Lestrinum verður streymt á netinu

– svo fólk getur hlustað heima hjá sér –

– Passíusálmar í Seltjarnarneskirkju á Föstudaginn langa 10. apríl nk. –

Hallgrímur Pétursson.

Seltirningum sem áhuga hafa gefst kostur á að taka þátt í lestri Passíusálmanna í Seltjarnarneskirkju á Föstudaginn langa hinn 10. apríl nk. Það er orðin föst venja að lesa þennan snilldarkveðskap séra Hallgríms Péturssonar í kirkjunni á þessum degi og hefur lesturinn hlotið góðar undirtektir bæjarbúa og aðkomufólks. Vegna ríkjandi aðstæðna í þjóðfélaginu sökum COVID-19 veirunnar er stefnt að því að streyma flutningi sálmanna á alnetinu í þetta sinn. Í sálmunum rekur skáldið píslarsögu Krists jafnframt því sem þeir hafa að geyma spaklegar útleggingar og hollráð sem þjóðin hefur í margar kynslóðir talið sér til góðs að hugleiða.

Í fyrsta skiptið hér í kirkjunni las Seltirningurinn Ragnheiður Steindórsdóttir leikkona sálmana 50 — og var það í fyrsta sinn sem vitað er til að kona hafi flutt þá alla ein opinberlega. Var þetta heilmikið afrek og vakti athygli. Nær fimm klukkutíma tekur að lesa sálmana upp. Síðan hafa bæjarbúar á öllum aldri skipst á um lesturinn og gjarna flutt tvo sálma, sem eru eins og kunnugt er mörg erindi hver. Sumir upplesara hafa verið þeir sömu frá ári til árs en lagt er kapp á að endurnýja hópinn að hluta í hvert sinn.

Undirbúningur að lestrinum í ár er að hefjast og eru þeir sem vilja taka þátt að þessu sinni beðnir um að hafa samband við Þórleif Jónsson sóknarnefndarmann í síma 611 6558. Þeir sem koma nýir að lestrinum fá góða leiðsögn og hefur þátttakan undantekningalaust verið lesurum til ánægju. Lesturinn hefst kl. 13 og lýkur um kl. 18. Milli lestra er leikin tónlist við hæfi.

Margir hafa jafnan komið í kirkjuna til að njóta upplesturs á þessum perlum íslensks sálmakveðskapar og staldrað við lengur eða skemur eftir aðstæðum hvers og eins. Nú hefur samkomubannið vegna veirusýkinnar þau ekki alslæmu áhrif að fólk mun geta hlýtt á flutninginn heima hjá sér í gegnum alnetið, ef ekkert hamlar áformum um slíka útsendingu sem unnið er að.

Passíusálmarnir voru fyrst gefnir út á Hólum árið 1666. Ekkert íslenskt rit hefur komið út jafnoft. Eru útgáfurnar orðnar á annað hundrað, auk þýðinga á ýmis tungumál. Vinsælt hefur verið hjá sumum áheyrenda að hafa bókina við hendina og fylgjast með undir lestrinum. Handhæg útgáfa fæst í bókabúðum, en einnig afar vönduð Passíusálmaútgáfa með ítarlegum skýringum Marðar Árnasonar íslenskufræðings, sem út kom fyrir nokkrum árum og er hin forvitnilegasta og mjög fróðleg.

Vert er að vekja athygli á því að skv. langri hefð eru Passíusálmarnir nú í aðdraganda Páska lesnir upp í Ríkisútvarpinu (RÚV rás 1) að loknum tíu-fréttum á kvöldin alla virka daga, einn sálmur í senn, að þessu sinni upptaka af lestri hins kunna og virta fræðimanns dr. Sigurðar Nordal. Á undan og eftir lestri eru leikin ljúf stef eftir son hans, Jón Nordal, eitt fremsta tónskáld okkar. Organisti er Ragnar Björnsson.

You may also like...