Uppistandið eins og maraþon

Árni Helgason.

Árni Helgason hefur búið í sjö ár á Seltjarnarnesi ásamt Sigríði Dögg Guðmundsdóttur og þremur börnum og kunna þau vel við sig. Hann settist niður með Nesfréttum á dögunum, skömmu eftir þorrablót Seltirninga sem var haldið í byrjun febrúar en Árni var einn af þeim sem kom fram sem ræðumaður kvöldsins. Hann ólst upp í Vesturbænum og bjó þar lengst af, þótt hann hafi reyndar búið fyrsta æviárið í Vestmannaeyjum. Árni starfar sem lögmaður en hefur undanfarin misseri verið með uppistand, eitthvað sem hann segir að fari ágætlega með lögmannsstarfinu ásamt því að vera með vikulegt hlaðvarp, skrifa pistla og ýmislegt fleira. Við ræðum um Seltjarnarnesið, hinn dæmigerða Seltirning og margt fleira við Árna.

Árni er fæddur árið 1981, sonur þeirra Helga Bernódussonar sem vann áratugum saman hjá Alþingi, byrjaði fyrst 1973 í hlutastarfi og sem skrifstofustjóri þingsins frá 2005 þar til hann lét af störfum í fyrra og Gerðar Guðmundsdóttur, enskukennara sem kenndi lengi við Menntaskólann við Hamrahlíð en lét af störfum fyrir tveimur árum. Helgi er ættaður úr Eyjum en Gerður af Snæfellsnesi en Árni segir að í gegnum móðurömmu sína eigi hann smá tengingu við Nesið, þar sem amma hans, Magnea Sörensdóttir og Einar Snæbjörnsson, afi hans, bjuggu um árabil á Melabrautinni.

Kúlulaga ís á Melabrautinni

„Ég var oft í heimsókn hjá þeim, enda eina barnabarnið framan af og fékk þar af leiðandi mikla athygli. Þau bjuggu á Melabraut 51, eins og það hét þá en síðar var númerakerfinu breytt og þetta hús er númer 13 í dag. Þarna var Nesval rétt hjá og ég man að ég var grimmur þar í ísnum, þarna var seldur ís í kúlulaga plastumbúðum sem ég á mjög góðar minningar um!“ 

Að öðru leyti segist Árni ekki hafa haft mikla tengingu við Nesið fyrr en hann og fjölskyldan fluttu þangað árið 2012. 

„Þetta gerðist nú bara þannig að okkur leist vel á hæð á Unnarbrautinni sem var til sölu, keyptum hana og fluttum. Elsta dóttir okkar, Auður Freyja, var 4 ára þegar við fluttum hingað en síðan hafa bæst við Sólveig Katla og Kári Hrafn þannig að við erum orðin fimm manna fjölskylda. Við færðum okkur svo yfir á Bollagarðana fyrir tveimur árum og fundum það þegar við vorum að skoða fasteignamarkaðinn þá að það kom eiginlega ekki til greina að fara neitt annað, þar sem fjölskyldan var búin að skjóta hér rótum. Það er mjög þægilegt að vera hér með börn og mikil framsýni að vera með skóla, íþróttahús, tónlistarskóla og annað tómstundastarf á sama blettinum. Eldri stelpurnar tvær eru í Gróttu og ungi maðurinn á eflaust eftir að bætast í hópinn þar fljótlega.“

Börnin skapa tengslin

Aðspurður hvernig hafi gengið að komast inn í samfélagið þá segir Árni að það hafi gengið vel og að mestu gerst í gegnum börnin. 

„Elsta dóttir okkar er mjög dugleg að benda á að nánast allir vinir okkar á Nesinu séu foreldrar vinkvenna hennar. Þannig að hún hefur svona verið okkar akkeri í félagslífinu!“ 

Árni segir að Nesið sé ágætis blanda af litlu bæjarfélagi með sína eigin menningu og bæjarlíf annars vegar og svo hluti af höfuðborgarsvæðinu hins vegar og stutt að fara allar leiðir. 

„Mér fannst líka breyta heilmiklu að fá kaffihús á Eiðistorgið, svona til viðbótar við menningarstofnunina Rauða ljónið, en Arna er skemmtilegur staður til að koma með krakkana og fá sér kaffi. Ég gæti alveg séð fyrir mér að það væri pláss fyrir eitt eða tvö svona minni kaffihús eða stað hér til viðbótar, því það er orðið miklu eftirsóttara en áður að geta sótt svona í heimabyggð.“

Pólitískur áhugi

Árni hefur tekið þátt í og unnið í stjórnmálum og segist alltaf hafa haft mikinn áhuga á stjórnmálum. 

„Það kom svolítið með móðurmjólkinni og kannski í gegnum föður minn líka. Ekki í þeim skilningi að foreldrar mínir hafi verið að innræta mér skoðanir en frekar þannig að pabbi vann á Alþingi og ég fékk oft að fara með honum í vinnuna. Ég man að einn veturinn fékk ég að fljóta með honum í hádegisfótbolta með þingmönnum og ráðherrum í Valsheimilinu og varð alveg starstruck að vera að spila með sömu köllunum og voru í sjónvarpinu á kvöldin, ég man eftir Steingrími Joð, sem er nú reyndar enn á þingi í dag og Inga Birni Albertssyni, þingmanni, sem var náttúrulega ákveðinn yfirburðarmaður í boltanum, enda gömul knattspyrnuhetja. Ég fékk svona að hlaupa með og einhvern tímann var Ingi Björn búinn að sauma sig í gegnum alla vörnina og ákvað að leggja hann á mig til að ungi strákurinn gæti nú fengið að skora. En ég var svo uppnuminn af þessu öllu að ég bara horfði á hann og boltann til skiptis og steingleymdi alveg að setja hann í markið. Svo lék ég mér stundum við að vera þingmaður, lét mömmu sækja jakkaföt fyrir mig til að vera í. Ég tek samt fram, svo fólk haldi ekki að ég hafi verið alveg stórskrýtinn að ég lék mér nú líka mikið úti og var í íþróttum.“

Átakatímar í pólitíkinni

Árni segist hafa tekið þátt í ýmis konar félagslífi í menntaskóla og háskólanum. 

„Ég var forseti Framtíðarinnar þegar ég var í MR og svo í Háskólanum var ég í Vöku, var oddviti félagsins í Stúdentaráði og síðar í stjórn og formaður Heimdallar. Ég vann líka um tíma hjá Sjálfstæðisflokknum, sem framkvæmdastjóri þingflokksins, en það var á árunum 2007 til 2009. Þetta var svolítið sérstakt tímabil, mikill uppgangur og fjör þarna framan af en svo breyttist þetta skyndilega árið 2008 og svo kom hrunið þarna um haustið sem var náttúrulega mjög svona strembinn en að sama skapi mjög eftirminnilegur tími.“ 

Um haustið 2009 hafi hann gengið til liðs við tvo vini sína, þá Jóhannes Árnason og Sverri Pálmason, sem voru þá nýbúnir að stofna lögmannsstofu og þeir hafi rekið hana síðan, eða í rúmlega 10 ár. 

Aðspurður hvort þingmannsdraumurinn lifi í honum segir Árni að svo sé ekki, þótt hann fylgist vel með stjórnmálum og hafi áhuga þá sé náttúrulega aldrei hægt sé að útiloka hvað gerist í framtíðinni. 

Uppistand svolítið eins og maraþon

Aðspurður hvernig það hafi komið til að hann hafi byrjað í uppistandi segir Árni að það hafi verið gamall draumur að prófa. 

„Þetta er svolítið svona eins og margir lýsa því að fara í maraþon, fyrst ætlarðu bara að prófa þetta einu sinni og upplifa þetta, til að geta strokað þetta út af bucket-listanum. En eins og oft gerist þá uppgötvar maður eftir að fyrsta skiptið er búið að þetta bæði var gaman og eins hitt að maður vildi gjarnan gera hitt og þetta öðruvísi og betur næst. Svo ég taki það samt fram þá hef ég aldrei hlaupið maraþon en það er auðvitað gaman að nota þessa samlíkingu því þá fær fólk það kannski á tilfinninguna.“ 

Svo hafi smám saman teygst á þessu. Upphaflega hafi hann tekið þátt í „open-mic“ kvöldum sem eru haldin á Secret Cellar, sem er við Lækjargötuna en þar má í raun hver sem vill spreyta sig í nokkrar mínútur í senn. Svo hafi þetta smám saman undið upp á sig og hann hafi verið beðinn um að koma fram á viðburðum og svo framvegis. 

„Ég ákvað svo að halda sýningu hér í haust á Rauða ljóninu, hér í hjarta Seltjarnarness, sem var mjög gaman og var vel sótt. Hún hét því lýsandi nafni „Frumraun lögmanns í uppistandi“ og með mér voru þau Jakob Birgisson og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, sem var einmitt veislustjóri núna á þorrablótinu um daginn. Þetta var mjög gaman og vel sótt, við enduðum á að vera með tvær sýningar þarna sama kvöldið í Koníaksstofunni á Rauða ljóninu og lofthitinn var orðinn gríðarlegur, þannig að það náðu allir allvega ákveðinni vökvalosun.“ 

Árni segir að þetta hafi verið gaman og gengið vel, svona sem frumraun á þessu sviði og svo hafi verið töluvert að gera síðan. „Ætli þetta séu ekki orðin um 15-20 „gigg“ síðan þá,“ segir Árni. 

Hann hefur einnig verið með hlaðvarpsþáttinn Hismið ásamt Grétari Theodórssyni síðan árið 2013 en þátturinn er gefinn út vikulega. 

„Það hefur verið mjög gaman, við erum með þetta tveir og fáum oft gesti. Þetta er svona um málefni líðandi stundar en þó á frekar léttum nótum.“ Þá skrifar Árni einnig pistla í Fréttablaðið reglulega. 

Fjölskyldan við jólatréð heima í stofu. Frá vinstri, Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, Sólveig Katla Árnadóttir, Auður Freyja Árnadóttir, Árni Helgason og Kári Hrafni Árnason.

Brúðkaup framundan

Það er því í nógu að snúast. Á þorrablótinu um daginn kom fram hjá Árna að það væri svo stórt verkefni framundan, nefnilega að hann sé að fara að gifta sig í sumar. 

„Þetta verður seltirnskt brúðkaup, haldið hér á Nesinu og veislan í félagsheimilinu og svo vonandi eftirpartý á Rauða ljóninu. Ég og Sigríður Dögg konan mín erum búin að vera saman í 13 ár þannig að þetta var alveg orðið tímabært!“ 

Á þorrablótinu fór Árni einnig yfir það hvernig hinn dæmigerði Seltirningur kæmi honum fyrir sjónir. 

„Já, ég hef svona rekið mig á það að hér er algengt að fólk vinni við ráðgjöf eða „ýmis verkefni“ eins og það heitir, vinnur mikið á kaffihúsum en er kannski ekki svona mjög fast við. Færri Seltirningar vinna í raunhagkerfinu, þó við eigum auðvitað nokkra góða fulltrúa þar. Þannig að þetta er svona huggulegt samfélag 4000 ráðgjafa og nokkurra smiða.“

Tengsl til Eyja og víðar

Aðspurður um tengsl sín við önnur svæði, eins og t.d. Vestmannaeyjar, segir Árni að þau séu ágæt. „Föðurfjölskyldan er öll þaðan og við förum þarna af og til. Ég bjó þarna fyrsta æviárið, þó ég muni náttúrulega ekki eftir því en þá var faðir minn að vinna á bókasafninu í Eyjum. „Síðasta sumar gerðum við ágætis ferð þarna til Eyjanna, faðir minn varð sjötugur í byrjun ágúst og við skelltum okkur öll á þjóðhátíð og vorum nokkra daga í viðbót og héldum upp á afmælið hans þar.“ 

 Árni bætir því svo við að hann og Sigríður hafi búið á Höfn í Hornafirði í nokkur ár, 2010-2012 í tengslum við starf sem Sigríður tók að sér þar. „Það var skemmtilegur tími, við héldum reyndar tvö heimili, ég var í bænum og Sigga fyrir austan og svo flugum við á milli. Það var mjög gaman að kynnast samfélaginu á Hornafirði og dóttir okkar er t.d. enn í sambandi við vinkonu sína þaðan.“

You may also like...