Ég var kallaður “eftirlitsmaður”
– segir Eyjólfur Scheving kennari sem vann sumarlangt við snúninga við byggingu Bakkahverfisins í Breiðholti –
Miklar framkvæmdir fóru af stað á Breiðholtsjörðinni á síðari hluta sjöunda áratugs liðinnar aldar. Í Breiðholtslandinu hófust framkvæmdir við byggingu nýrrar íbúðabyggðar utan eldri byggða í Reykjavík. Þessar framkvæmdir voru til komnar vegna samkomulags verkalýðshreyfingarinnar og ríkisvaldsins að loknum kjaradeilum sem rekja má aftur til 1961. Þær náðu hápunkti á vormánuðum 1964 og leystust með loforði um miklar húsnæðisbætur ári síðar 1965. Í júní mánuði 1967 var hafist handa við framkvæmdir við Bakkahverfið í Breiðholti sem stundum er kallað Breiðholt I þegar byggðir þar eru aðgreinar í þau þrjú megin svæði sem mynda Breiðholt sem eina heild. Fjöldi manna fengu vinnu við þessar framkvæmdir. Tæknimenn, húsasmiðir og verkamenn. Einn þeirra sem kom til tímabundinna starfa við Breiðholtsframkvæmdirnar var ungur kennari Eyjólfur Scheving. Hvaða hlutverk fékk hann. „Ég var kallaður eftirlitsmaður. Held það hafi verið sagt í einhverju gríni en hlutverk mitt var að vera einskonar sendisveinn og einnig að halda utan um ýmsar skráningar sem fylgdu framkvæmdunum.“ Eyjólfur flutti eftir þetta sumar á árdögum Breiðholtsins til Borgarness þar sem hann stundaði kennslustörf um árabil. Í dag býr Eyjólfur í Vesturberginu og hann rölti fúslega yfir götuna út í Gamla kaffihúsið til að rifja þessa tíma upp.
Eyjólfur segir að faðir sinn hafi verið steypustjóri hjá BRÚ sem stóð að byggingaframkvæmdunum. „Ég kynntist því Sigurði Jónssyni sem var framkvæmdastjóri Brúar sem síðar varð Breiðholt. Eflaust má rekja starf mitt í Breiðholtinu til þessara kynna. Sigurður, Hafsteinn Baldursson og Friðrik Helgason sem voru múrarameistarar komu að máli við mig um hvort ég vildi taka þetta að mér. Birgir Björnsson handboltahetja úr FH var yfir steypustöðinni. Allt lagðist þetta á eitt með mér. Ég hafði stundað hlaup. Var léttur á mér og gat verið snöggur að skokka á milli staða. Það hefur eflaust einnig orðið til þess að ég var fenginn í þetta. Ég þurfti að fara á milli byggingasvæðanna eða húsgrunnanna bæði til að líta eftir og einnig að skrá ýmsar upplýsingar einkum tölur. Ég var nokkuð góður í stærðfræði þótt hún yrði ekki ein af mínum kennslugreinum á starfsferlinum. Ég hef alltaf verið klaufi til verklegrar vinnu. Það mælti ekki sérlega vel með mér en ég var sæmilega læs og gat skrifað góða tölustafi. Ég fylgdist með flutningum á milli vinnusvæða. Þurfti að halda utan um verkfæri því stundum vildu verða vanhöld á þeim. Sá um að halda launaseðlum saman og fleira.
Gæta þurfti að allt passaði saman við tilbúnu húsin
Eitt af því sem ég tók þátt í var að flytja tilbúnu húsin sem voru sett upp við Lambastekk og Skriðustekk. Þau komu í pörtum frá Danmörku og voru sett saman á staðnum. Gæta þurfti vel að því að réttir húshlutar röðuðust saman. Að ekki færi gafl af einu húsi á annað. Þetta passaði ekki alveg hvort við annað svo að réttir hlutar urðu að fylgja réttu húsi. Þetta var allt númerað og fylgjast varð vel með númerunum þegar húshlutirnir voru fluttir. Annars gat farið illa. Björn Emilsson og Guðmundur Einarsson verkfræðingar höfðu umsjón með þessu verki og ég var að fylgjast með. Ég er ekki frá því að þarna hafi heitið „eftirlitsmaður“ orðið til. Vinir mínir hentu gaman af þessu hlutverki mínu en skyldu ef til vill ekki alveg hvernig stóð að því að ég ungur kennarinn var farinn að sinna byggingareftirliti. Að vera „eftirlitsmaður“ með stórtækustu byggingaframkvæmdum sem lagt hafði verið í hér á landi á þeim tíma. Ég held nú frekar að ég hafi verið hlaupastrákur á svæðinu en látum heitið „eftirlitsmaður“ standa.“
Steypuklefar yfir verkalýðinn
Eyjólfur litur til baka. Til þess tíma að hann ungur maður var að sendast um byggingasvæðið þar sem Bakkarnir og Stekkirnir í Breiðholti voru að rísa. Til þess tíma að mikil húsnæðisvandræði einkenndu borgarsamfélagið í Reykjavík og til þess tíma að verkalýðshreyfingin og stjórnvöld tóku höndum saman um að vinna á mesta vandanum. Hann segir að lengi hafi menn fylgst með úr fjarlægð hvernig nágrannaþjóðirnar hafi allt frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar reist háreist íbúðahverfi þar sem aðferðum fjöldaframleiðslu var beitt til þess að vinna á húsnæðisvanda eftirstríðsáranna. „Lengi vel sátu menn hér á landi fastir i handverksaðferðum og hefðbundinni áherslu að menn byggðu yfir sig sjálfir. Þessar áherslur ættaðar úr samfélagi bænda og fiskimanna voru lífseigar með þjóðinni. Það var ekki fyrr en á sjötta áratugnum að menn fóru að horfa í aðrar áttir. Þá voru fyrstu háhýsin í Heimahverfinu byggð. Framkvæmdanefnd byggingaráætlunar varð nokkru síðar brautryðjandi að þessu leiti. Við byggingu Fellahverfisins sem byggt var á eftir Bökkunum voru í fyrsta skipti notaðir byggingakranar sem voru færanlegir á teinum og var rennt með fram byggingunum. Ég man að í Þjóðviljanum í september 1971 birtist mynd af Hannibal Valdimarssyni þáverandi félagsmálaráðherra taka fyrstu skóflustunguna að lengsta íbúðarhúsi landsins sem reisa átti í Fellahverfi í Breiðholti. Guðmundur J. Guðmundsson lengstum kenndur við Dagsbrún sagði síðar í ævisögu sinni að þessi byggingarmáti hafi orðið til vegna sérvisku arkitekta sem hafi langað til að byggja lengsta hús hér á landi. Hvað sem því liður mun einhverju hafa ráðið um þetta að stífar kröfur voru gerðar um að spara í byggingarkostnaði. Með því að fella gafla húsanna saman væri hægt að spara einangrun. Einhverrar efasemdir gerðu þó vart við sig um þennan byggingarmáta og mátti lesa grein í Þjóðviljanum þar sem fullum efasemdum var lýst og vitnað til neikvæðrar reynslu erlendis af byggja steypuklefa yfir verkalýðinn.“
Skúra- og braggadraslinu útrýmt
Eyjólfur segir að Breiðholtið sé að einhverju leyti barns síns tíma. Óvíst sé að menn myndu byggja eins í dag. „Einhæfar byggingaaðferðir sem voru notaðar við byggingu hluta Breiðholtsins voru lenska þess tíma. Málið var að framkvæmdir í Breiðholti voru hluti af kjarasamningum og með þeim hafði náðst að skapa frið á vinnumarkaði. Húsnæðisvandinn ýtti líka á. Mikla nauðsyn bar til að útrýma bráðabirgðahúsnæði á borð við Höfðaborgina og herbraggahverfin. Eða eins og Guðmundi J. komst að orði í ævisögu sinni var skúra- og braggadraslinu útrýmt. Einfaldlega voru settar jarðýtur á þessi hreysi. Og ekki má gleyma því að húsaleiga í Reykjavík lækkaði. Allt í allt voru byggðar um 6.700 íbúðir í Breiðholti og stór hluti var byggður fyrir tilstilli júlísamkomulagsins. Með þessu átaki tókst líka að tryggja tekjulágu fólki öruggt húsnæði. Þrátt fyrir þetta urðu húsnæðisvandræði ekki úr sögunni. Borgarbúum fjölgaði stöðugt og fjölgar enn og vandi hefur verið að fylgja þeirri þróun eftir á húsnæðismarkaði.”
Dómur sögunnar
Framkvæmdirnar í Breiðholti voru gagnrýndar. Einkum af byggingameisturum og félagasamtökum þeirra. Í Dagblaðinu og Vísi var bent á að byggingaframkvæmdir í Breiðholti tefðu framkvæmdir í Fossvogsdalnum og að iðnaðarmenn flykktust í Breiðholtið. Dómur sögunnar yfir þeim sjónarmiðum var harður. Vissulega töfðust framkvæmdir í Fossvosdalnum en bygging Breiðholtsins var af hinu góða og opnaði mönnum nýja sýn í húsnæðismálum láglaunafólks í Reykjavík. Ég er ekki viss um að ungt fólk í dag geri sér grein fyrir þessu gríðarlega átaki.“
Aftur að kennslu
En hvað varð um Eyjólf eftir skemmtilega lífsreynslu sem „eftirlitsmaður“ með byggingaframkvæmdum framkvæmdanefndarinnar í Neðra Breiðholti. „Ég fór úr Reykjavík. Ekki fyrir að mér líkaði ekki lífið í heimabænum. Ég hafði starfað við kennslu á Kjalarnesi og þarna um haustið bauðst mér kennslustarfi í Borgarnesi. Ég hafði ekki ætlað mér að hverfa frá kennslu og fara í byggingaiðnaðinn enda kunni ég fátt til verka þar nema að líta eftir og skrá það sem þurfti að fara á blað. Ég held að hvorki æskuvinur mínir eða þeir sem ég kynntist á meðan ég dvaldi í Borgarnesi hafi skilið þessa ráðningu mína sem „eftirlitsmanns“ með byggingaframkvæmdum.“
Hefur unnið með ungmennum í erfiðleikum
Sem ungur kennari hafði Eyjólfur aðra sýna á hvernig taka ætti á vanda unglinga sem áttu í erfiðleikum heima fyrir og með sjálfa sig. „Ég var ekki sáttur við þá hugmyndafræði sem var ríkjandi að senda bæri þá eitthvað langt í burtu. Ég hafði alltaf vonda tilfinningu fyrir því. Enda kom margt á daginn þegar farið ar að skoða rekstur unglingaheimila sem sett voru á stofn úti á landi. Margt sem ekki hefði átt að geta gerst. Eftir að ég kom frá Borgarnesi bjuggum við í Kópavogi. Ég fór að taka drengi sem áttu í erfiðleikum heim til mín, drengi sem vísað hafði verið úr skóla. Vildi ekki að þeir lentu á einhverjum heimilum úti á landi. Þeir áttu í ýmsum vandamálum sem sneru að hegðun, samskiptum vímuefnaneyslu, afbrotum og námserfiðleikum. Flestir þessara stráka eru vinir mínir í dag.”