Innleiðir Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna

Undirritunin fór fram í húsakynnum UNICEF á Íslandi að viðstöddum félagsmálaráðherra og fulltrúum þeirra fimm sveitarfélaga sem leggja nú af stað í þennan mikilvæga leiðangur.

Á dögunum undirritaði Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri, fyrir hönd Seltjarnarnesbæjar, samstarfssamning við UNICEF á Íslandi og Félagsmálaráðuneytið um þátttöku í verkefninu Barnvæn sveitarfélög. Samningurinn markar þau tímamót að Seltjarnarnesbær hefur vinnu við að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og stefnir bæjarfélagið að því að hljóta viðurkenningu sem barnvænt sveitarfélag UNICEF á Íslandi. 

Seltjarnarnesbær ásamt fjórum öðrum sveitarfélögum sem eru nú að hefja þessa vegferð bætast þar með í hóp 12 annarra sveitarfélaga sem vinna nú markvisst að því að innleiða barnasáttmálann og gera réttindi barna að veruleika með stuðningi frá UNICEF á Íslandi og Félagsmálaráðuneytinu. 

Undirritunin fór fram í húsakynnum UNICEF á Íslandi að viðstöddum félagsmálaráðherra og fulltrúum þeirra fimm sveitarfélaga sem leggja nú af stað í þennan mikilvæga leiðangur. Leiðangur þar sem að mannréttindi og þarfir barna verða sett í forgrunn í allri þjónustu við börn sem og þegar að ákvarðanir og verkferlar eru skoðaðir. 

Ásgerður Halldórsdóttir bæjar­stjóri með barnasáttmálann.

Ánægjudagur og tilhlökkun

,,Þetta er mikill ánægjudagur og við hjá Seltjarnarnesbæ hlökkum til að takast á við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og munum gera það af metnaði. Barnasáttmálinn útskýrir hvað það þýðir að vera barn, hver öll réttindi barna eru sem og skyldur foreldra og stjórnvalda. Sáttmálinn leggur þær skyldur á sveitarfélög að grípa á markvissan hátt til aðgerða til að tryggja velferð barna, m.a. á sviði mennta-, heilbrigðis- og félagsmála. Sáttmálinn tryggir börnum enn fremur rétt til að láta í ljós skoðanir sínar á öllum málum sem þau varða með einum eða öðrum hætti, í takt við aldur þeirra og þroska. Það skiptir miklu máli að hafa börnin með í ráðum, hlusta og taka tillit til skoðana þeirra. Að þessu verkefni vill bæjarstjórn Seltjarnarness vinna með öllum í okkar góða samfélagi og stofnunum bæjarins.“ Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar.

You may also like...