Fjórir nýir landgangar í Suðurbugt

Unnið að því að flytja flotbryggjurnar úr Suðurbugtinni.

Fjórir nýir landgangar verða settir upp í Suðurbugt og Vesturbugt. Þeir eru 18 metra langir og fullkomnari og öruggari fyrir gangandi fólk en þeir eldri. Flotbryggjurnar fyrir smærri báta hafa verið fjarlægðar tímabundið úr Suðurbugt fyrir framan grænu verbúðirnar sem nú hýsa veitingastaði. 

Flotbryggjunum hefur verið komið fyrir til bráðabirgða í Vesturbugtinni fyrir framan Sjóminjasafnið. Einnig hefur gamall brimbrjótur verið fjarlægður og nýjum og öflugri verður komið fyrir. Verktakafyrirtækið Króli hefur annast þetta verk. Þá hefur verið unnið að því að dýpka Suðurbugtina. Verkið var unnið með prammanum Reyni en efnið flutt burt með flutningaprammanum Pétri mikla en skipin eru á vegum Björgunar. Efnið úr bugtinni var flutt í sandnámu sem er á hafsbotni í Faxaflóa. Flotbryggjunum verður komið fyrir að nýju í Suðurbugt að verki loknu.

You may also like...