húsið var illa farið er Gestur og Erna festu kaup á því en Gestur taldi það menningarsögulegt slys að rífa það. Þau ákváðu að endurbyggja húsið í upprunalegri mynd. Garðastæri hafi þá verið hækkað og því þurfti að hækka húsið til samræmis og flytja það neðar í lóðina. Einnig þurfti að einangra húsið sem mun hafa verið lítið eða ekkert einangrað. Einnig varð að byggja við það vegna þess að húsaskipan og stærð herbergja var með þeim hætti að hún hentaði ekki lífsstíl fólks á síðasta hluta 20. aldar. Var viðbyggingin þannig úr garði gjörð að taka mætti hana niður síðar. Árið 1987 kviknaði í húsinu og var þá aftur hafist handa um endurbygg-ingu þess því sem næst í hinum upprunalega stíl. Húsið er enn í eigu Gests Ólafssonar.
Aumingi sem yrði að hjálpa og lækna
Sú saga er til af Unu í Unuhúsi að um haust hafi frændkona hennar komið utan af landi til að læra saumaskap í Reykjavík. Hún hafi fengið herbergi og fæði hjá Unu gegn því að ræsta fyrir hana neðri hæð hússins sem hún mun hafa gert af myndarskap. Skömmu síðar á önnur stúlka að hafa flotið inn til Unu. Einnig ættuð utan af landi. Sú var húsnæðislaus og mun hafa haft að litlu að hverfa. Una tók hana inn á heimilið en hafði ekkert pláss annað en að setja hana í rúm hjá frændstúlkunni. Þegar henni spurðust að nýja mærin væri nokkuð fyrir karlmenn og tæki jafnvel fé fyrir greiðann frábað hún sér að hafa hana í sínu rúmi. Þá stóð Una frammi fyrir vanda sem hún leysi. Hún lét frænku sína fara en hélt götustelpunni. Hún sagði frænkuna myndarstúlku með gott mannorð og hún myndi auðveldlega spjara sig en hin væri aumingi sem sem yrði að hjálpa og lækna.
Unuhús var friðað af menntamálaráðherra 28. nóvember 2008 og nær friðunin til ytra byrðis hússins að undanskilinni viðbyggingu við austurhlið, sem byggð var árið 1979.