Aukum jöfnuð barnanna í borginni

– segir Skúli Helgason formaður skóla- og frístundaráðs –

Skúli Helgason formaður skóla- og frístundaráðs.

“Það er mikið að gerast í skóla- og frístundamálum í Reykjavík um þessar mundir.  Verið er að vinna að tillögum um fjölbreyttar aðgerðir til að jafna tækifæri barnanna í borginni í anda nýrrar menntastefnu borgarinnar þar sem yfirskriftin og leiðarljósið er metnaðarfullt: Látum draumana rætast. Margar þessara tillagna tengjast Breiðholtinu þar sem nemendasamsetning og félagslegar og efnahagslegar aðstæður barna og ungmenni eru að mörgu leyti þyngri og erfiðari en í öðrum borgarhlutum,” segir Skúli Helgason formaður skóla- og frístundaráðs.

Talsverð umræða skapaðist á dögunum um nýja tillögu meirihluta skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur um að stytta opnunartíma leikskóla. Almennur opnunartími yrði samkvæmt tillögunni frá klukkan 07:30 til 16:30 í stað 17:00. Einnig var lagt til að börn dvelji að hámarki níu klukkustundir á dag í leikskólanum. Í tilkynningu frá borginni segir að fyrirhuguð breyting byggi á tillögu stýrihóps um umbætur og skipulag leikskólastarfs en í honum m.a. sæti kjörnir fulltrúar og fulltrúar leikskólastjóra og leikskólakennara.  

Dvalartími barna verið að lengjast

Skúli segir að í gögnum stýrihópsins komi fram að á undanförnum árum hafi dvalartími barna í leikskóla stöðugt verið að lengjast. Þetta hafi gerst á sama tíma og faglærðu starfsfólki hafi farið fækkandi. Fækkun fagfólks megi að mestu rekja til mun minni aðsóknar í leikskólakennaranám undanfarinn áratug. Skúli bendir á að stýrihópurinn telji að stytting opnunartíma muni draga úr álagi á börn og starfsfólk og styrkja faglegt starf þar sem skipulag daglegs starf verði markvissara og auðveldara að manna leikskólana. Á móti hefur verið bent á stytting skóladags leikskólans komi helst niður á fólki sem eigi erfitt vinnu sinnar vegna að ná í börn fyrir klukkan 16.30 þar sem margir vinni lengri vinnudag.

Færri koma inn en hverfa af vinnumarkaði

“Tilefni þess að við fórum að skoða þetta mál er einkum viðvarandi kennaraskortur á leikskólastiginu. Tillagan tengist í raun aðgerðum okkar til að bæta starfsumhverfi fólks sem vinnur í leikskólunum en við höfum samþykkt mikinn fjölda aðgerða, rúmlega þrjátíu talsins og varið til þeirra um 2,5 milljörðum króna undanfarin tvö til þrjú ár í að bæta aðbúnað starfsfólks og barna, t.d. með fjölgun starfsfólks á eldri deildum, fjölgun undirbúningstíma, stækkun leikrýmis, auknu fjármagni til faglegs starfs, fjármagni til heilsueflingar og liðsheildarvinnu, opnun ungbarnadeilda í öllum hverfum borgarinnar o.s.frv. En eftir stendur kennaraskorturinn sem er landlægt vandamál sem rekja má allt aftur til lagabreytingar 2008. Þá var kennaranámið lengt úr þremur árum í fimm og í kjölfarið dróst aðsókn að náminu verulega saman. Um helmingi færra fólk stundar nú nám til kennsluréttinda en fyrir lengingu námsins. Þetta hefur leitt til nýliðunarvanda sem lýsir sér í því að mun fleiri leikskólakennarar láta af störfum vegna aldurs heldur en útskrifast úr kennaradeildum háskólanna. Við þetta má svo bæta að nú þegar eitt leyfisbréf til handa kennurum á öllum skólastigum er orðið að veruleika telja ýmsir að leikskólakennarar muni í auknum mæli sækja inn í grunnskólann þar sem vinnuumhverfið þykir að sumu leyti sveigjanlegra. Við erum mjög stolt af okkar leikskólum og því frábæra starfi sem þar fer fram og er að mörgu leyti á heims-mæliskvarða. En við verðum að vera raunsæ með það að skortur á fagfólki leiðir til meira álags á alla starfsemina og við teljum það vera okkar skyldu að bregðast við því til að standa vörð um velferð barnanna og gæði starfsins. Þar er margt í skoðun þar með talið að gera breytingar á skipulagi leikskóladagsins þar sem fagstarfið inni á deildum leikskólanna yrði ráðandi á fyrri hluta dagsins en hinn frjálsi leikur yrði meira áberandi síðari hluta dags. Það er áhugavert og hefði þann kost að við gætum skipulagt starfið betur, nýtt starfsfólkið með markvissari hætti og vonandi dregið úr álagi á starfsfólkið okkar og börnin í leiðinni.”

Innan við helmingur nýtir viðbótartímann

Skúli segir að við athugun hafi orðið ljóst að rúmlega helmingur þeirra foreldra sem kaupir viðbótartíma í leikskólum borgarinnar nýti hann ekki. “Önnur stór sveitarfélög hafa þegar breytt opnunartíma leikskóla á þennan hátt. Þar má nefna að hjá Akureyrarbæ, Reykjanesbæ og Kópavogsbæ hefur þessi breyting þegar verið gerð. Í Árborg var þetta skref stígið fyrir fjórum árum. Niðurstaða af könnun okkar á nýtingu þessa viðbótartíma er að foreldrar um 18% barna í leikskólum borgarinnar kaupa þennan tíma en aðeins um 8% nýta hann. Því hefur verið haldið fram að stytting leikskólatímans bitni mest á fólki sem er í viðkvæmari stöðu. Til dæmis einstæðir foreldrar. Þegar við fórum að kanna þetta kom í ljós að flestir þeirra foreldra sem kaupa viðbótartíma eða um 73% er fólk í hjónabandi eða sambúð.” 

Jafnréttismat

Skúli segir borgarráð hafa ákveðið að láta vinna jafnréttismat á tillögunni um breyttan opnunartíma áður en málið komi til endanlegrar afgreiðslu. “Við munum leita eftir sjónarmiðum foreldra og rannsaka eins nákvæmlega og kostur er hvaða áhrif breytingarnar kunna að hafa fyrir mismunandi hópa foreldra. Í því sambandi verður skoðað hvort rétt sé að fara í einhverjar mótvægisaðgerðir til að koma til móts við foreldra sem eiga erfiðast með að mæta breytingunum. Ég finn fyrir miklum stuðningi frá leikskólasamfélaginu og mér finnst vera vaxandi skilningur á málinu meðal foreldra. Ég er hins vegar ekkert undrandi á að umræður skapist um mál af þessu tagi. Þetta snertir fólk með ýmsu móti.” Skúli segir talsvert rætt um styttingu vinnudagsins um þessar mundir. “Reykjavíkurborg var með tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar sem hafði góð áhrif og við viljum halda áfram á þeirri braut. Stytting vinnuvikunnar er mál sem kemur líka inn í kjarasamninga og það er metnaðarmál okkar að ná samningum um það við okkar viðsemjendur enda er þetta mál sem ég er sannfærður um að muni hafa góð áhrif á vinnuumhverfi og stuðla að fleiri samverustundum fjölskyldunnar.”

Leikskólarýmum fjölgað

Skúli segir að nú sé unnið kröftuglega að því að fjölga leikskólarýmum í borginni í tengslum við Brúum bilið aðgerðaáætlunina með það í huga að geta innan fárra ára boðið börnum leikskólavist strax að loknu 12 mánaða fæðingarorlofi. Á síðastliðnu rúmu ári hafi rýmum t.d. fjölgað um vel á annað hundrað m.a. með nýjum leikskóladeildum við fimm af leikskólum borgarinnar. Framundan er bygging nýrra leikskóla, viðbyggingar við eldri leikskóla og opnun rúmlega 20 ungbarnadeilda til viðbótar um alla borg. Þetta eru sérútbúnar deildir þar sem séð er fyrir þörfum yngstu barnanna. Þar eru meðal annars ný skiptiborð, upphituð gólf, ný húsgögn og leikföng auk útisvæða við hæfi yngstu barnanna. Við erum búin að opna 21 leikskóladeild og sjö munu bætast við á þessu ári. 

Betri borg fyrir börnin í Breiðholti gæti þessi mynd heitið en þar eru stjórnendur og starfsfólk frístunda- og velferðarsviðs saman komin í tilefni af verkefninu Betri borg fyrir börn í Breiðholti.

Betri borg fyrir börn

Skúli snýr sér að Breiðholtinu. “Þar hefur fjölmargt verið að gerast í skólamálunum. Nýjasta verkefnið er Betri borg fyrir börn, þar sem við ætlum að bæta þjónustuna við börnin í Breiðholti og gera hana markvissari með því að auka samstarf skóla og frístundasviðs og velferðarsviðs og færa ábyrgðina meira út í hverfið frá miðlægu skrifstofunni í Borgartúninu í anda dreifstýringar. Ég bind miklar vonir við þetta verkefni og ef vel tekst til munum við innleiða það í öðrum borgarhlutum líka innan fárra ára. Ég er sem jafnaðarmaður mikill talsmaður þess að við stígum djörf og róttæk skref í þá átt að jafna aðstöðumun barna í borginni og tryggja þeim jöfn tækifæri. Þar er staðreynd að börnin í Breiðholti búa að sumu leyti við erfiðari skilyrði og okkar skylda er að gera það sem í okkar valdi stendur til að brúa bilið svo þau hafi sömu tækifæri og jafnaldrar þeirra í öðrum hverfum til að láta drauma sína rætast – sem er jú stóra markmiðið með menntastefnunni okkar nýju.” 

Fjölga tónlistarnemum í Breiðholti

Skúli segir að einn liður í þessu verkefni sé að auka jöfnuð barna í borginni. Það felist í að endurskoða úthlutun fjármagns og taka þá meira tillit til félagslegrar og efnahagslegra aðstæðna. “Það myndi þýða að skólar með hátt hlutfall nemenda sem búa við krefjandi aðstæður fengju meira fjármagn til að styðja betur við bakið á sínum nemendum. Við ætlum líka að auka aðgengi barna að tónlistarnámi með því að gera tónlistarskólum kleyft að fjölga nemendum í þeim hverfum þar sem þátttaka barna í tónlistarnámi hefur verið hvað minnst. Hverfin í austurhluta borgarinnar munu sérstaklega njóta góðs af þessari aðgerð ekki síst Breiðholtið.  Síðast en ekki síst erum við með áform um að styðja sérstaklega við bakið á skólum þar sem nemendasamsetning og félagslegur bakgrunnur er hvað þyngstur.  Það eru því mjög spennandi tímar framundan í skóla og frístundastarfinu í Breiðholti og við hlökkum mikið til að vinna að þessum mikilvægu framfaramálum á næstu mánuðum.” 

You may also like...