Ríkið og Minjastofnun dæmd bótaskyld
Íslenska ríkið og Minjastofnun hafa verið dæmd bótaskyld vegna húss við Holtsgötu sem ekki mátti rífa. Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem hinir opinberu aðilar voru dæmd bótaskyld.
Deilan um húsið við Holtsgötu hófst fyrir fimmtán árum þegar borgin samþykkti deiliskipulag á svokölluðum Holtsgötureit. Deiliskipulagið kvað á um að byggja mætti fjölbýlishús á lóðinni við hliðina á umræddu húsi auk þess sem mætti rífa það og byggja annað og stærra. Húsið var auglýst til sölu fyrir fimm árum með þeim formerkjum sem deiliskipulagið kveður á um. Í millitíðinni höfðu lög tekið gildi sem aldursfriðuðu öll hús 100 ára og eldri. Húsið við Holtsgötu var reist árið 1904. Minjastofnun greip þá inn í sölu hússins og sagðist hvorki ætla að veita heimild fyrir því að húsið yrði rifið né afnema friðun þess. Eigandinn kærði þessar ákvarðanir til forsætisráðuneytisins sem staðfesti þær.
Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í mars á síðasta ári að íslenska ríkið væri bótaskylt, ekki vegna lagasetningarinnar heldur hvernig stjórnvöld fóru eftir lögum um minjavernd. Fjarlægja þyrfti húsið til að nýta mætti byggingarmagnið til fulls og það væri ekki nóg að byggja við húsið, eins og ríkið hélt fram. Eigandi hússins rak málið sjálfur fyrir bæði héraðsdómi og Landsrétti. Dómurinn horfði til þeirrar vinnu sem hann hafði lagt í málareksturinn og gerði ríkinu að greiða honum 2,5 milljónir í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.