Á Farsældarþingi í Hörpu

Jóna Rán Pétursdóttir forstöðukona Selsins og Skeljarinnar, Guðlaug Helga Björnsdóttir, Embla Rut Ólafsdóttir, Sigrún Sjöfn Aradóttir, Gísli Baldur Garðarsson og Ása Kristín Einarsdóttir Verkefnastjóri frístunda- og forvarnarstarfs.

Fulltrúar Seltjarnarnesbæjar sóttu farsældarþing sem fór fram í Hörpu mánudaginn 4. september. Þar áttu fagfólk, þjónustuveitendur, stjórnvöld, börn og aðstandendur víðtækt samtal um farsæld barna. Þingið er mikilvægur liður í stefnumótun á áætlanagerð þegar kemur að innleiðingu laga um farsæld barna.

Skráning á þingið fór fram úr björtustu vonum og voru um 800 manns þátttakendur í sal og um 200 til 300 manns voru með í streymi inn á vef Stjórnaráðsins. Á þinginu var lögð mikil áhersla á þátttöku barna og ungmenna, að skapa þeim vettvang til að láta rödd sína heyrast um málefni sem þau varða. Tekin voru frá 50 sæti á þinginu fyrir börn á aldrinum 12 til 17 ára en 37 sátu þingið í þetta sinn. Gagnrýnisraddir komu þó fram um þátttöku barna hlutfallslega miðað við þátttöku fullorðinna. Eins og áður segir þá kom aðsókn þátttakenda á þingið skipuleggjendum gjörsamlega í opna skjöldu og úrbætur á því fyrirhugaðar fyrir næsta þing. Ungmennum stóð til boða að flytja kveikjur fyrir þingið sem gáfu þátttakendum innblástur í hópavinnu sem fram fór. 

Seltjarnarnesbær tók þátt með fjögur ungmenni sem koma úr endurvöktu Ungmennaráði Seltjarnarness, þau Embla Rut Ólafsdóttir, Gísli Baldur Garðarsson, Guðlaug Helga Björnsdóttir og Sigrún Sjöfn Aradóttir. Dagurinn var virkilega fróðlegur og allir fulltrúar voru bænum til mikils sóma og þau koma þaðan yfirfull af nýjum hugmyndum. 

Farsældarlögin eru öllum í hag og framtíðin er björt. 

You may also like...