Ný hleðslustöð fyrir rafdrifnabíla á Fornhaga
Íbúar á Fornhaga 11 til 17 tóku nýja rafhleðslustöð fyrir bíla í notkun fyrir skömmu. Þeir skáluðu í heilsudrykkjum fyrir opnun stöðvarinnar. Það fer vel saman því stöðin á að fæða rafdrifna og heilsusamlega bíla. Hleðslutöðin hefur fengið heitið Hlaðgerður og getur hlaðið tvo bíla í einu enn sem komið er, en þar sem búið er að undirbúa jarðveginn er með lítilli fyrirhöfn hægt að bæta við hleðslubúnaði fyrir tvo bíla til viðbótar.
Enginn rafbíll er sem stendur í eigu íbúa en gert er ráð fyrir að það breytist fljótlega. „Til þessa hafa aðstæður ekki boðið upp á rafbíla við blokkina,“ segir Sólrún Harðardóttir íbúi og þátttakandi í umhverfisnefnd húsfélagsins. „Það eru íbúar í startholunum með að kaupa sér rafbíl“. Mikil samstaða er meðal íbúa Fornhagablokkarinnar um umhverfismál og líta þau á hleðslustöðina sem mikilvægan þátt í vistvænum lifnaðarháttum. Framkvæmdin var styrkt af Reykjavíkurborg og OR fyrir um 1,5 milljónir króna í samræmi við átak í uppbyggingu innviða til hleðslu á rafbílum í Reykjavík. Eitt af verkefnum þess átaks eru styrkir til húsfélaga. Nú þegar hafa verið samþykktar umsóknir til húsfélaga fyrir um 20 milljónir króna, en það eru rúmlega 400 íbúðir sem njóta þeirrar uppbyggingar.
Kostnaður húsfélagsins fyrir stöðina og uppsetningu hennar var í heild um 3,4 milljónir króna, en leggja þurfti sérstaka heimtaug að stöðinni. Hleðslustöðin er frá Ísorku og kynnti Jón Árni Jónsson frá Ísorku virkni stöðvarinnar fyrir íbúum. Stöðin er stillt í dag til að geta þjónað fleirum en íbúum á Fornhaga 11 til 17 og kaupa aðrir sér aðgang í gegnum kerfi Ísorku með appi eða aðgangslykli.